Sigurhelga Þórðardóttir fæddist á Öngulsstöðum í Eyjafjarðarsveit 18. mars 1931. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Lögmannshlíð að kvöldi 16. apríl 2025.
Foreldrar hennar voru Þórður Jónatansson, f. 2. júlí 1893, d. 3. desember 1976 og Katrín Sigurgeirsdóttir, f. 9. mars 1905, d. 24. mars 2002, bændur á Öngulsstöðum II.
Bróðir Sigurhelgu var Birgir, f. 24. janúar 1934, d. 7. október 2023.
Systur hennar eru Jónína, f. 25. september 1927, d. 23. júní 2020, gift Ragnari Bollasyni, f. 16. janúar 1919, d. 7. desember 2005, þau bjuggu á Bjargi sem byggt var á hluta úr Öngulsstöðum II og eignuðust þrjú börn: Ragnheiður, f. 9. september 1940, gift Friðriki Jónssyni, f. 16. desember 1924, d. 4. febrúar 2007, þau bjuggu í Brekku í Kaupangssveit og eignuðust fimm börn.
Eftir barnaskóla var Sigurhelga tvo vetur í Héraðsskólanum á Laugarvatni og síðar fór hún í Húsmæðraskólann á Laugalandi. Sigurhelga var flink hannyrðakona og eftir að hafa unnið einn vetur á Hótel Varðborg á Akureyri færði hún sig yfir á Saumastofu Margrétar Steingrímsdóttur og vann þar á veturna, en á sumrin sinnti hún bústörfum með fjölskyldunni á Öngulsstöðum. Sigurhelga var mikil söngmanneskja, hún var í Kirkjukór Munkaþverárkirkju og samkórnum Þristi þar sem saman kom söngfólk úr öllum þremur gömlu hreppum Eyjafjarðarsveitar, hann starfaði í 10 ár frá 1977. Sigurhelga og Birgir bróðir hennar tóku við búskapnum á Öngulsstöðum af foreldrum sínum árið 1965. Þau systkinin sinntu búskapnum á Öngulsstöðum af heilum hug og var umgengni við bæinn og ásýnd til slíkrar fyrirmyndar að eftir var tekið. Þegar dró nær aldamótum minnkaði búskapurinn og þegar komið var á 21. öldina höfðu þau fært sig alfarið yfir í skógrækt. Sigurhelga flutti á Hjúkrunarheimilið Lögmannshlíð árið 2023 en Birgir, sem hafði dvalið þar í nokkra mánuði, lést skömmu síðar.
Sigurhelga var að eigin ósk jarðsett í kyrrþey frá Munkaþverárkirkju.
Það var alltaf gaman að koma á Öngulsstaði til þeirra systkina, Sigurhelgu og Birgis, og nú eru þau sameinuð á ný. Sigurhelga frænka okkar var ákaflega ættfróð kona og viðræðugóð. Henni fannst alltaf gaman að fá gesti og hún fylgdist ávallt vel með okkur systkinunum, hvernig okkur vegnaði og börnum okkar og barnabörnum. Hún spurði alltaf frétta og fannst alltaf gaman að spjalla og var þakklát fyrir heimsóknir og símhringingar. Sigurhelga hafði ríka samkennd með fólki og átti erfitt með að sjá eða heyra af fólki sem átti bágt.
Við eigum margar góðar æskuminningar frá Öngulsstöðum II. Laufabrauðsgerðin er einkar minnisstæð, sem endaði alltaf á óteljandi kökusortum frá Sigurhelgu. Á hverju ári var jólaboð á Öngulsstöðum, þar sem Sigurhelga hafði útbúið þvílíkar kræsingar, rjóma- og smurbrauðstertur, rjómapönnukökur og smákökur af öllum mögulegum og ómögulegum sortum, að ógleymdu besta kakói norðan Alpafjalla.
Við bárum alltaf virðingu fyrir Sigurhelgu. Ef við krakkagemlingarnir vorum aðeins búin að ólátast of mikið, upp og niður stigann á Öngulsstöðum, þá datt okkur ekki annað í hug en að hlýða þegar Sigurhelga bað okkur að hafa okkur hæg. Hún kom okkur þá gjarnan í ró með því að láta okkur fá bók eða dót, og það var t.d. á Öngulsstöðum sem við kynntumst Dísu ljósálfi, en þá bók lásum við spjaldanna á milli í nánast hverri heimsókn. Einnig lékum við okkur í heimatilbúnu kúluspili eða keyrðum leikfangabíla eftir skrautlegu stofugólfteppinu. Annars var Sigurhelga ótrúlega þolinmóð við þennan baldna krakkahóp. Leyfði okkur til dæmis að spila nánast óáreittum á píanóið hennar án þess að við kynnum nokkuð að spila. Það var þó ávallt hátíðlegt að koma á Öngulsstaði til ömmu, Sigurhelgu og Birgis. Alltaf svo snyrtilegt og svo fallegir munir, ekki síst handverk eftir Sigurhelgu sjálfa og allt á sínum stað. Það var því kannski ekki að undra að við litum upp til hennar.
Sigurhelgu þótti undurvænt um Öngulsstaði. Þar vildi hún vera og ekki að undra þar sem hún hafði haldið þar heimili í marga áratugi. Hún hafði sinnt þar öldruðum foreldrum sínum, hafði tekið þátt í bústörfum og síðar skógrækt með Birgi. Hún var dýravinur mikill og flestir hundar og kettir sem þar voru komu sjálfviljugir annars staðar frá og vildu svo ekki fara aftur. Allt fram á sína síðustu stund leitaði hugur hennar til Öngulsstaða og það er líkt með okkur í dag. Við sjáum Sigurhelgu taka á móti okkur á hlaðinu á Öngulsstöðum. Þakklát fyrir gestakomuna, faðmar hún okkur og býður til stofu. Þar fáum við fregnir, ekki bara nýjar, heldur sérstaklega fróðleik frá fyrri tíð og frásagnir af ættingjum, sveitungum og prestum fyrr og síð. Þessar stundir okkar á Öngulsstöðum munu sannarlega hjálpa okkur að halda minningu Sigurhelgu frænku á lofti.
Þórður, Jón Þorgrímur, Elísabet Katrín, Árni og Sverrir í Brekku.