Guðbjörg María Sveinsdóttir fæddist í Grindavík 30. mars 1966. Hún lést á sjúkrahúsi í Torrevieja á Spáni 2. júní 2025.
Eftirlifandi foreldrar Guðbjargar Maríu eru Sveinn Þór Ísaksson, f. 28. september 1945, og Alda Hafdís Demusdóttir, f. 7. febrúar 1948.
Guðbjörg María giftist Sigurði Kristinssyni 1990, en þau skildu 2004. Sonur þeirra er Sveinn Sigurðsson, f. 26. janúar 1986. Eiginkona hans er Ashlan Falletta-Cowden, f. 12. maí 1987. Synir þeirra eru Stefán Björn Sveinsson, f. 20. febrúar 2014, og Anders Kristófer Sveinsson, f. 7. janúar 2018.
Bræður Guðbjargar Maríu eru Almar Þór Sveinsson, f. 28. október 1967, og Ægir Demus Sveinsson, f. 30. september 1970.
Hún fékk BA-gráðu í íslensku frá HÍ, sótti doktorspróf í klínískrí sálfræði og fl. Hún átti heima víða: Grindavík, Reykjavík, Ithaca NY, St Louis MO, Detroit MI, Raufarhöfn, Spáni. Starfaði sem kennari og þjónn og fl.
Útför hennar fer fram frá Grindavíkurkirkju í dag, 30. júní 2025, klukkan 13.
Við ólumst allar upp saman í Grindavík, þar sem við mynduðum sterkan og samheldinn vinahóp sem fylgdist að í gegnum skólaárin. María, þessi fallega rauðhærða, greinda og fjölhæfa stúlka, var í lykilhlutverki í vináttu okkar og uppvexti. Heimilið hennar stóð okkur alltaf opið, og þar tóku Alda og Sveinn okkur ávallt opnum örmum – gjarnan með kræsingum og löng samtöl voru hluti af samverunni við eldhúsborðið á Mánagötunni.
Það er erfitt að orða allt sem María var – hún var engri lík. Hláturinn hennar smitaði alla í kringum hana og það var aldrei lognmolla í hennar návist. Hún var litríkur, líflegur og einlægur karakter sem fór frá okkur allt of snemma.
Hver okkar á sér ómetanlegar minningar frá æsku- og unglingsárum: hvort sem það var María við lestur með höndina í hárinu að snúa upp á lokk, vinkonuferðir á sólarströnd, svaðilför í litla Daihatsuinum yfir heiðar í vetrarfærð eða ærsl og gleði í leik og starfi á Sjómannastofunni, þar sem hún vann samhliða skóla. Hláturinn, gleðin og tónlistin voru ávallt samofin Maríu – hún kunni alla texta, hvort sem það var Alice Cooper, Bubbi Morthens eða Prince, og ekki var óalgengt að heyra okkur syngjandi um götur Grindavíkur með Spilverkið og Bubba á vörunum.
María var afburðanemandi og virtist þurfa lítið fyrir að leggja til að fá framúrskarandi einkunnir – við hinar öfunduðum hana stundum af hversu auðvelt þetta reyndist henni. En hún var alltaf hógvær, aldrei montin, og ávallt reiðubúin að hjálpa öðrum. Hún lauk stúdentsprófi frá Kvennaskólanum rétt eftir að hún eignaðist Svein, augastein sinn. Þaðan lá leiðin í íslenskudeild Háskóla Íslands og síðar í háskólanám í Bandaríkjunum, þar sem hún lagði meðal annars stund á miðaldafræði og sálfræði. Hún brást ekki þeirri áskorun að sinna námi og móðurhlutverki á sama tíma – af alúð, ábyrgð og elju. Það lýsir vel þeirri seiglu og elju sem einkenndi Maríu alla tíð. Hún var óendanlega stolt af Sveini sínum, og það skein alltaf í gegn í samtölum okkar. Hún þreyttist aldrei á því að segja okkur frá honum og fjölskyldunni í Bandaríkjunum.
Þegar María flutti aftur heim tók hún til starfa sem kennari í gamla skólanum sínum. Þar naut hún sín vel. Hún hafði einstakt lag á börnum og unglingum, og hæfileikar hennar komu glöggt í ljós í því starfi.
Það var á árunum í Bandaríkjunum sem hún greindist með geðhvarfasýki – mikið áfall sem markaði nýjan og oft erfiðan kafla í lífi hennar. Sjúkdómurinn reyndist henni harður húsbóndi og leiddi með sér brot og baráttu í daglegu lífi. Í stað lífsgleði og hláturs tóku depurð og sorg meiri völd, og okkur, sem stóðum henni nærri, brast oft hjarta að sjá áhrifin á þessa greindu, hæfileikaríku og hlýju konu.
Við kveðjum Maríu með djúpum söknuði, í þeirri von að hún hafi nú fundið friðinn. Við vottum Sveini og öllum ástvinum hennar okkar innilegustu samúð.
Minningarnar um trausta vinkonu munu lifa í hjörtum okkar um ókomna tíð.
Helga, Guðný, Fanney, Ólöf Hanna, Christine, Agla, Rósa Signý, Þórey Maren, Fríða og Laufey.