Helgi Snær Sigurðsson
„Frábær mynd en samt eitthvað svo leiðinleg,“ sagði samstarfsmaður minn eftirminnilega um kvikmynd fyrir mörgum árum og þann frasa nota ég oft því hann kjarnar svo vel það sem maður hugsar svo oft en þorir varla að segja. Hann á við myndir sem þykja sérstaklega gáfulegar, svo mjög að ekki er fyrir meðal-Jóninn að skilja þær.
Á hinum endanum eru hræðilega lélegu myndirnar, svo slæmar að þær fara í raun heilan hring og verða á endanum góðar og jafnvel sígildar. Þeirra á meðal eru hin margfræga The Room og Plan 9 from Outer Space. Þær eru reyndar einna ýktustu dæmin, varla hægt að horfa á þær. En það er um að gera að reyna því það getur verið hin besta skemmtun að horfa á lélega bíómynd. Til þess þarf auðvitað úthald, þolinmæði og ákveðna gerð af skopskyni. Þegar litið er til lista yfir verstu kvikmyndir sögunnar virðast tveir leikarar birtast oftar en aðrir: Nicolas Cage og John Travolta. Þeir hafa vissulega leikið í margri hörmunginni en líka frábærum myndum. Nefni sem dæmi Pulp Fiction (Travolta-snilld) og Raising Arizona (Cage-snilld), Trapped in Paradise (Cage-hörmung) og Battlefield Earth (Tavolta-hörmung). Þótt mistækir séu verða leikararnir seint sakaðir um einhæfni í verkefnavali.