Sveinn Óskar Sigurðsson
Sveinn Óskar Sigurðsson
Ég skora á alla aðstandendur þessa verkefnis að setja sig betur inn í þetta mál og leysa þessa flækju og þetta úrræðaleysi sem málið er að enda í.

Sveinn Óskar Sigurðsson

Alma Möller heilbrigðisráðherra mætti í viðtal hjá Bergsteini Sigurðssyni í Kastljós RÚV þann 24. apríl sl. ásamt Vigdísi Jónsdóttur, forstjóra VIRK endurhæfingarsjóðs ses. Fjallað var um að stöðva ætti fjárflæði til Janusar endurhæfingar.

Það sem einkenndi framangreint viðtal í Kastljósi RÚV er að Bergsteinn lagði fram beittar spurningar en fylgdi þeim ekki eftir. Leitt var að heyra frá heilbrigðisráðherra að hún segist fullviss um að ákvörðun um að loka á samningsbundið fjárflæði í starfsemi Janusar endurhæfingar hafi komið til í tíð Willums Þórs sem heilbrigðisráðherra. Er þetta virkilega rétt? Ráðherra hverju sinni tekur ákvörðun um slíkt. Ef heilbrigðisráðherra vill viðhalda verkefninu tekur hún ákvörðun um það. Til þess eru stjórnmálamenn sem kjörnir eru á þing og skipaðir sem ráðherrar. Það virðist deginum ljósara að það er Alma Möller, ekki Willum Þór, sem er að stuðla að því, með stöllu sinni Vigdísi Jónsdóttur forstjóra VIRK, að loka á þessa mikilvægu starfsemi með því að stöðva fjárflæðið í ósamræmi við gerðan samning er fjölmargir fögnuðu fyrir fáeinum misserum.

Yfir þjónustusamning sem hér um ræðir fór Arnór Víkingsson, læknir og formaður Endurhæfingarráðs, í pistli sínum á visir.is 16. október árið 2023. Í þeim pistli fagnaði hann innilega „merkisdegi“ eins og hann kallaði tíunda október 2023. Það var dagurinn er Willum Þór Þórsson þáv. heilbrigðisráðherra o.fl. rituðu undir þennan samning. Um er að ræða samning um þverfaglega, heildstæða endurhæfingu NEET (e. Not in Education, Employment or Training) ungmenna á Íslandi. Verkefnið sneri að ungu fólki sem býr við fjölþættan geðrænan vanda og sum hver einnig með einhverfu eða á einhverfurófi.

Nú virðist sem Alma og Vigdís hafi sammælst um að þetta gangi ekki upp, þ.e. að þessi samningur sé ómögulegur. Það er ekki hægt að starfa með fyrirtæki sem er eldra en VIRK og fólki sem þekkir málið betur en flestir aðrir og getur sinnt geðlæknaþjónustu sem Vigdís í VIRK getur ekki boðið upp á. Á virkilega að láta slag standa með þetta unga fólk sem er að jafnaði á aldrinum frá 18 til 29 ára og leggja úrræði fyrir þau niður?

Í grein sinni getur Arnór þess að a.m.k. 5% hvers árgangs í vestrænum löndum teljast falla undir NEET, þ.e. einstaklinga sem verða nú afskiptir og aftur einangraður án faglegra úrræða og geðhjálpar verði áform, í raun úrræðaleysi, Ölmu og Vigdísar í VIRK að raunveruleika. Ekkert annað kom fram hjá heilbrigðisráðherra en að ljúka þyrfti við enn aðra skýrsluna, nú í félagsmálaráðuneytinu, svo hægt sé að svara beittum spurningum Bergsteins Sigurðssonar í Kastljósi [mínúta 10:06 til 12:02 í þættinum].

Alma Möller, heilbrigðisráðherra og fv. landlæknir, vísar því málinu í fangið á Ingu Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra. Hvað þá með mennta- og barnamálaráðherra, Guðmund Inga Kristinsson? Er ekki ráð að þessir þrír ráðherrar leysi þetta og það sem fyrst?

VIRK endurhæfingarsjóður ses. er verkefni atvinnulífsins þar sem inn streyma miklir fjármunir. Samið er 2023 um að VIRK „skammti“ Janusi endurhæfingu skjólstæðinga eftir því sem VIRK telur henta og eiga við. Húsbóndavaldið færðist þá yfir til VIRK. Hvernig hefur Vigdís í VIRK nýtt þessi úrræði?

Samkvæmt gagnaskrám, sem finna má m.a. á vefsetri VIRK, hefur þessi fjöldi numið um 548 einstaklingum (18-30 ára) árlega hjá VIRK að meðaltali á árabilinu 2016 til og með 2023. Sé miðað við 5%, sbr. grein Arnórs, af hverjum árgangi á sama tíma er að meðaltali um að ræða þörf á úrræðum fyrir um 3.491 ungmenni á þessu aldurskeiði á hverju ári. VIRK er því að afgreiða aðeins um 16% af þörfinni og hefur svo úrskurðarvald að „skammta“ Janusi endurhæfingu skjólstæðinga til umönnunar skv. samningi. VIRK hefur á árabilinu 2021 til 2024 sent og samið um úrræði fyrir 140 (2020) til 80 (2024) einstaklinga í úrræði sem buðust hjá Janusi endurhæfingu á þessum tíma. Nægt er þó rýmið. Nýtingin hjá VIRK á þessum rýmum Janusar endurhæfingar á tímabilinu fór úr 97% að meðaltali á ári niður í um 50%, þá árið 2023. Þar var í raun um sóun VIRK á fjármunum að ræða. Af þeim fjölda sem Arnór gerir ráð fyrir að þurfi að sinna er VIRK aðeins að nýta pláss Janusar endurhæfingar er nemur um 4% af þörfinni sem er úti í samfélaginu. Það er á ábyrgð ráðherra. En er VIRK ekki að virka? Hver er skilvirkni VIRK?

Það að Alma Möller og Vigdís hjá VIRK afgreiði þetta mál eins ódýrt og raun ber vitni er þeim til vansa og í raun stórvarasöm og ámælisverð nálgun. „Við erum alveg með úrræði þar sem allt er á einum stað en það er kannski ekki geðlæknir.“ [mínúta 14:52] segir Vigdís í VIRK í framangreindum Kastljósþætti. Hvers konar framkoma er þetta við almenning í landinu? Er það orðið svo að sé ætlunin að leita í íslenska heilbrigðis- og félagsþjónustu og þörf sé á tannlækni að nú sé boðið upp á tannlæknastofur fyrir tannpínuþjáða þar sem enginn er tannlæknirinn?

Ég skora á alla aðstandendur þessa verkefnis að setja sig betur inn í þetta mál og leysa þessa flækju og þetta úrræðaleysi sem málið er að enda í.

Höfundur er oddviti Miðflokksins í Mosfellsbæ.

Höf.: Sveinn Óskar Sigurðsson