Agnar Már Másson
agnarmar@mbl.is
Dómsmálaráðherra vill „nýta til fulls“ lagaheimildir sem gera stjórnvöldum kleift að láta erlenda fanga á Íslandi afplána dóm í sínu heimalandi og segir að ráðuneytið sé að einfalda verkferla með það fyrir augum. Einnig kemur „vel til greina“ að semja við önnur ríki um flutning erlendra fanga.
Þetta kemur fram í svari Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur dómsmálaráðherra við fyrirspurn Diljár Mistar Einarsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sem fagnar afstöðu ráðherrans.
Í svari ráðherra er vísað í samning Evrópuráðs um flutning dæmdra manna, sem gerir það mögulegt að flytja fanga til síns heimalands, í sumum tilfellum í óþökk fangans. Stór hluti fanga sem eru í fangelsum núna falli undir þann samning. „Að mati ráðherra er mikilvægt að nýta þessar heimildir til fulls,“ segir í svari Þorbjargar. Vinna standi yfir við að einfalda verkferla og virkja alþjóðasamstarf með það fyrir augum.
Diljá Mist segist í samtali við Morgunblaðið taka vel í afstöðu ráðherrans. Að hennar mati væri með þessu hægt að draga úr þeim kostnaði sem fylgi því að láta erlenda fanga afplána hér á landi. „Þetta er gríðarlega mikilvægt,“ segir Diljá.
Hægt að senda þá annað
Enn fremur segir í svari ráðherra að það komi einnig „vel til greina“ að semja við önnur ríki um flutning erlendra fanga ef svo ber undir, svo lengi sem aðstæður í fangelsum uppfylli alþjóðlegar mannréttindaskuldbindingar. Dæmi eru um það erlendis að stjórnvöld geri samninga við önnur ríki um móttöku á erlendum föngum.
„Þessi umræða hefur verið hávær í nágrannalöndum okkar,“ segir Diljá og nefnir í því samhengi Danmörku, sem samdi í ár við Kósovó um að leiga 300 fangaklefa í kósovósku fangelsi.
Einnig má nefna umdeildan samning sem Bandaríkin gerðu nýlega við El Salvador, þar sem Trump-stjórnin sendi í mars hundruð meintra gangstera til afplánunar í eitt alræmdasta fangelsi heims.