Í þriðja skiptið á innan við tveimur árum hefur mikið magn kókaíns fundist á bananalagernum Bama í Ósló í Noregi þar sem tollgæsla uppgötvaði 147 kílógrömm af efninu 3. apríl í kjölfar ábendingar starfsmanna Bama.
Við gegnumlýsingu kassa sem nýkomnir voru á lagerinn á tíu vörubrettum fundu tollverðir efnið, en segja má að sjaldan sé ein báran stök í bananaveldinu þar sem hátt í tvö tonn af kókaíni hafa nú fundist frá árinu 2023 að telja en þá villtust tvær vörusendingar á leið til Þýskalands til norsku höfuðborgarinnar. Það magn efnisins sem fannst í apríl taldist að sögn Tims Gurriks deildarstjóra tollgæslu 600.000 neysluskammtar og hefði götusmásala þess samkvæmt útreikningum tollsins getað velt 170 milljónum norskra króna, jafnvirði rúmlega 2,1 milljarðs íslenskra króna.