Finnbogi Garðar Guðmundsson fæddist 17. nóvember 1946 í Reykjavík. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 13. júní 2025.
Foreldrar Finnboga voru Guðmundur Finnbogason, pípulagningameistari frá Búðum á Snæfellsnesi, f. 21. mars 1910, og Olga Dalberg húsfreyja, f. 13. nóvember 1904. Bróðir Finnboga er Þórður, f. 29. ágúst 1943, og eiginkona hans er Gunnlaug Jóhannesdóttir, f. 17. maí 1950.
Eiginkona Finnboga er Edda Dungal, f. 14. apríl 1948. Synir þeirra eru Guðmundur, f. 5. júní 1975, eiginkona hans er Berglind Ósk Magnúsdóttir, f. 15. apríl 1978, og Sturla Már, f. 12. október 1978. Sonur Sturlu er Bjarki Freyr, f. 22. júní 2007.
Finnbogi útskrifaðist frá Þjóna- og veitingaskólanum árið 1966 og starfaði á Hótel Sögu og Hótel Holti. Hann lærði pípulagnir árið 1968 og starfaði við það megnið af starfsævinni. Síðustu starfsárin vann hann hjá A4.
Útför hans hefur farið fram í kyrrþey.
Kæri bróðir, þetta verða því miður mín síðustu skilaboð til þín í þessari jarðvist. Mér er minnisstætt hvað við vorum heppnir sem stubbar að eiga eins góða foreldra og við áttum í æsku og hvað það var uppbyggilegt að komast í sveit á sumrin, þú varst nokkur sumur á Háafelli í Dölum og síðar varstu á bænum Hvarfi í Bárðardal. Ég fór svo að Flatey á Mýrum í Hornafirði. Þarna kynntumst við góðu fólki og lærðum að vinna við bústörf, og ekki má gleyma því hvað við urðum seigir að keyra traktora, maður minn.
Foreldrar okkar áttu sumarbústað uppi á Vatnsenda og þar byrjaði veiðidellan í okkur, sem fylgdi okkur síðan alla tíð. Við veiddum t.d. í Miðfjarðará, og þar var mikið sungið en kórstjórinn slyngi Jón Stefánsson leiddi alltaf sönginn og þú spilaðir með á gítar. Svo má nefna Stóru-Laxá, Gljúfurá og margar fleiri. Kæri bróðir, nú þegar þú yfirgefur þessa jarðvist og nemur land á ókunnum slóðum bið ég þig að kíkja eftir veiðilendum þar sem við gætum notið okkar síðar.
Góður guð blessi þig elsku karlinn minn.
Þinn bróðir,
Þórður
(Doddi).
Fallinn er frá góður vinur minn í áratugi. Æskuárin í Mávahlíðinni voru fjölbreytt og spennandi. Hápunkturinn var að renna sér á veturna á sleða í brekkunni efst í Mávahlíðinni, sem nú er horfin. Þrátt fyrir ólíkar leiðir okkar í gegnum lífið hélst góð vinátta okkar og voru það ávallt fagnaðarfundir þegar við hittumst og rifjuðum upp gamla tíma, ekki síst fjölmörg prakkarastrik sem við stunduðum reglulega á okkar æskuárum í Mávahlíðinni og næsta nágrenni.
Finni varð pípulagningameistari og hluta ævi sinnar vann hann við pípulagnir í samstarfi við föður sinn, Guðmund Finnbogason pípulagningameistara. Allir sem unnu með Finna treystu honum til góðra verka.
Hann var ávallt tilbúinn til að hjálpa og aðstoða þá sem leituðu til hans með margvísleg verkefni. Hann átti afar gott með að umgangast vinnufélaga og þá sem hann vann fyrir hverju sinni. Hann var lausnamiðaður í störfum sínum og lagði sig fram um að leysa snúin pípulagningastörf með farsælum hætti, sem hann oft gerði þótt líkurnar væru ekki miklar. Ég er þakklátur fyrir hans vináttu og góðar samverustundir sem við áttum fyrr og síðar.
Nú er Finni allur og eftir sitja minningar um góðan dreng. Eiginkonu hans, Eddu Dungal, og fjölskyldunni allri sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Vilhjálmur Þ.
Vilhjálmsson.
Fallinn er nú frá góður vinur og skemmtilegur félagi, Finnbogi Guðmundsson, og hans verður sárt saknað af öllum sem til hans þekktu.
Fyrir nokkrum árum hafði Finnbogi, sem alltaf var
kallaður Finni í sínum gamla vinahópi, frumkvæði að því að hóa saman nokkrum
vinum, sem hann kynntist á sínum yngri árum, til skrafs og ráðagerða á kaffihúsi. Á fyrsta fundinum var mikið spjallað og gamlar sögur rifjaðar upp. Ákveðið var að boða í nýtt
spjall mánuði seinna og það varð að venju að slíkir fundir voru boðaðir reglulega
yfir vetrarmánuðina. Alltaf var það Finni sem boðaði okkur vinina.
Þrír í hópnum voru gamlir skólafélagar úr Hlíðunum, allt frá því að við sóttum tímakennslu sex ára gamlir til Guðrúnar Þorsteinsdóttur í Drápuhlíðinni til að undirbúa okkur undir barnaskólanámið í Austurbæjarskólanum. Síðar tengdumst við allir þrír hljómsveitinni Roof Tops, hver á sinn hátt, en í kaffihúsahópnum voru til viðbótar tveir máttarstólpar úr þeirri sögufrægu hljómsveit. Kaffihúsahópurinn samanstóð því af fimm gömlum félögum og vinum. Umræðuefnin voru oft sögur sem tengdust okkur sjálfum á árum áður. Bílferðirnar á sveitaböllin á 7. áratugnum fengu sitt pláss. Ferðirnar á Hvol og Aratungu, að ekki sé talað um ferðina í Húnaver, sem líklega tók hátt í sólarhring, en blússað var af stað seinni partinn á laugardegi frá Reykjavík. Komið í Húnaver um miðnætti og síðan keyrt heim um nóttina og fram á næsta dag. Í þessum ferðum var „Sjenni bróðir“ undantekningalaust með í för.
Tengslin við hljómsveitina Roof Tops hófust á „Glaumbæjarárunum“ svokölluðu, þegar við félagar voru komnir á þrítugsaldurinn. Einn í hópnum var liðsmaður sveitarinnar, annar umboðsmaður og textahöfundur og hinn þriðji útgefandi fyrstu hljómplötunnar. Finni var þá um skeið framreiðslumaður á þessum sögufræga skemmtistað og eftir dansleiki var gleðskapnum gjarnan haldið áfram í „Blómalandinu“ sællar minningar. Finni var þar hrókur alls fagnaðar, enda allra manna skemmtilegastur í orðum og tiltektum, þegar sá gállinn var á honum. Hann skráði nafn sitt í sögu Roof Tops þegar hann var viðstaddur upptöku á fyrstu plötu sveitarinnar og mælti þá af munni fram: „Síðan kom örstutt hlé og allir fengu sér te“, en frasi þessi varð landsfrægur á sínum tíma, og heyrist stundum enn! Er ekki örgrannt um að „Sjenni bróðir“ hafi þarna verið viðstaddur, enda platan tekin upp í sjónvarpssal að næturlagi, eftir dansleik í Glaumbæ.
Og árin liðu við leik og störf og þótt stundum væri vík milli vina hélst þráðurinn þó
óslitinn allan þennan tíma. Við félagarnir í kaffihúsahópnum munum sárt sakna Finna
um ókomin ár og vottum Eddu, börnum þeirra og öðrum
ástvinum dýpstu samúð okkar.
Hvíl í friði, kæri vinur.
Kaffihúsahópurinn:
Haraldur E. Ingimarsson, Ólafur Haraldsson,
Stefán G. Stefánsson, Sveinn Kr. Guðjónsson.