Orri Harðarson, tónlistarmaður, upptökustjóri og rithöfundur, fæddist á Akranesi 12. desember 1972. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi 7. júní 2025.

Foreldrar hans eru Hörður Ó. Helgason, fv. skólameistari og knattspyrnuþjálfari, og Sigrún Sigurðardóttir, fv. læknaritari. Bróðir hans er Sigurður Már Harðarson.

Dætur Orra með fyrrverandi eiginkonu, Ingu Elísabetu Vésteinsdóttur, eru Karólína, f. 2011, og Birgitta Ósk, f. 2013.

Útför Orra fer fram frá Akraneskirkju í dag, 30. júní 2025, og hefst athöfnin klukkan 13.

Orri bróðir hefur kvatt þessa jarðvist. Hann er mörgum mikill harmdauði, enda var hann mannvinur og ljúfmenni hið mesta með sérstaka persónutöfra þegar sá gállinn var á honum – og vinamargur eftir því.

Dæturnar voru líf hans og yndi – og hann var einstaklega ástríkur og umhyggjusamur faðir. Sorgarferlið fyrir ættingja og vini hefur verið langt, allt frá því hann greindist með meinið í byrjun desember á síðasta ári. Hann sýndi hins vegar ótrúlegan andlegan styrk – og æðruleysi – og hóf sig yfir þá líkamlegu áþján sem fylgdi sjúkdómnum. Fór í raun á flug löngum stundum og jós kærleika yfir fólk, opinberlega á Facebook og í einkasamtölum.

Orri hafði mjög „sterkan front“ – eins og einn af hans bestu vinum hans orðaði það. Framhlið tiltekinna persónulegra tilfinningamála var því lokuð, eða réttara sagt, hann ræddi ekki um sín helgustu vé – nema að eigin frumkvæði. En þegar kom að því að aðstoða aðra – við að greiða úr tilfinningalegri óreiðu – stóðu allar dyr opnar.

Hann var hrókur alls fagnaðar í góðra vina hópi, fljúgandi mælskur og skarpgreindur samfélagsrýnir – en gat í aðra röndina verið félagsfælinn og jafnvel kvíðvænlega flóttalegur í tilteknum aðstæðum.

Eitt af höfuðeinkennum persónuleika hans var rík réttlætiskennd; óbeit hans á hræsni og óheilindum. Hann gat þannig verið æði harðskeyttur og rökfastur þegar gert var á hans hlut eða annarra og réttu máli hallað. Hann hafði sterka kímnigáfu og beitti stundum kaldhæðni þegar bregða þurfti birtu á þversagnir, tvískinnung eða óheilindi í málflutningi.

Annað höfuðeinkenni á persónuleika hans var andúð á kreddum og boðvaldi, til dæmis trúarkreddum og kennisetningum í vímuvörnum – sem eftirminnilega var látin í ljós í bók hans Alkasamfélaginu. Hann trúði á sköpunarmáttinn og frelsi fólks til tjáningar án hamlandi formrænna hugmyndakerfa – og til að finna eigin leiðir.

Umfram allt var hann þó mjög næmur maður – jafnvel ofurnæmur á ýmsum sviðum svo að stundum virtist manni sem tilfinningarnar myndu bera hann ofurliði. Hann lýsti raunar okkur bræðum báðum þannig að við værum „núrískir“ og „sérsinna“ – sem gátu verið bæði kostir og gallar í mismunandi kringumstæðum. Hann sagði að hann hefði alltaf verið næmur á andlega sviðinu, sem næði út fyrir hinn skynræna heim, en bælt þann eiginleika að einhverju leyti niður fyrir löngu.

Hann var óvenjunæmur á tónlist og texta. Samdi dásamlega tónlist og skrifaði leiftrandi og ljóðræna texta án þess að hafa mikið fyrir því. Einkennandi fyrir textaskrif hans var lifandi málnotkun og hann auðgaði tungutak sitt með áhrifum úr ensku og dönsku, enda í grunninn á móti hreintungustefnu íslenskunnar.

Við fjölskyldan nutum þess að vera meira í samskiptum við hann á síðustu mánuðum og fá hann oftar í mat, þar sem hann var yndisgestur hvert sinn með sínar sögustundir, en hann var afar minnugur og frásagnarglaður. Hann var elskur að börnum okkar og lét sér annt um velferð þeirra. Það voru miklar gæða- og gleðistundir sem við erum endalaust þakklát fyrir.

Sigurður Már Harðarson.

Orri var ekki hár í loftinu þegar ljóst var að þar fór skapandi og uppátækjasamur krakki. Eins og skoppandi bolti, inni og úti. Fann upp á leikjum, skipulagði viðburði, sagði sögur og var oft svo mikið niðri fyrir að það gat verið nokkuð snúið að halda þræði. Aldrei iðjulaus og rak meðal annars um tíma eigið almenningsbókasafn á Hjarðarholtinu með útlánaseðlum og skrásetningu á útlánum bóka.

Eins og krakkarnir mínir var hann svo heppinn að vera í pössun hjá Rögnu Svavars, þar sem hlýju, húmor, músík og gott málfar var að finna, allt kryddað með svolitlum tóbaksreyk. Þar kynntist hann Einari Skúla, sem varð honum kær vinur og hjá honum naut hann vináttu og hvatningar meðan báðir lifðu. Og Einar kenndi honum á gítar þegar Orri var níu ára. Eftir það var leiðin ljós. Músíkin átti hug hans allan og þegar handleggirnir voru orðnir nógu langir til að að ná gítarendanna á milli fór hann að spila og syngja fyrir Skagamenn. Hann stofnaði hljómsveitir bæði með strákum og stelpum og ýmsir músíkalskir krakkar á Akranesi urðu þeirrar ánægju aðnjótandi að vera í hljómsveit með Orra.

Svo fann hann fjölina sína. Einn með gítar og eigin lög og texta. Lágstemmd tónlist, myndræn og full af stemningu. Þetta var sá Orri Harðar sem þjóðin kynntist; sá sem gaf út þessa fallegu tónlist, sem hann flutti sjálfur; sá Orri Harðar sem fékk verðlaun og viðurkenningar; sá Orri Harðar sem gagnrýnandi kallaði „einn af þeim stóru“ nú við leiðarlok. Í okkar veröld var hann nú samt bara Orri þeirra Sigrúnar og Harðar okkar bestu vina, alltaf skemmtilegur að hitta og spjalla við, með pólitíkina á hreinu og skoðanir á flestu.

Og sköpunargáfan var ekki einskorðuð við tónlistina. Hann var líka rithöfundur. Byrjaði á að nota baráttu sína við Bakkus í bók um þann slag og fylgdi því eftir með tveimur skáldsögum, sem fengu góðar viðtökur og dóma. Ætli hann sé ekki einn um að hafa verið útnefndur bæjarlistamaður bæði á Akureyri og Akranesi?

Stelpurnar hans, þær Karólína og Birgitta, voru þó miðpunktur tilverunnar og föðurhlutverkið tók hann afar alvarlega, bæði í sambúð og fjarbúð og samverustundir eins og Kaupmannahafnarferð þeirra feðgina sl. sumar voru honum miklu meira virði en nokkur sú viðurkenning sem honum hlaust fyrir tónlist og ritstörf.

Það snerti hjörtu okkar allra að sjá hvernig hann nýtti síðustu krafta sína og reis upp af sjúkrabeði til að gleðjast með Karólínu þegar hún fermdist í vor. Það var ekki að sjá að þar færi maður sem átti einungis vikur eftir ólifaðar. Hann sýndi aðdáunarverðan sálarstyrk og æðruleysi í veikindum sínum og vildi sem minnst leggja á fólkið sitt, sem svo sannarlega var þá eins og alltaf til staðar fyrir hann.

Það er svo sárt að skilja þegar klippt er á lífssöguna í miðjum kafla. En Karólína, Birgitta, Hörður, Sigrún, Siggi, fjölskyldan öll og vinir geta sótt huggun í þær mörgu góðu og skemmtilegu minningar sem Orri skilur eftir, tónlistina, textana og ritverkin.

Það er heilmikið lífsverk sem vekur stolt og styrkir. Það eru þó minningarnar um yndislegan föður, son, bróður, frænda og vin sem ylja mest og best og lengst.

Ingunn Anna Jónasdóttir.

Akranes í október 1990. Hljómsveitin Bless í sándtékki í sal FVA og illa gengur að láta bandið hljóma rétt. Hljóðmaðurinn, nemandi í skólanum, fær mig, trommarann, til að kafa með sér ofan í tækjabúnaðinn til að sjá hvort koma megi hljóðinu til betri vegar. Það tekst og reynist vera okkar fyrsta samvinnuverkefni af mörgum eftir það. Við Orri Harðarson urðum nefnilega perluvinir í kjölfarið.

Þetta kvöld hitti ég Sunnu Björk, verðandi kærustu og sambýliskonu til næstu ára. Hún var í nánasta vinahópi þessa mixergaurs, sem líka reyndist vera tónlistarmaður og trúbador.

Það var því viðbúið að ég trommaði fyrstu sólóplötu kappans, „Drög að heimkomu“ – þessi líka þroskuðu og fínu lög. Jón „góði“ Ólafsson og Sigurður Bjóla sáu svo um að sigla þvi öllu farsællega í höfn. „Good times.“

Við Orri náðum gríðarvel saman, enda hugsunin svipuð og lífsskoðanir líka – báðir forfallnir Þórbergsaðdáendur og tónlistarlega veikir fyrir því sama. Fjölmörg verkefni biðu handan við hornið þar sem við tveir vorum í ýmsum hlutverkum; upptökustjórar, útsetjarar, hljóðfæraleikarar og hljóðmenn. Orri alltaf svo miklu næmari og vandvirkari en ég þegar kemur að sándi. Þar var hann óumdeildur meistari og ég aðeins vesæll lærlingur.

Góðar minningar á ég frá þeim tíma í lífi Orra að hann rak á Jótlandi hljóðver við annan mann. Við unnum þar saman tvær fyrirtaksplötur og náðum nýjum hæðum.

Árið 2000 fórum við tveir svo í að semja og spila dúóplötuna „Niður aldanna“. Við sendum hana þó ekki frá okkur fyrr en við loks dömpuðum henni inn á streymisveitur sl. haust.

Einstakt tímabil áttum við árið 2004 í upptökurispu í gamla Stúkuhúsinu á Akranesi. Tvær fullburða plötur komu út úr þeirri vinnu, báðar dásamlegar og við Orri fórum á kostum.

Í gegnum þetta allt má svo ekki gleyma að minnast á háfleygar og húmorískar samræðurnar, kráarhangsið og rauðvínssötrið. Til þeirrar iðju mun ég alltaf hugsa með hlýju, enda þótt oftar en ekki hafi hún endað í skrúfunni hjá Orra. Stundum hélt maður að hann myndi alveg ganga frá sér, en þess heldur var dýrmætt að sjá hann rísa úr öskustónni, skrifa af hugrekki bók um brogaðar úrlausnir vandans og stofna svo fjölskyldu á Akureyri í kjölfarið. Orri og Inga Lísa eignuðust tvær efnilegar dætur og auðvelt var að skynja stolt hans og væntumþykju í þeirra garð.

Ég fékk þann heiður að lesa yfir báðar skáldsögurnar hans á vinnslustigi og gefa álit. Í sögunni „Endurfundir“ segir meðal annars frá eldri bróður aðalpersónunnar Gústa, en sá býr í rauðu húsi við Akurgerðið á Akranesi ásamt kærustu og hundi sem heitir líka Gústi. Orri var þarna á kankvísan hátt að vísa til þess að á þessum tíma bjó ég í rauðu húsi við Akurgerðið og átti hundinn Orra. Mér þykir vænt um að hafa endað með þessum hætti í sögunni, enda alla tíð bróðurþel okkar á milli.

En fyrst og fremst er ég óendanlega glaður að hafa orðið snar þáttur í því sem Orri Harðarson lætur eftir sig á akri tónlistarinnar og erfitt er til þess að hugsa að þeim kafla lífsins sé lokið.

Birgir Baldursson.