Stefán J. Hjaltested fæddist 22. desember 1948 í Reykjavík. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Ísafold 27. júní 2025.

Foreldrar hans voru Jón Einar Hjaltested, f. 27.8. 1925, d. 22.4. 2002, og Fríða Hjaltested, f. 25.11. 1926, d. 10.3. 2010. Systkini
Stefáns eru: Sigríður Hjaltested, f. 1952, Gretar Mar, f. 21.2. 1954, Margrét Halldóra, f. 4.11. 1955, Lárus Hjaltested, f. 1959, og Davíð Hjaltested, f. 1968.

Stefán giftist Önnu Ragnheiði Möller, f. 18.8. 1952, þann 25.11. 1972 og eiga þau þrjár dætur: Þóra
Margrét Hjaltested, f. 1973, gift Kristjáni Birgi Thorlacius og eiga þau dæturnar Hrafnhildi Tinnu og Stefaníu Valdísi, þau eru búsett í Garðbæ. Fríða Hjaltested, fædd 1979, gift Brynjari Steinbach, þau eiga Viktoríu Örnu, Þóreyju Emilíönu og Arnór Mikkel, þau búa í Virum í Danmörku. Anna Sif Hjaltested, fædd 1984, gift Margeiri Hafsteinssyni, þau eiga Stefán Árna, Arnar Kára og Ragnar Óla og eru búsett í Garðabæ.

Stefán og Anna hafa búið í Garðabæ í 47 ár.

Stefán starfaði lengst af í Iðnaðarbankanum en síðustu árin vann hann hjá Trefjum í Hafnarfirði. Stefán æfði fótbolta með Víkingi sem unglingur og var síðar í stjórn handknattleiksdeildar.

Stefán og Anna eignuðust sumarbústað í Húsafelli árið 2011 og eftir það varð það hans sælureitur.

Stefán greindist með Parkinson-sjúkdóminn árið 2016. Síðar kom í ljós að hann var með Lewy Body. Fór hann á Landakot í desember 2020 og í framhaldi á Ísafold í Garðabæ í ágúst 2021, þar sem hann hefur dvalið síðan og lést hann þar í faðmi fjölskyldunnar.

Útför Stefáns fer fram frá Vídalínskirkju í Garðabæ í dag, 1. júlí 2025, klukkan 15.

Elsku pabbi er farinn í Sumarlandið, ég ímynda mér hann í eðalfélagsskap, með Bítlana á fóninum. Pabbi var stemningsmaður og smá stríðnispúki og kannski þess vegna tók hann sér nokkra aukadaga, með okkur mæðgurnar og Grétar og Sirrý og fleiri góða gesti sér við hlið frá morgni til kvölds. Þótt líkaminn hafi verið klár í að kveðja var hjartað það ekki.

Það sagði víst enginn að lífið ætti alltaf að vera auðvelt. Seinustu árin voru ekki eins og pabbi eða neitt okkar hafði óskað sér. Ærið verkefni, Lewy Body-sjúkdómurinn, stimplaði sig inn og varð partur af sögunni hans og okkar sem hjá honum stóðu. Þó að sjúkdómurinn hafi sest sem fastast og sett sín greinilegu spor, sá maður alltaf glitta í pabba. Pabbi eignaðist vini alls staðar og það var auðséð að það gerði hann líka á Ísafold.

Afi með stóru A-i elskaði alla molana sína. Öll muna barnabörnin eftir að fara á brennu með afa í Húsafelli og fá sleikjó, muna líka öll eftir þegar afi var með í TikTok-myndbandi í sveitinni. Hann tók virkan þátt í ungmenna- og íþróttamálum með mömmu og hengdi m.a. medalíur á þátttakendur Kvennahlaupsins í mörg ár. Pabbi og mamma mættu með Kvennahlaupið, fyrir barnabörnin, til Spánar þar sem amma flautaði til leiks og afi stóð tilbúinn með medalíur á endalínunni. Pabbi var mikill United-maður og stóð á sínu þrátt fyrir að flestir í menginu haldi með Liverpool, Arnór Mikkel segist þó halda smá með United líka, fyrir afa. Já, elsku pabbi var frábær (sagt eins og honum einum var lagið).

Þó að höf og landamæri hafi verið á milli okkar seinustu tvo áratugina fylltum við vel á minningarbankann. Í Berlín héldum við að við hefðum týnt pabba en hann poppaði svo upp með öl og pulsu, hafði greinilega reddað sér á þýsku! Önnur ljúf minning er þegar við familían sátum við vatnið í Virum og horfðum á sólsetrið, þá var pabbi kominn með heila andafjölskyldu til sín, já hann eignaðist vini alls staðar.

Tónlist var pabba kær, þann 21. júní voru 55 ár frá því að mamma og pabbi hittust fyrst og fóru svo daginn eftir á fyrsta deitið á Led Zeppelin-tónleika, kærleikurinn á milli þeirra var augljós og það var augljóst að pabbi var skotinn í mömmu fram á seinasta dag. Bítlarnir voru uppáhalds hjá honum og fylgdu honum og okkur hinum í gegnum lífið. Ég á mjög kæra minningu um að hafa farið með mömmu og pabba á tónleika með meistara Paul McCartney.

Við áttum ekki alltaf skap saman, sérstaklega á unglingsárum, enda bæði með skap og skoðanir, þó var lítið um árekstra í seinni tíð. Pabbi var með verkvitið meira en í lagi og hjálpsemin aldrei langt undan. Hann átti stóran part í að gera fyrstu íbúðina okkar Brynjars klára. Hann var alltaf tilbúinn að aðstoða með stórt og smátt.

Heimsóknirnar urðu öðruvísi og seinustu árin kvaddi ég pabba alltaf með orðunum „ég kem alltaf aftur“, sem mætti brosi. Að þessu sinni kvaddi ég með því að segja „við sjáumst seinna“.

Elsku pabbi minn, takk fyrir allt og allt. Þín verður sárt saknað og þú munt sannarlega lifa áfram í hjörtum okkar allra.

Fríða.