Þessi fallega hringdúfa er á Siglufirði þessa dagana, þar sem hún leitar sér að jurtaæti á grasflötum við íbúðarhús, s.s. blómum, fræjum, laufblöðum og öðru slíku. Þetta er algengur flækingsfugl hér á landi á vorin og kemur stundum á haustin líka. Varpheimkynnin eru í Evrópu, hér og þar í Norður-Afríku, sem og í Mið- og Vestur-Asíu.
Hringdúfan er stærri en bjargdúfan og tamda dúfan, sem báðar verpa á Íslandi, og er að auki skógarfugl, ólíkt hinum. Tegundin hefur nokkrum sinnum verpt og komið upp ungum hér, fyrst árið 1962, eftir því sem næst verður komist, og með aukinni kornrækt ætti hún að geta plumað sig ágætlega í framtíðinni, hvað sem verður.