Björg Sigurðardóttir fæddist á Reykjum í Lundarreykjadal 6. júní 1939. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Ljósheimum á Selfossi 16. júní 2025.

Foreldrar Bjargar voru Sigurður Ásgeirsson, f. 28. apríl 1910, d. 4. mars 1999, bóndi á Reykjum, og eiginkona hans Valgerður Magnúsdóttir, f. 8. nóvember 1912, d. 5. maí 1996, húsmóðir, kennari og matráðskona. Bræður Bjargar voru: Ásgeir, f. 1937, d. 2023, kerfisfræðingur, sambýliskona Ólöf Þórey Haraldsdóttir, f. 1943, d. 2022, bankastarfsmaður; Freysteinn, f. 1941, d. 2008, jarðfræðingur, eiginkona Ingibjörg Steinunn Sveinsdóttir, f. 1942, lyfjafræðingur; Ingi, f. 1946, prófessor emeritus í sagnfræði; Magnús, f. 1957, fyrrverandi aðjunkt í þýsku.

Eftirlifandi eiginmaður Bjargar er Sveinn Júlíus Sveinsson, f. 15. maí 1933, fyrrverandi sýslufulltrúi. Björg og Sveinn giftust 1969 og bjuggu á Selfossi. Börn þeirra eru: 1) Sveinn, f. 1970, grunnskólakennari, eiginkona Brynja Hlín Ágústsdóttir, f. 1976, ferðamálafræðingur. Börn þeirra eru María Björg, f. 2003, Íris Freyja, f. 2006, og Sveinn Daði, f. 2011. 2) Valgerður, f. 1972, lyfjafræðingur, sambýlismaður Guðmundur Jónsson, f. 1967, smiður. Dóttir þeirra er Auður Eva, f. 2011; sonur Guðmundar er Hlynur, f. 1988, sambýliskona Bjarney Jóna Unnsteinsdóttir, f. 1993, sonur þeirra er Unnsteinn Heiðar, f. 2019. 3) Björn, f. 1975, tæknimaður. 4) Sigurður, f. 1979, íþróttafræðingur, eiginkona Elfa Scheving Sigurðardóttir, f. 1990, sálfræðingur. Dóttir þeirra er Eyrún Alba, f. 2020; sonur Elfu er Börkur Arason, f. 2015. 5) Gunnþórunn Klara, f. 1981, spænskukennari, sambýlismaður Eduardo Perez Baca, f. 1965, sjúkraliði. Dætur þeirra eru Björg Paloma, f. 2016, og Carmen Klara, f. 2018; sonur Eduardos er Daníel, f. 1992.

Björg ólst upp á Reykjum. Hún lauk landsprófi frá Héraðsskólanum í Reykholti 1956 og kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1961. Árin 1961-1964 starfaði hún sem prófarkalesari á dagblaðinu Tímanum. 1964-1970 var Björg kennari við Barna- og unglingaskólann Skúlagarði í Kelduhverfi, Kleppjárnsreykjaskóla í Reykholtsdal, Barnaskóla Fljótshlíðarhrepps og Barnaskólann Ytri-Skógum undir Eyjafjöllum. 1987-2009 starfaði hún sem sérkennari við Sandvíkur- og Sólvallaskóla á Selfossi og stundaði árin 1993-1997 samhliða því framhaldsnám í sérkennslu við Kennaraháskóla Íslands. Sérgrein hennar var kennsla einstaklinga með lestrarörðugleika. Undir lok ævi sinnar dvaldi Björg í rúmt ár á deildum innan Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi.

Útför Bjargar fer fram frá Selfosskirkju í dag, 1. júlí 2025, klukkan 13.

Þannig háttaði til hjá foreldrum mínum í Miðtúni 60 að þar var forstofuherbergi sem gjarnan var lánað til ættingja og vina utan af landi sem stunduðu nám í höfuðborginni. Þar á meðal var frænka okkar frá Reykjum í Lundarreykjadal, Bobba jafnan kölluð. Til aðgreiningar frá annarri Björgu sem einnig hafði búið í þessu ágæta herbergi kallaði pabbi þær Litlu-Björg og Stóru-Björg. Ekki man ég hvor var hvað. Á þessum árum sem Bobba bjó hjá okkur var ég á síðari hluta sakleysisáranna og opinn fyrir öllu. Bobba var einstakur barnahvíslari eins og sagt væri í dag og tók mig fljótlega undir sinn verndarvæng. Lærði ég ýmsa speki af henni sem ég hefði annars farið varhluta af. Að hægt væri að þræða nál í gegnum sigg sársaukalaust. Að hægt væri að telja upp í þúsund. Af hverju sagt væri „Guð hjálpi þér“ þegar nærverandi hnerraði og mörg önnur ómissandi vitneskja. Haustið 1965 tók hún mig með sér til mánaðardvalar hjá foreldrum sínum á Reykjum. Eyddi ég þar fjórum næstu sumrum.

Bobba var einstakur barnakennari eins og Valgerður móðir hennar hafði verið og mörg börnin tók hún undir sinn verndarvæng. Skólastjórinn í Skógaskóla Jón Kristinsson og fjölskylda hans hvar Bobba kenndi um tíma var mikill vinur hennar og dvaldi oft á Reykjum.

Svo kom Sveinn J. Sveinsson til sögunnar á þessum árum mínum á Reykjum. Stofnuðu þau fljótlega heimili saman á Selfossi. Eignuðust börn og buru. Veit ég að Bobbu hefur ekki leiðst það. Smám saman minnkuðu samskiptin eins og gengur, en alltaf hef ég litið á Bobbu sem eins konar fóstru mína og þótt mjög vænt um hana. Ég sendi aðstandendum öllum innilegar samúðarkveðjur.

Sturla Jónsson.

Nú hefur Bobba „safnast til feðra sinna“ eins og hún sjálf tók til orða. Við vorum samkennarar frá '87 þar til hún hætti störfum.

Við áttum margt sameiginlegt, s.s. að vera aldar upp í sveit með bræðrum, hún í Lundarreykjadal og ég í Flóanum. Hún var hagmælt og orti fyrir sjálfa sig en áhugamálið var bóklestur og hún þekkti minn smekk á bókum og lánaði. Hún stafsetti hárrétt en við prófarkalestur efaðist hún stundum, flett var upp og brást ekki að stafsetja mátti á tvo vegu.

Þau Sveinn áttu mjög stórt bókasafn og ég man Áslaugu mína segja frá því hversu dolfallin hún var yfir safninu þegar hún var fyrst að fara heim með Gunnþórunni bekkjarsystur.

Í sérkennslunni bárum við okkur mikið saman um hvað kynni að henta mismunandi nemendum, söfnuðum verkefnum, bjuggum þau til eða gerðum okkar safn hentugra bóka í stofunum og fylgdumst grannt með framförum í lestri. Við unnum um langt árabil við það gefandi starf að prófa nemendur í 4.-7. bekk í framsagnarlestri.

Bobba var afar hæglát og hafði sig aldrei í frammi í kennarahópnum utan einu sinni. Við kennarar fórum um aldamótin til Dalarna í Svíþjóð, í skólaheimsókn, undir leiðsögn samkennara er þar hafði búið um hríð. Við bjuggum þar á farfuglaheimili og hljóðbært var eins og jafnan er á slíkum vistum. Bobba var ein í herbergi og fór í koju þegar halla fór að nóttu. En þá tók „ungviði“ hópsins sig til og fór að haga sér eins og 12 ára bekkur í skólaferðalagi. Fór nú Bobbu að leiðast þófið, klæddi sig í snatri og hastaði kröftuglega á samstarfsfólkið. Datt þá allt í dúnalogn.

Við vorum nokkrar úr okkar starfsmannahópi sem kölluðum okkur „Sláturfélagið“ og gerðum slátur með Hafdísi Hafsteins sem bjó í sveit. Félagsskapurinn var mjög skemmtilegur og margt gert; farið á veitingahús, í kaffi hver hjá annarri, ferðast austur í Fljótshlíð, til Akureyrar um Kjöl, norður í Húnavatnssýslu, og að Reykjum. Ekki má gleyma ferðinni í Flatey á Breiðafirði þar sem við gistum í Ásgarði ásamt mökum, á vegum Jósefínu. Stillilogn var, 27 gráðu hiti og Breiðafjörður skartaði sínu fegursta.

Eitt sinn vorum við Bobba sendar með allstóra rúmdýnu upp að Reykjum. Vegna lengdar dýnunnar var vissara að fara fáfarnari leið. Dýnan lá á milli framsætanna og aðskildi okkur tvær svo að við sáum ekki hvor aðra, fórum því um Þingvöll og Uxahryggjaleið. Komnar efst í brekkuna þá mætir kvöldsólin okkur í allri sinni dýrð svo beint framan á bílinn að skyggnið kom ekki að neinu gagni. Ég varð því að fara út í vinstri kant og vona að enginn væri að koma á móti okkur, en snarbratt var niður hægra megin. Ferðin gekk að óskum og við gistum á Reykjum. Daginn eftir skoðuðum við nágrennið og þar á meðal hvar Lunddælingar námu sund eða sulluðu í heitum uppsprettum dalsins handan Tunguár. Það var mikilvægt fyrir Bobbu að komast að Reykjum og eins og hún kastaði af sér fjötrum efri ára við að fara þar um land sitt.

Ég kveð Bobbu með söknuði og votta fjölskyldu hennar samúð mína.

Þórdís Kristjánsdóttir.