Jens Ágúst Jónsson fæddist í Reykjavík 25. júní 1949. Hann lést 28. maí 2025 á Landspítalanum við Hringbraut.
Foreldrar hans voru Katrín Skaptadóttur húsfreyja og Jón S. Jóhannesson stórkaupmaður. Systur Jens voru Pálína Ágústa, f. 1937, d. 2016, og Sveinborg, f. 1943.
Að gagnfræðaprófi loknu starfaði Jens Ágúst við fyrirtæki föður síns og í framhaldi af því fór hann til Þýskalands þar sem hann fór í vinnu og starfsnám. Jens var forstjóri fyrirtækisins þangað til það var lagt niður árið 1992. Hann starfaði hin síðari ár hjá ÍTR sem forstöðumaður sundlauga og um hríð var hann forstöðumaður Reiðhallarinnar í Víðidal.
Jens Ágúst var tvíkvæntur.
Fyrri eiginkona hans var Ingunn Árnadóttir. Þau slitu samvistum. Þau eignuðust saman soninn Sturlu. Hann er fæddur 2. janúar 1973. Eiginkona hans er Chiki Budsaraporn. Sonur Sturlu og Júlíu Guðjónsdóttur er Guðjón Árni, f. 12. júní 2003.
Seinni eiginkona Jens Ágústs er Lilja Leifsdóttir. Hún er fædd 18. desember 1948. Þau hófu búskap fyrir tæpum 50 árum. Dóttir þeirra er Soffía Rúna, f. 28. febrúar 1973. Eiginmaður hennar er Kristján Þórðarson.
Útför Jens Ágústs Jónssonar fór fram í kyrrþey miðvikudaginn 11. júní 2025.
Kær vinur hefur nú kvatt, eftir erfiða og langa baráttu við margvísleg og endurtekin veikindi undanfarin ár. Við furðuðum okkur oft á því hvað Jens var sterkur og stóð alltaf upp eftir hverja holskefluna á fætur annarri.
Vinskapur okkar hófst seint á áttunda áratugnum, þegar konur okkar kynntust í gegnum vinnu á Morgunblaðinu. Við áttum margt sameiginlegt og má þar nefna veiðidellu, áhuga á tónlist, bíla- og mótorhjóladellu og við höfðum svipaðar skoðanir á svo mörgu í þjóðmálunum. Svo kom í ljós þegar við kynntumst betur að ömmur Jens og Ingu, þær Sveinborg og Ingibjörg, höfðu verið bestu vinkonur og til voru myndir af þeim saman í gegnum tíðina.
Það kom enginn að tómum kofunum hjá Jens, þegar rætt var um það sem efst var á baugi og þá lá hann ekki á skoðunum sínum. Húmorinn var örlítið svartur og við kunnum að meta hann. Við minnumst þess þegar hann kom við hjá okkur á Laugarásveginum á kvöldin eftir ferðir í pottana og þá var farið yfir ýmis umræðuefni sem voru á döfinni þar í það skiptið.
Alltaf sá Jens spaugilegu hliðarnar á öllu. Eins og þegar við vorum á Grafarholtsvelli á olíudrifnum golfbíl, sem spjó reyk yfir allar brautir þar til vallarvörður kom og spurði hvað væri í gangi. Jens hló, en við hin hefðum viljað flýja með hauspoka. Fjandans reykspúandi drekinn var seldur í kjölfarið.
Þá var ekki leiðinlegt þegar gömlu átrúnaðargoðin okkar í Shadows komu til landsins og spiluðu á Broadway. Þar vorum við mætt og sátum nærri sviðinu og nutum og hápunkturinn var þegar Hank Marvin tók í útrétta hönd Jens.
Eins eru minnisstæðar veiðiferðir og heimsóknir í bústað Jens og Lilju. Þar hafði Jens flutt lítið hús á landskika í Flóanum. Það var reyndar berangurslegt í byrjun, eins og oft er í nýjum sumarbústaðalöndum, en breyttist fljótt í gróðursælan reit. Jens byggði við og smíðaði pall. En það lýsir honum vel að þegar því var lokið vildi hann selja. Það átti ekki við hann að sitja auðum höndum í bústaðnum eða að bíða eftir að kæmi að viðhaldi. Þá tóku við ferðir með hjólhýsið vítt og breitt um landið.
Við áttuðum okkur ekki á því fyrr en seint og um síðir hversu slæm heilsa Jens var. Hann kvartaði nefnilega aldrei, sagði í mesta lagi að hann væri mjög þreyttur. Við hittumst síðast á páskadag og erum þakklát fyrir að hafa átt með honum og Lilju notalega stund yfir páskamáltíð.
En nokkru síðar tók við lokarimman og við, sem vorum orðin svo vön að hann stæði allt af sér, urðum að sætta okkur við að nú væri komið að kveðjustund.
Eftirlætisorðatiltæki Jens var: „Þetta verður ekki betra með þessum mannskap.“ Það kom okkur alltaf til að brosa. Nú verðum við, sem eftir erum af þessum mannskap, að reyna að gera okkar besta án Jens.
Góða ferð, elsku Jens, og hafðu þökk fyrir vináttuna og það að þú þreyttist aldrei á að segja okkur hvað þér þótti vænt um okkur. Það var algjörlega gagnkvæmt.
Elsku Lilja, Soffía, Kristján, Sturla og Chiki, við vottum ykkur okkar dýpstu samúð.
Geir, Ingibjörg
(Inga) og synir.