Hörður Svavarsson, leikskólastjóri Aðalþings, fæddist í Reykjavík 15. janúar 1960. Hann lést á krabbameinsdeild Landspítalans 19. júní 2025 eftir skamma sjúkrahúslegu.
Foreldrar hans voru þau Svavar Gests, f. 1926, d. 1996, hljóðfæraleikari og María Steingrímsdóttir, f. 1928, d. 2011, húsmóðir.
Hörður ólst upp í Reykjavík en hefur búið í Hafnarfirði á þriðja áratug með konu sinni Díönu Sigurðardóttur, f. 5. júní 1964. Saman eiga þau dótturina Guðrúnu Eddu Min, f. 23. september 2004, kærasti hennar er Birkir Valdimarsson, f. 18. júní 2004. Einnig á Hörður dótturina Maríu Eldeyju Kristínardóttur, f. 26. febrúar 1991, með fyrrverandi sambýliskonu sinni Kristínu Elfu Guðnadóttur. María Eldey er í sambúð með Magneu Dögg Laxdal Guðmundsdóttur, f. 28. október 1995. Þá ólst upp hjá Herði sonur Díönu, Pétur Ágúst Hjörleifsson, f. 7. apríl 1983. Einnig ól Hörður upp Margréti Heiði Jóhannsdóttur, f. 17. júlí 1981, sem á fimm börn: Diljá Eik, Kára Alexander, Valdísi Söru, Úlf Óskar og Sigyn Höllu. Margrét er í sambúð með Pálma Jónssyni. Systkini Harðar eru þau Hjördís, Gunnar, Máni og Nökkvi og Bryndís sem er látin.
Hörður gekk í Ísaksskóla, síðar í Hlíðaskóla, en lauk námi við Fósturskóla Íslands. Hörður lauk síðar meistaranámi frá Háskóla Íslands í menntavísindum, en lokaverkefni hans var um rými barna í leikskólum. Fjölmargir, á alþjóðavísu, sóttust eftir umfjöllun um niðurstöður rannsóknarinnar „Börnin í veggjunum“. Hörður starfaði um árabil í leikskólum í Reykjavík en hóf síðar útgáfustarf á tímaritinu Uppeldi auk smárita um uppeldismál og starfaði við það fram yfir aldamótin. Þá hóf Hörður störf sem meðferðar- og vímuefnaráðgjafi hjá SÁÁ, m.a. á Staðarfelli á Fellsströnd.
Hörður hóf störf sem leikskólastjóri í Aðalþingi í Kópavogi fyrir nær 15 árum en leikskólinn Aðalþing er rekinn í anda hugmyndafræði Loris Malaguzzi, oftast kennd við bæinn Reggio Emilia á Ítalíu. Hörður hefur haldið víða erindi og fyrirlestra, hérlendis sem erlendis, á ráðstefnum um hugmyndafræðina. Þá hlaut Aðalþing Íslensku menntaverðlaunin 2021, Orðsporið 2022 og nýlega hlaut Aðalþing veglegan styrk til að þróa nýtt innra matskerfi sem nýtir gervigreind. Allt þetta var hugarfóstur Harðar í leik og starfi.
Hörður var lengi vel formaður Íslenskrar ættleiðingar svo og formaður fimleikafélagsins Bjarkar í Hafnarfirði. Þá sat hann í forvarnarnefnd Hafnarfjarðar svo og í fræðsluráði Hafnarfjarðar, var virkur félagi í FÁR, félagi áfengis- og vímuefnaráðgjafa, auk þess að taka þátt í ýmsum öðrum félagsstörfum innan samfélags leikskólakennara.
Útför Harðar verður gerð frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 1. júlí 2025, klukkan 15. Streymt verður frá athöfninni.
Elsku elsku pabbi minn.
Ég veit hreinlega ekki hvar ég á að byrja. Mér þykir svo leitt að þetta fór svona og ósanngjarnt.
Þú varst góðhjartaðasta manneskja sem ég þekki, traustur, fyndinn, alltaf til staðar fyrir mig og alla í kringum þig. Alltaf jákvæður, þrátt fyrir erfiða tíma, og alltaf stutt í húmorinn.
Þegar ég segi að þú hafir alltaf verið til staðar fyrir mig og ég getað treyst á stuðning þinn í öllu sem ég tók mér fyrir hendur, þá meina ég öllu, hvort sem það var skólagangan, fimleikarnir, lífið eða annað, og betra bakland er ekki hægt að biðja um.
Það jafnast ekkert á við það sem þú gerðir fyrir mig og ég vildi að ég hefði fengið tíma til að gera hið sama fyrir þig. Skutlið á æfingar í öll þessi ár, öll fimleikamótin sem þú mættir á, kvöldmáltíðirnar okkar þar sem við borðuðum saman á óhefðbundnum tímum því þið mamma biðuð eftir því að ég kæmi heim af æfingu svo ég þyrfti ekki að borða ein, allt þetta er aðeins brot af því sem ég er svo þakklát fyrir. Án þín væri ég ekki á þeim stað sem ég er núna.
Öll góðu samtölin sem við áttum eru mér svo dýrmæt, ótalmörgu sögurnar sem þú sagðir mér um líf þitt sem mér fannst merkilegar því þú hefur gert svo margt gott í þínu lífi.
Að lokum má ekki gleyma notalegu spilakvöldunum þegar við tvö vorum ein heima. Sátum fyrir framan arininn, hlustuðum á eldinn og yfirleitt vonda veðrið úti, með heitt súkkulaði í bolla, spiluðum slönguspil, spjölluðum og hlógum.
Ég og flestir sem þekkja þig vitum að þú varst mikill fagmaður í öllu sem þú gerðir, mikill mannvinur, fyrirmynd, vildir það besta fyrir alla og láta gott af þér leiða. Það var alltaf hægt að leita til þín.
Ég er mjög stolt af þér elsku pabbi, stolt að vera dóttir þín og ég veit að þú varst líka stoltur af mér en nú er kominn tími til að ég geri mitt besta og haldi áfram að gera þig stoltan.
Ég er endalaust þakklát fyrir þann tíma sem við áttum saman, þótt hann væri ekki eins langur og við hefðum viljað, en hann var mjög dýrmætur og góður.
Takk fyrir allt elsku pabbi minn, þú ert bestur.
Þín
Guðrún Edda.
„Við eigum ekki eftir að sjást mikið meira á næstunni,“ sagði æðrulaus elskandi bróðir í lok afmælisdags pabba okkar. Hverju getur maður svarað annað en hugsað svo miklu meira en talað, sagt svo miklu minna en viljinn er til orða. Við vissum svo vel að við elskuðum hvor annan, en sorgin er nístingsköld, ekkasogin mörg, tárin ómæld og gráturinn til staðar líkt og straumhljóð frá lækjarnið æskuslóða. Mundu að ég elska þig líka, svo var veifað með báðum höndum. Daginn eftir var upphafið að svefninum langa.
Minn trausti bróðir, Hörður, var minn trúnaðarvinur, hvatningaraðili og æskubjargvættur alla daga. Við höfðum alltaf spegilmynd hvor annars. Æska okkar var um margt sérstök, en við vorum skilnaðarbörn. Við skilnað var Hörður sex ára en ég var það ungur að skilja ekki. Hörður sá því að nokkru um mig alla daga. Um margt getur skilnaður verið heppilegur. Okkar mikla heppni fólst í ferðum okkar til skyldmenna að Stafni í Þingeyjarsýslu.
Hörður undi sér vel í sveitinni á sumrin, líkt og ég. Allt var okkur hugljúft, fólkið, börnin, dýrin, húsin, túnin, skurðir, girðingar, hliðin, heiðin, lækirnir, gilið og áin. Kvöldstundir við leiki í blíðunni með öllum krökkunum á bænum og næstu bæjum. Hvað er betra en að vera heppinn?
Svo komu veturnir og þá stóðum við þétt saman áfram. Hann dröslaðist með mig líkt og hann væri í starfsnámi fyrir uppeldi. Ég fór með honum til vina hans, í afmælin þeirra. Fórum saman á skemmtanir hjá pabba eða vinna í SG-hljómplötum í akkorði við að setja í umslög. Litlar hendur geta unnið hratt. Alltaf voru bræðurnir saman, peysurnar eins og buxurnar eins, jafnvel í skátunum nema þegar kom að skátaflokknum Móra. Í Móra voru allir einstakir og ávallt viðbúnir.
Hörður bróðir elskaði öðruvísi, elskaði fjölbreytni og liti lífsins. Regnbogans litir og allir með. Appelsínugulur var líka með, appelsínugulur líkt og nýtt tákn byltingarinnar. Appelsínugulur fékk alltaf að vera með í lífi Harðar, órjúfanlegur partur af pönkinu en fullkominn skilningur á því að fólkið og börnin þyrfti að umvefja ást, öll börnin sem þroskast í leik og starfi.
Að fara of snemma úr rásblokkunum er kallað þjófstart. En stundum þjófstartar dauðinn og rangur keppandi er dæmdur úr leik. Þannig var það með Hörð bróður, hann fékk ekki að klára margra ára lífshlaup fram undan. Við leggjum því öll til hjörtu og ljós, uppgötvum um stund hvað maður er lítill hluti af heildarmynd lífsins. Sorgin er þó alltaf til staðar, hún lætur vita af sér þótt eitthvað sé öðruvísi, sérstaklega ef árans dauðinn þjófstartar.
Mín kæra Díana og systkinin, sem eitt sinn voru börn, missa með fráfalli Harðar langmest. Samúð mína fá þau öll, samhug og ást. Þau voru einnig mörg börnin hans Harðar, skiptu mörgum hundruðum í leikskólanum Aðalþingi og víðar. Betri leikskóli verður arfleifð Harðar.
Ég er þakklátur fyrir góðan bróður, þakklátur fyrir allt og allt. Meistari meistaranna hefur kvatt okkur. Minningar lifa lengur um gott fólk, eins og Hörð bróður minn. Munið að lífið er kærleikur.
Gunnar Svavarsson.
Hörður vinur minn hefur skipt um tilverustig, alltof snemma. Maðurinn sem valdi sér yfirlýst kvennastarf kvaddi 19. júní. Hann var ári á eftir mér í Fósturskólanum og auðvitað vissi ég alltaf af honum. Hann var pönkari og anarkisti, óhræddur við að brjóta upp mynstur. Í þeim anda varð hann líka sá lýðræðislegasti stjórnandi sem ég hef kynnst. Í anda anarkísins áttu allir sér rödd og á alla átti að hlusta. Hörður var fagmaður fram í fingurgóma. Í faglegri samræðu urðu þær raddir sem hann hlustaði eftir og tók mark á að vera í þágu barna. Skipti ekki máli hvort það átti við stjórnvöld, foreldra eða samstarfsfólk. Ef hann taldi þær ekki þjóna málstað barna þá vógu þær lítið. Það getur verið erfitt að vera boðberi slíkra sjónarmiða og sætta fólk við þau. En hann hafði á því einstakt lag.
Hann trúði því að okkur væri treyst fyrir börnunum, við ættum þau ekki, þau eiga sig sjálf. Það er ekki sjálfgefinn réttur að vera foreldri en öll börn eiga rétt til að eiga bestu mögulega foreldra. Með það að leiðarljósi starfaði hann fyrir Íslenska ættleiðingu og í þeim anda starfaði hann sem leikskólastjóri í Aðalþingi. Hagsmunir barnanna voru honum efst í huga.
Annað starfsár Aðalþings var okkur Herði treyst fyrir að vera þar skólastjórar. Þetta var árið sem Guðrún Alda, stofnandi skólans, var í rannsóknarleyfi. Við fundum öll strax hugmyndafræðilegan samhljóm, við deildum lífssýn og skoðunum um hvernig leikskólastarf stuðlaði að því markmiði.
Hörður náði vel til starfsfólks, hann var leikskólastjórinn sem gekk í öll verk en var líka ætíð með opnar dyr inn á skrifstofu, alltaf til að ljá eyra og spegla hugmyndir og skoðanir. Þegar ég hugsa til hans hugsa ég mest til þess fallega sambands sem hann átti við börnin, stjórinn sem þorði að leika trúð, segja sögur og koma fyrir laumulegum hlutum sem rannsakandi hugar barna fundu og pældu í. Eins og hálfur stóll út úr vegg. Alltaf húmor og forvitni.
Í þágu leikskólabarna valdi Hörður í meistaraverkefni sínu að rannsaka rými barna, börnin í veggjunum, hann skoðaði hvernig allt of mörgum börnum er hrúgað í allt of lítið rými. Rannsókn hans hefur þegar skipt máli og opnað augu fólks utan leikskólasamfélagsins um það ástand sem víða er. Fyrir tveimur árum kynnti hann verkefnið á alþjóðlegri leikskólaráðstefnu. Áður en hann byrjaði á eiginlegu erindi var anarkistinn með smá uppistand, til að létta lund og brjóta ísinn, sem auðvitað tókst. Þegar hann brá upp lokaglærunni, sem sýndi það pláss sem mörg börn búa við í leikskólum, heyrðist sameiginleg djúp innöndun í salnum, þetta var mynd af IKEA-rúmi. Á eftir urðu miklar umræður og einn spurði: „Vita yfirvöld á Íslandi þetta?“
Hörður var stoltur af leikskólanum og æviverkinu, sem var samt ekki nærri lokið, hann átti margt eftir að gera. Stoltastur var hann samt af fólkinu sínu, Díönu og börnunum, þeirra velferð, þeirra framtíð var hjarta hans næst. Ég þakka fyrir samfylgdina, allar samræðurnar og samvinnuna, megi minning um góðan dreng lifa.
Kristín Dýrfjörð.
Með djúpri sorg í hjarta kveð ég Hörð Svavarsson, kæran vin sem skilur eftir sig varanlega arfleifð heiðarleika og ósvikinnar góðvildar.
Í gegnum starfsferil sinn snerti Hörður líf margra með kímni sinni, hlýju og fagmennsku. Hann brann fyrir málefnum barna og starfi leikskólans og var aldrei hræddur við að deila skoðunum sínum, sem honum tókst alltaf að gera af yfirvegun, ákveðinni natni og nærgætni. Þannig tókst honum að öðlast traust og virðingu samstarfsmanna, nemenda og vina.
Hollusta hans og ötult starf í þágu barna náði út fyrir kennarastarfið, en hann starfaði lengi vel sem formaður Íslenskrar ættleiðingar. Á þeim vettvangi kynntist ég Herði og naut þeirra forréttinda að starfa með honum í stjórn félagsins, þar sem skuldbinding hans við að tryggja velferð ættleiddra barna og fagleg vinnubrögð við ættleiðingu barna á milli landa var öllum ljós.
Hörður var mikill húmoristi, þótt alvarlegt yfirbragð hans gæti gefið annað til kynna, og þá yfirleitt við fyrstu kynni. Hann var heiðarlegur og hlýr en uppreisnarseggurinn blundaði stundum í honum, sem eru sérstaklega jákvæðir eiginleikar þeirra sem vilja breyta og bæta og gera heiminn betri.
Hörður kenndi mér margt, ómeðvitað honum. Hann var ætíð faglegur fram í fingurgóma, þrátt fyrir áskoranirnar sem hann stóð frammi fyrir, hækkaði aldrei róminn og talaði alltaf af yfirvegun og ákveðinni sannfæringu. Samtöl okkar voru tíð þau ár sem við vorum í stjórn Íslenskrar ættleiðingar og oft kom fyrir að ég mætti fyrr til stjórnarfundar, eingöngu til þess að ná nokkrum mínútum í spjall með Herði. Hörður var nefnilega svo skemmtilegur, fróður og hafði frá svo mörgu að segja.
Vinátta hans og viturleg ráð hafa skilið eftir varanleg spor í hjörtum okkar sem þekktum hann. Ég votta fjölskyldu og vinum Harðar mína dýpstu samúð.
Hvíl í friði kæri vinur.
Vigdís Häsler.
Þau liggja í grasinu, horfa til himins. Hörður í miðjunni og litlu stelpurnar hvor sínum megin. Himinninn blár og grasið grænt í fallega garðinum á Hólabrautinni. Kannski voru þau að hlusta á grasið vaxa, því Hörður hafði sagt litlu vinkonunum, Guðrúnu Eddu og Ölfu Möllu, að hlusta vel, og forvitin börn gera það að sjálfsögðu. Kannski heyrðu þau einmitt grasið vaxa þennan dag. Þannig var Hörður, hann spurði börn skemmtilegra spurninga og gaf sér tíma til að hlusta á þau.
Fjara fyrir norðan á svölum sumardegi í einni af mörgum heimsóknum. Hörður að kenna stelpunum að fleyta kerlingar; ekki kom til greina að gefast upp, ef eitthvað gekk ekki fullkomlega var bara að reyna aftur. Seigla skiptir máli. Nokkuð sem einkennir Guðrúnu Eddu, vinkonu okkar sem kveður pabba sinn í dag, stolt hans og gleðigjafi, og hann vissi án efa alltaf að henni væru allir vegir færir hvað sem kæmi upp á, því staðfesta, jákvæðni og manngæska vinna vel saman.
Fallegt bókasafn í Dublin og Hörður spurði vinkonurnar hvort þær héldu að það væri eitthvað merkilegt í þessum bókum. Unglingsstelpurnar höfðu ekki svör við því. Kannski hefur Hörður þá sagt þeim að þær gætu fundið út úr því seinna; það hefði verið líkt honum að hafa svörin óráðin eins og eitthvað dálítið dularfullt. Hörður hafði gaman af að spyrja spurninga, ekki alltaf til að fá svör heldur til að fá fólk til að hugsa. Meistararitgerð Harðar, Börnin í veggjunum: Um rými barna í leikskólum, er eitt af þeim málefnum sem hann velti fyrir sér og vildi breyta. Nú hafa börnin misst einn sinn besta málsvara fyrir meira rými og gæðum í leikskólastarfi.
Hörður var á svo margan hátt jákvæð fyrirmynd í lífi barna og fullorðinna heima og í starfi á sinn hæglátan hátt, með sinn einstaka húmor, skemmtileg tilsvör og óendanlegan áhuga á nýjungum frá Apple.
Hörður og Díana eru hluti af foreldrahópi 13 sem fór til Kína að sækja dætur sínar fyrir mörgum árum. Það voru okkar fyrstu kynni og hugmyndin var að fara aftur saman til Kína með stelpunum okkar, því áhugi á landinu var alltaf til staðar hjá Herði.
Hólabrautin, uppáhaldsstaðurinn, hefur verið í sífelldri endurnýjun gegnum árin, úti sem inni. Ef spurt var um framkvæmdir og blómlega garðinn var svarið oftar en ekki að þetta væri allt Díönu að þakka, hún gerði allt fallegra í kringum sig. Hörður mun ekki lengur birtast á tröppunum á Hólabrautinni og spyrja kankvís Díönu og gestina sem sitja í sólinni hvort allir séu ekki til í kaffi. Hann kæmi að vörmu spori með kaffið og hyrfi svo inn úr sólinni. Nú er hann farinn aðra leið, óvænt án nokkurs undirbúnings, en skilur eftir sig bjartar minningar um mannvin og fjölskylduföður sem gerði lífið fallegra og betra með nærveru sinni. Við Alfa Malla minnumst hans með söknuð í hjarta og þakklæti í huga. Það er gott að hafa átt vin eins og Hörð.
Jórunn.
„Hver man ekki eftir Herði!“ Þessi orð, sögð af unglingi sem eitt sinn var barn í leikskólanum Aðalþingi, eru mér alltaf minnisstæð. Þau segja svo margt í fáum orðum. Hörður var nefnilega einn af þeim sem skilja eftir sig spor – bæði í hjörtum og í verkum. Hann var léttur í lund, beittur í orðum, faglegur í nálgun, nákvæmur í framkvæmd – og alltaf stutt í glettni. Hann var tilbúinn að fara ótroðnar slóðir og gerði það með áræði, húmor og metnaði. Mér hlotnaðist sá heiður að feta með Herði slíkar slóðir í leikskólamálum í rúman áratug. Við vorum samstiga, höfðum sameiginlega sýn og vildum láta gott af okkur leiða – og það gerðum við. Í þessu samstarfi okkar vorum við á víxl yfirmenn hvort annars; hann sem leikskólastjóri Aðalþings og ég sem aðstoðarleikskólastjóri, en þar sem ég rak Aðalþing var ég einnig yfirmaður hans. Við deildum lítilli skrifstofu og þetta krafðist bæði náinnar samvinnu og gagnkvæms trausts.
Í sameiningu tókst okkur að hrinda í framkvæmd hugmyndum og verkefnum sem hvorugt okkar hefði getað eitt, án stuðnings hins. Við vorum oft þau fyrstu til vinnu og þau síðustu heim – og þess á milli símtöl sem snerust nær undantekningarlaust um það sem brann á okkur báðum: velferð leikskólabarna. Nú er ég komin á eftirlaun – hætt að reka Aðalþing.
Síðast þegar við Hörður hittumst, á gangi Landspítalans, vorum við með hugann við framtíðina. Við ræddum um ný verkefni, enda nýlega fengið veglegan styrk frá menntamálaráðuneytinu til þróunarstarfs. Það var margt ógert enn, sögðum við – og það er rétt.
Nú er það okkar sem eftir stöndum að halda á lofti nafni Harðar og halda áfram því starfi sem honum var svo mikið hjartans mál – að bæta hag leikskólabarna. Það er skylda okkar og heiður.
Ég syrgi Hörð mjög en er líka þakklát fyrir samfylgdina og votta Díönu, börnunum og samstarfsfólki mína dýpstu samúð.
Guðrún Alda Harðardóttir.
Með trega en líka þakklæti kveðjum við Hörð Svavarsson, leikskólastjóra, lífskúnstner og óviðjafnanlegan húmorista, sem lést á dögunum eftir stutt veikindi. Hörður var maður sem lifði lífinu af einlægni, hlýju og gleði – og skildi eftir sig spor sem verða seint þurrkuð út.
Fæddur með auga fyrir því góða í lífinu og með meðfæddan hæfileika til að sjá hið fyndna í hversdagsleikanum hafði Hörður einstakt lag á að létta lund annarra. Hvort sem það var með orðatiltæki sem enginn hafði heyrt áður, tvíræðu brosi eða óvæntum brandara á réttum tíma, þá vissi maður aldrei alveg hvað hann myndi segja næst – en maður vissi að maður myndi hlæja.
En Hörður var ekki aðeins gleðigjafi – hann var einnig traustur leiðtogi og sannur þjónn barnanna. Sem leikskólastjóri um árabil leiddi hann starfsfólk sitt með umhyggju, réttsýni og skýrri sýn á mikilvægi leikskólastarfs. Hann trúði á sköpunarkraft barna, hlustaði á þau með hjartanu og skapaði umhverfi þar sem þau fengu að vaxa og dafna á eigin forsendum.
Undir léttu yfirborði bjó einnig djúp manngæska. Hörður var sá sem manni leist alltaf á að hringja í þegar eitthvað bjátaði á – og hann var sá sem kom fyrst og fór síðast þegar þurfti að standa saman. Hann sagði oft að lífið væri eins og leikrit – maður þyrfti bara að muna að taka það ekki of alvarlega. En við vitum að hlutverk hans var stórt, og hann lék það af mikilli list og hlýju.
Við sem þekktum hann, vinnufélagar, vinir, börn og foreldrar, eigum ótal minningar – sumir muna eftir honum með sögur um kanínur og kökukeppni, aðrir með spuna og spaug á kaffistofunni. En sameiginlegt er að við munum öll eftir honum með bros á vör og hlýju í hjarta.
Hörður Svavarsson skilur eftir sig arfleifð sem leikskólabörnin okkar munu njóta áratugum saman. Minningin um hann lifir áfram í hlátrinum sem hljómar í leikskólagarðinum, í smáatriðunum sem hann sá og gerði – og í öllum þeim sem hann snerti með nærveru sinni.
Elsku Hörður – takk fyrir allt. Þú varst ljós, hlátur og hlýja. Þín verður sárt saknað.
Hjalti Þór Björnsson.
Í dag kveðjum við Hörð, leikskólastjórann okkar og kæran vin, allt of snemma.
Hörður var okkur mikil fyrirmynd bæði í starfi sem og í persónulegu lífi, enda átti hann ótal marga góða kosti sem vert er að tileinka sér. Hjá Herði var alltaf stutt í gleðina, hann var mikill húmoristi, gerði grín að sjálfum sér og öðrum og átti það stóran þátt í að skapa léttan og góðan starfsanda hjá okkur í Aðalþingi.
Hörður var góður leiðbeinandi, hann átti auðvelt með að koma auga á styrkleika fólks og hafði gott lag á að hjálpa fólki að efla þá styrkleika. Hann var hvetjandi og örlátur á tíma sinn þegar kom að skólastarfinu enda var hann mjög stoltur af Aðalþingi og starfinu okkar þar. Hann hafði mikla ástríðu fyrir því að búa til besta skóla í heimi og var sannkallaður brautryðjandi varðandi sýn sína á börn, að þau væru getumiklir einstaklingar og lagði áherslu á að á þau væri hlustað. Kærleikur hans til barnanna var fallegur og það var honum mikilvægt að vera talsmaður þeirra.
Hörður átti auðvelt með að sjá hluti frá mörgum sjónarhornum og hann sá hlutina oft öðruvísi en annað fólk gerði. Hann nálgaðist fólk alltaf á jafningjagrundvelli og það var gott að leita til hans til að fá ráð varðandi ýmiss konar mál. Hann lagði áherslu á lýðræði í skólastarfi, kenndi okkur að lýðræði tæki tíma og að mikilvægt væri að fara réttar leiðir í að innleiða breytingar. Á sama tíma lagði hann líka áherslu á að festast ekki í sömu sporunum og að breytingar og framfarir væru mikilvægar. Hann var mikill tæknimaður og var á undan sinni samtíð varðandi tæknimál í leikskólum og það hvernig hægt væri að nýta tækni með leikskólabörnum. Apple var hans merki og fór það ekki framhjá neinum í Aðalþingi að það væri eina vitið.
Hörður var mikill fagurkeri og lagði áherslu á að hafa umhverfi sitt og okkar fallegt. Honum var umhugað um starfsfólkið sitt, vildi gera vel við það og allt sem hann gerði í nafni leikskólans var fallega framsett, innpakkað og nostrað við hvert smáatriði.
Hörður átti auðvelt með að kveikja áhuga fólks á hinum ýmsu verkefnum og að fá fólk í lið með sér. Hann hugsaði stórt og var með ýmislegt á teikniborðinu sem við munum nú gera okkar besta í að taka við og halda áfram með. Það munum við gera af virðingu, kærleika og fagmennsku, allt í hans anda.
Elsku Díana og fjölskylda, missir ykkar er mestur og er hugur okkar hjá ykkur á þessum erfiðu tímum. Minning Harðar lifir í hjörtum okkar allra hér í Aðalþingi um ókomna tíð.
Fyrir hönd leikskólans Aðalþings,
Kennarafélagið;
Agnes, Agnes Fríða, Heiðdís, Herdís, Sigríður, Steinunn og Þórhildur.
Það er með sorg og virðingu sem við kveðjum Hörð Svavarsson, leikskólastjóra Aðalþings, frumkvöðul og leiðtoga sem hefur haft mikil áhrif á leikskólastarf á Íslandi.
Hörður var leikskólastjóri og einn af eigendum einkarekna leikskólans Aðalþings í Kópavogi. Hann var ekki aðeins leiðandi í faglegri þróun innan eigin leikskóla, heldur hafði áhrif langt út fyrir veggi hans. Þau áhrif munu lifa áfram í hugum og hjörtum þeirra sem með honum störfuðu.
Hörður var brautryðjandi á ýmsum sviðum leikskólastarfs og undir hans forystu varð Aðalþing að fyrirmyndarleikskóla þar sem fagleg gæði og velferð barna voru ávallt í forgrunni. Með metnaði, innsæi og óbilandi trú á mikilvægi leikskólastarfs lagði hann grunn að nýjum leiðum, viðhorfum og hugmyndafræði sem eftir var tekið og braut blað í leikskólamálum á landsvísu. Hörður hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir hönd leikskólans sem bera vott um forystu í faglegu starfi.
Menntasvið Kópavogsbæjar hefur átt afar farsælt samstarf við Hörð þau 15 ár sem hann starfaði í Aðalþingi. Hann skilur eftir sig djúp spor, bæði faglega og persónulega. En minningin um störf hans og gildi lifir áfram í öllum þeim sem fengu að njóta leiðsagnar hans og sjá árangur hans blómstra áfram í starfi leikskólans.
Við sendum fjölskyldu Harðar, samstarfsfólki og börnum á Aðalþingi dýpstu samúðarkveðjur okkar með ósk um styrk í sorginni.
Við kveðjum með þakklæti í hjarta. Hvíl í friði.
Fyrir hönd Kópavogsbæjar,
Anna Birna
Snæbjörnsdóttir og
Sigrún Hulda Jónsdóttir.
Hörður Svavarsson lést þann 19. júní síðastliðinn eftir skammvinna baráttu við illvíg veikindi. Með fráfalli hans hefur Fimleikafélagið Björk misst tryggan liðsmann, félaga og leiðtoga. Hörður sinnti starfi formanns félagsins af einlægni og eldmóði um árabil og lagði ómetanlegt starf af mörkum til uppbyggingar þess.
Hörður hafði skýra sýn á mikilvægi íþróttastarfs fyrir börn og ungmenni og vann af ósérhlífni að því að efla starfsemi félagsins og bæta aðstöðu þess. Framlag hans var bæði faglegt og persónulegt og markaði djúp spor í þróun og framtíð Bjarkar. Félagið nýtur enn góðs af framlagi hans, hugsjónum og vinnuframlagi.
Þegar ég tók við starfi framkvæmdastjóra Fimleikafélagsins Bjarkar nýverið fékk ég tækifæri til að kynnast Herði. Hann kom til mín að eigin frumkvæði, bauð fram stuðning sinn, rétti fram hjálparhönd og leiddi mig í gegnum starfsemi félagsins og þær áherslur sem hann og stjórn höfðu lagt til grundvallar. Þessi stuttu en dýrmætu kynni voru mikilvæg og giftudrjúg, enda var hann með eindæmum hjálpsamur, hógvær og hlýr í öllum samskiptum. Við áttum einnig gott samtal um eitt hans helsta ástríðumál, málefni leikskóla, þar sem við tengdumst í gegnum störf okkar í fræðsluráði Hafnarfjarðarbæjar. Þar ræddum við um sameiginlegar áhyggjur okkar af því að of mörg börn væru í of litlu rými og að mikilvægt væri að efla allan aðbúnað leikskólabarna og gera starfsfólki leikskólanna kleift að sinna mikilvægum störfum sínum af kostgæfni. Rödd Harðar var skýr, rökföst og ávallt málefnaleg, en líka umhyggjusöm og drifin áfram af réttlætiskennd og samfélagslegri ábyrgð.
Fimleikafélagið Björk kveður Hörð með þakklæti og virðingu. Við minnumst hans með hlýju og erum honum ævarandi þakklát fyrir ómetanlegt framlag hans til félagsins og fimleikahreyfingarinnar í heild.
Fyrir hönd félagsins sendum við fjölskyldu hans og ástvinum innilegustu samúðarkveðjur.
Hilmar Ingimundarson, framkvæmdastjóri
Fimleikafélagsins Bjarkar.