Ingvar Hallgrímsson fæddist í Hafnarfirði 24. september 1933. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 11. júní 2025.

Hann var sonur hjónanna Guðrúnar Maríu Bjarnardóttur, f. 19. júní 1909, d. 16. janúar 1973, og Hallgríms Ingibergs Sigurðssonar, f. 3. október 1909, d. 11. nóvember 1991. Systkini Ingvars eru: Guðmundur Rúnar, f. 21. júlí 1936, Hrafnhildur, f. 17. september 1937, d. 28. september 2021, Hlöðver, f. 2. júlí 1942, d. 4. ágúst 2021, og Jóhann Sigurður, f. 4. apríl 1945, d. 26. desember 2022.

Hinn 16. október 1955 kvæntist Ingvar Guðrúnu Maríu Þorleifsdóttur, f. 27. október 1930, d. 13. mars 2022, og eignuðust þau fimm börn. Foreldrar Guðrúnar Maríu voru: Þorleifur Ásmundsson, f. 11. ágúst 1889, d. 10. október 1956, og María Jóna Aradóttir, f. 4. maí 1895, d. 15. desember. 1973. Börn Ingvars og Guðrúnar Maríu eru: 1) Inga María, f. 12. apríl 1955, gift Gunnari Þór Jónssyni, f. 11. september 1952. börn þeirra eru Ingvi Jón og Jane Petra og barnabörnin eru sex. 2) Ómar, f. 28. apríl 1958, kvæntur Guðmundu Kristinsdóttur, f. 15. janúar 1962. Börn þeirra eru Íris, Guðrún María og Eydís og eru barnabörnin sex. 3) Ingunn Ósk, f. 13. janúar 1963, gift Birni Herberti Guðbjörnssyni, f. 20. janúar 1955. Börn þeirra eru Ingvar, Sindri og María Ósk. Dóttir Björns er Ellen Mörk. Barnabörnin eru fimm. 4) Vilhjálmur Norðfjörð, f. 17. mars 1966, giftur Erlu Arnoddsdóttur, f. 23. febrúar 1966. Dætur þeirra eru Anna Margrét og Elísabet. 5) Kjartan, f. 21. júní 1970, giftur Sveinbjörgu Sigríði Ólafsdóttur, f. 10. mars 1972. Börn þeirra eru: Rúnar Bárður, Jökull Ingi og Freyja Líf. Sonur Sveinbjargar er Ólafur Elí.

Ingvar fæddist og ólst upp í Hafnarfirði til sex ára aldurs er fjölskyldan fluttist til Keflavíkur haustið 1939 og bjó hann þar til dauðadags. Hann lauk sveinsprófi í rafvirkjun árið 1956 og var meðstofnandi að Rafiðn hf. árið 1971, ásamt Kristni Björnssyni og Bjarna Guðmundssyni, sem var eitt elsta og stærsta rafverktakafyrirtæki á Suðurnesjum. Ingvar hætti störfum hjá fyrirtækinu árið 1991, þegar það var selt, og hóf þá störf hjá Olíusamlagi Keflavíkur þar sem hann starfaði til ársins 1998. Þar að auki rak hann Gúmmíbátaþjónustu Keflavíkur um árabil.

Ingvar var mjög virkur í félagsstörfum og sinnti þar ýmsum trúnaðarstörfum. Hann var meðal annars félagi í Hestamannafélaginu Mána og Rafverktakafélagi Suðurnesja, þar sem hann var heiðursfélagi. Ingvar tók virkan þátt í starfi Karlakórs Keflavíkur, Kirkjukórs Keflavíkurkirkju, Eldeyjarkórnum og Frímúrarastúkunni Sindra. Ingvar var alla tíð mjög virkur í bæjarpólitíkinni og gegndi m.a. nefndarstörfum fyrir Alþýðuflokkinn til margra ára.

Útför fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 1. júlí 2025, klukkan 13.

Nú er löngum degi lokið og mamma alveg örugglega klár í móttökur og tilbúin að dekra við kallinn sinn eftir gott dagsverk. Erfitt var að fylgjast með pabba smátt og smátt veikjast meir og meir þessa síðustu mánuði. Krabbinn er kröfuharður bóndi og það sást á honum. En hvíldinni hefur hann verið feginn og klár í brottför til sumarlandsins. Líklegast verður búið að gera Storm kláran í reiðtúr og þar verður riðið um grundir og kíkt á gamla vini og mamma klár með uppáhaldskökurnar.

Pabba er hægt að lýsa sem ljúfum og kærleiksríkum manni sem ekkert aumt mátti sjá og svo gat hann sýnt hörðu hliðina, gerði kröfur en var sanngjarn, var hreinskiptinn og gat verið orðhvass og lét ekki vaða yfir sig. Það segir mikið um pabba þegar maður rekst á fólk og það þarf að staldra við til að mæra hann og mannkosti hans. Oft fylgja með skemmtilegar sögur um gjörðir hans og orðhnyttni. Hann var fyrirferðarmikill í fasi, lét vel af sér vita hvar sem hann var með skemmtileg tilsvör og hann var alltaf tilbúinn að ræða málin. Oft voru það þjóðmálin og bæjarpólitíkin sem hann hafði sterkar skoðanir á. Hann var virkur í sínu samfélagi bæði í pólitíkinni og öðrum félagsmálum. Hann var mikill söngmaður þar sem hann tók þátt í öllum kórum sem hann var gjaldgengur í í sveitarfélaginu á meðan hann hafði heilsu til. Hann var bassi og var stoltur af því. Man eftir því í messu á aðfangadag þar sem hann sat með okkur systkinum í kirkjunni og meðan samsöngur var með kórnum söng hann sína rödd, s.s. bassa, sem er oftast nær röddin sem er ekki með laglínuna. Mér fannst það skrýtið en síðan vandist maður því og pabbi var góður söngmaður.

Ég er stoltur og ánægður með að hafa náð smá tíma með honum í karlakórnum. Einnig náði ég góðum tíma með honum í Frímúrarareglunni. Gott var að ræða við hann um starfið þar og fá ráð. En reglan var honum afar kær og gott er að leita í þann kærleika sem bræðurnir sýna hver öðrum og er í reglunni.

Pabbi var barngóður og gaf sig að afa- og langafabörnum sínum. Hafði gaman af þeim og gantaðist við þau og þau við hann. Þau löðuðust að honum. Þegar þau urðu eldri fundu þau í honum góðan vin sem gott var að leita til og hann var alltaf tilbúinn að veita góð ráð. Hann var mikill knúsari, faðmlagið stórt og mikið og þykkar hendurnar (þá meina ég þykkar) héldu þéttingsfast utan um mann. Hafði mikla snertiþörf, ósjaldan var lögð hönd á lærið á manni eða tekið í höndina til að leggja áherslu á orðin. Pabbi var traustur og var alltaf tilbúinn að hjálpa og styðja mann ef að þess þurfti.

Þessum kafla í lífinu er nú lokið, mamma og pabbi eru sameinuð. Ég verð ávallt þakklátur mömmu og pabba fyrir alla ástina og umhyggjuna í gegnum lífið og þakklátur fyrir allan þann tíma sem ég hef átt með foreldrum mínum. Eftir fráfall mömmu kynntist pabbi yndislegri konu, henni Addý, sem var honum ómetanlegur vinur síðustu æviárin og við erum ákaflega þakklát fyrir hana og að fá að kynnast henni.

Missirinn er sár, minningarnar margar, ljúfar og góðar. Takk fyrir allt.

Þinn sonur.

Kjartan Ingvarsson.

Í dag kveð ég elskulegan tengdaföður minn og vin, Ingvar Hallgrímsson. Það eru tæplega 55 ár síðan ég kom í fjölskylduna hans. Efst í huga mínum er þakklæti fyrir sérstaklega góð kynni og allt það sem hann hefur verið mér í gegnum tíðina. Á tímamótum sem þessum koma upp ótal minningar frá liðinni tíð, en hér verður aðeins stiklað á stóru.

Ein af skemmtilegri minningum mínum um Ingvar er þegar hann kom ríðandi á hesti heim á hlað í Hrauntúninu og ég tók þar á móti honum. Spurði hann mig þá hvort ég vildi ekki fara á hestbak, því þetta væri hinn ljúfasti hestur. Ég taldi það nú ekki vera mikið mál en um leið og ég settist á bak hestinum tók hann á rás út götuna og í átt að gamla kirkjugarðinum. Ingvar kallaði til mín og sagði mér að beina hestinum á kirkjugarðsvegginn til að reyna að stöðva hann. Það gerði ég, en þá hljóp hesturinn bara til baka í áttina til Ingvars, sem rétt svo náði að stöðva klárinn. Þarna fékk ég heldur betur að kynnast því að það er ekki auðvelt að stjórna hestum. Alla vega stjórnaði ég ekki í þessari ferð og tel ég mig hafa verið heppinn að sleppa úr þessum reiðtúr óskaddaður.

Fyrir allmörgum árum, þegar Ingvar og Guðrún áttu fellihýsi, vorum við Inga svo heppin að fara með þeim í nokkrar ferðir til Austfjarða, sem og norður í land. Það skemmtilegasta við þessar ferðir var hversu fróður Ingvar var um landið sitt og skipti þá engu máli hvar við vorum. Alltaf kunni hann nöfnin á því sem á vegi okkar varð, eins og fjöllum, fjörðum, vötnum eða bæjum.

Ingvar og Guðrún komu mjög oft til okkar Ingu í sumarbústaðinn og gistu þá oftast í nokkra daga. Þá var yfirleitt tekinn bíltúr um Suðurlandið. Þessar ferðir voru mjög skemmtilegar og eru mér ógleymanlegar fyrir þær sakir hvað Ingvar vissi mikið um sveitirnar og mannlífið þar, þá sérstaklega Biskupstungurnar en þar hafði hann dvalið í sveit sem ungur drengur. Mest sé ég eftir því að hafa ekki tekið upp og geymt frásagnir hans af fólkinu sem þar lifði sem og staðháttum öllum.

Þau voru ófá skiptin sem Ingvar og Guðrún komu með okkur Ingu til Spánar og dvöldu með okkur í íbúðinni okkar á La Marina. Hann elskaði þessar ferðir og uppáhaldið hans var að sitja í sólinni og láta hana baka sig. Þá höfðu þau ekki síður gaman af ferðum okkar um sveitir Alicante-héraðs. Þau voru mörg kvöldin sem við sátum saman og ræddum heimsmálin og pólitíkina heima. Það skemmdi ekki fyrir að við vorum nokkuð sammála í flestum málum, enda miklir kratar báðir tveir.

Ingvar var alltaf boðinn og búinn að aðstoða okkur Ingu, einkum þegar um var að ræða eitthvað sem tengdist rafmagni. Hann gerði við og lagaði hin ýmsu raftæki fyrir okkur í gegnum tíðina, svo ekki sé minnst á að leggja rafmagn í húsið okkar í Heiðarbólinu og bústaðinn í Vaðnesi.

Eftir að Ingvar hætti allri vinnu og settist í helgan stein urðu samskipti okkar og tengsl enn styrkari og samverustundirnar enn fleiri. Ég er afar þakklátur fyrir vináttu okkar í gegnum tíðina og á eftir að sakna hans mikið. Hvíldu í friði minn kæri.

Gunnar Þór Jónsson.

Með þakklæti minnist ég tengdapabba míns, þakklát fyrir samverustundirnar og kærleikann í gegnum árin.

Við Kjartan vorum ekki búin að vera lengi saman þegar boð kom á Vínartónleika með stórfjölskyldunni. Einstaklega skemmtileg helgi og kolféll ég fyrir Kjartani og fjölskyldunni allri.

Ingvar tók Óla Elí son minn strax inn í hópinn sinn og kallaði Óli Elí hann afa nánast frá fyrstu stundu.

Í fyrstu fannst mér hann hin mesta karlremba og lagði nú ekki í rökræður við hann en það breyttist fljótt og hafði ég gaman af að rökræða við hann um hin ýmsu málefni. Hann mótmælti mér þó sjaldan þegar heilbrigðismál bar á góma, vorum sammála um flest þar og treysti hann mér fyrir mörgum heilsutengdum málum, sagði að ég væri „læknirinn“ hans. Ég reyndi lengi vel að leiðrétta hann að ég væri hjúkrunarfræðingurinn hans en gafst fljótlega upp á því. Takk Ingvar minn fyrir að sýna mér þetta traust og hlusta á ráðleggingar mínar.

Gladdist hann yfir því þegar fjölskyldan stækkaði og umvafði hann börnin okkar. Þau elskuðu öll að vera í kringum hann og Guðrúnu ömmu. Föstudagskaffið, verslunarmannahelgin, jóladagur og áramótin voru þessir föstu punktar sem stórfjölskyldan kom saman. Kátína, hlátur, hávaði og troðningur einkenndu þessar samkomur. Þarna var Ingvar í essinu sínu, sagði sögur, hafði gaman af að spjalla, spila, syngja og æsa mannskapinn upp með málefnum líðandi stundar.

Ingvar gaf lífinu lit, góð fyrirmynd okkar allra. Hann átti auðvelt með að sýna kærleika og á ég eftir að sakna hlýja faðmlagsins hans og gleði þegar við hittumst. Áhugi á öllu því sem við vorum að gera, stoltur af hópnum sínum og fylgdist með og fagnaði hverjum áfanga með sínu fólki. Síðasta veislan var útskriftarveisla Jökuls Inga. Hann ætlaði sér að mæta og með kraftinum einum saman mætti hann og fagnaði með okkur.

Takk fyrir allt minn kæri vinur, þín verður sárt saknað og minning um góðan tengdapabba og afa mun lifa með okkur um ókomna tíð.

Þín tengdadóttir,

Sveinbjörg (Sveina).

Það voru daprar fréttir sem ég fékk þann 11. júní síðastliðinn þegar við fjölskyldan vorum stödd á Spáni. Vinur minn og tengdafaðir Ingvar Hallgrímsson er látinn. Ég fylltist mikilli sorg, en fljótlega fylgdi ró, þar sem vinur minn sem alltaf var hress og kátur var orðinn þreyttur þegar við Ingunn kvöddum hann þann 31. maí í óvissu um hvort við myndum hitta hann aftur. Hann var á 92. aldursári, ótrúlega hress og með húmorinn í lagi fram í það síðasta. Í lok árs 2024 greindist hann með nokkur mein sem unnu hægt og bítandi á honum og hann hætti að nærast. Síðustu vikurnar var hann búinn að fá nóg og vildi bara fá að kveðja.

Ingvar var búinn að lifa góðu lífi með Guðrúnu sinni sem aðrir kölluðu oft Gunnu en hann vildi bara kalla Guðrúnu sína. Þau eignuðust fimm myndarleg börn sem þau komu vel á koppinn. Þetta kom samt ekki af sjálfu sér og þurftu þau að hafa mikið fyrir þessu. Hann var mjög félagslyndur maður og hafði gaman af að kynnast nýju fólki. Fyrstu kynni sem fólk fékk af honum voru oftar en ekki spurningin „hverra manna ert þú?“

Ingvar var mikill hestamaður og átti hesthús með vinum sínum. Honum fannst gott að fá sér í tána með vinum sínum í hesthúsinu og í hestaferðum. Það var nú aldrei í miklum mæli eða til vandræða en kostaði samt að hann þurfti stundum að hlusta á góðtemplararæðu frá Guðrúnu sinni þegar hann kom heim og hún skipaði honum að fara úr þessum illa lyktandi reiðfötum úti í bílskúr. Þessar góðtemplararæður urðu nokkrar en virkuðu að lokum þannig að hann fékk sér ekki í tána síðustu áratugina og var í rauninni orðinn harðari góðtemplari en Guðrún hans. Ingvar var fiðrildi, með mikið flökkueðli og stöðugt í leit að nýjum ævintýrum, en Guðrún var jarðbundin, heimakær og stöðug. Hið fullkomna jafnvægi í hjónabandi, hvort öðru lífsnauðsynlegt.

Ingvar var mikill jafnaðarmaður og hafði gaman af pólitík. Hann vann ýmis störf fyrir Alþýðuflokkinn og var í ýmsum nefndum. Síðar mætti hann reglulega á fundi hjá Samfylkingunni, þar sem hann lét í sér heyra og þar munu margir sakna hans. Hann var duglegur að mæta í sund, þar sem hann eignaðist marga vini og jafnvel óvini því hann var gjarn á að kíkja aðeins í heitu pottana og varpa smá pólitískri sprengju á sjálfstæðismennina þar og fór svo áður en þeir náðu andanum, hvað þá að svara honum.

Það er svo margt gott sem þú hefur skilið eftir þig, kæri vinur. Það merkilegasta er nú börnin og fjölskyldur þeirra sem þið Guðrún sinntuð svo vel. Ykkar landsfræga föstudagskaffi þar sem allir í fjölskyldunni, vinir og ættingjar voru velkomnir í kaffi, pönnukökur og kræsingar hafa sameinað og þjappað fjölskyldu ykkar og vinum saman. Fyrir það erum við öll óendanlega þakklát.

Elsku vinur, mikið mun ég sakna þín. Ég mun minnast hlýs faðmlags þíns, brossins og allra stundanna sem við deildum saman um ókomna tíð.

Far þú í friði, minn kæri.

Þinn vinur og tengdasonur,

Björn Herbert
Guðbjörnsson.

Miðvikudaginn 11. júní var sólríkur og fallegur dagur á Spáni, þar sem við fjölskyldan vorum saman stödd. En þegar okkur bárust fréttirnar um að þú hefðir kvatt var eins og sólin hyrfi á augabragði og þokan tæki við. Samt skein sólin áfram í gegnum skýin, því við vissum að þú hefðir loksins fengið að hvíla lúinn líkama sem hafði unnið mikið og erfitt verk.

Afa Ingvari hefur oft verið líkt við fiðrildi, lífsglaður, ævintýragjarn, mikill hestamaður þar sem hann fann hvergi jafn mikið frelsi og í hesthúsinu eða í náttúrunni með sínum besta vini, íslenska hestinum. Húmorinn, skoðanagleðin, hlýjan þín og hversu mikið þér lá á hjarta að sýna náunganum umhyggju eru nokkur dæmi um hvaða manneskju þú hafðir að geyma.

Elsku afi, takk fyrir öll samtölin okkar um allt milli himins og jarðar, um gleðina og sorgina, lífið og tilveruna. Takk fyrir öll skutlin til og frá flugvellinum. Nærveran þín gaf manni alltaf svo mikla ró og öryggi. Og síðast en ekki síst, takk fyrir öll faðmlögin. Það voru engin knús eins og þín, full af hlýju, styrk og lækningu.

Ég sé þig fyrir mér ganga inn í sumarlandið, þar sem amma tekur á móti þér með sunnudagstertu, pönnukökum og faðmlagi og lagar síðan jakkafötin þín, eins og hún átti til að gera.

Takk fyrir allt, elsku afi. Við söknum þín sárt en minningin um þig og allt það góða sem þú gafst okkur mun lifa áfram í hjörtum okkar um ókomna tíð.

Þín vinkona,

María Ósk.

Elsku Ingvar afi og Gunna amma eru loksins sameinuð eftir rúmlega þriggja ára aðskilnað. Að hugsa um þau saman á ný veitir mér yl í hjartað. Afa verður sárt saknað en við fjölskyldan erum svo þakklát fyrir öll árin sem við fengum að hafa hann hjá okkur.

Afi var mikil félagsvera og var hann alltaf á einhverju flakki um bæinn að hitta vini og kunningja, á meðan beið amma róleg eftir að hann kæmi heim og fengi sér að borða. Hann var mikill matmaður og elskaði hann allt það sem amma eldaði og bakaði. Hún grínaðist oft með að hann borðaði of mikið og minnti hann reglulega á að borða minna.

Þegar ég var lítil stelpa fór ég mikið til ömmu og afa í Hrauntúnið. Þar á ég dýrmætar minningar, m.a. af okkur afa liggjandi á teppalögðu stofugólfinu þar sem hann var að reyna að kenna mér mannganginn í skák. Sú kennsla gekk nú ekki sem skyldi því enn þann dag í dag kann ég ekki að tefla, en ég naut samverunnar og það er það sem skipti máli.

Afi var mikill hestamaður og átti hann nokkra hesta stóran hluta ævi sinnar. Ég á ekki margar minningar úr hesthúsinu með honum, en ég man að mér fannst nöfn hestanna mjög áhugaverð. Þegar ég var unglingur hóf fjölskyldan að fara saman á Stóru-Velli um verslunarmannahelgar. Þar fengum við að fara á hestbak og naut ég þess í botn. Þessar helgar voru dásamlegar og enn í dag höldum við í þá hefð að vera saman þessa helgi ár hvert og fyrir það er ég þakklát.

Nokkrum árum eftir að ég varð íþróttakennari fór afi á eftirlaun. Mér fannst mjög mikilvægt að fá hann með mér í ræktina og prófa að lyfta lóðum. Þetta var um 2004 en þá voru fáir á hans aldri í líkamsræktarstöðinni sem ég vann í. Hann stóð sig vel í einhvern tíma en hætti því svo. Samt sem áður var hreyfing mikilvægur hluti af hans daglegu rútínu. Hann fór mikið í sund, púttaði og gerði teygjuæfingarnar sínar. Alveg fram á síðustu stundu gat hann teygt handleggi upp fyrir höfuð og klætt sig í sokkana sína og var hann stoltur af því.

Afi var einstakur karakter sem ég hafði mjög gaman af að vera með. Hann hafði sterkar skoðanir á öllu milli himins og jarðar og fengu allir að vita hverjar þær voru. Hann gat komið mörgum upp á háa c-ið með skoðunum sínum og honum leiddist ekki að eiga skoðanaskipti við mig frá unga aldri. Eftir slík samtöl sagði hann oft hlæjandi að ég væri nú meiri þrætarinn, en þá benti ég honum bara á að þetta væri í genunum.

Elsku afi, takk fyrir allt – fyrir samveruna, samtölin og fyrir hlýjuna. Nú ertu kominn til elsku ömmu. Ég sé ykkur fyrir mér saman – þú að gæða þér á bakkelsinu hennar og dásamlega matnum, og svo leggst þú út í sólbað með bros á vör. Þú varst yndislegur afi sem ég elskaði af öllu hjarta. Ég mun ætíð sakna þín.

Þín afastelpa,

Jane Petra.

Ég á svo margar minningar um þig, en það var lengi vel svo yndislegt að kíkja til ykkar í Hrauntúnið á föstudögum, hitta marga úr fjölskyldunni og snæða pönnsur og brúnköku, með mjólk og svo auðvitað kaffi.

Þú varst mikill fjölskyldukall og mikill hjartaknúsari og vildir ræða málin í sófanum og hélst stundum í hönd mína með stóru breiðu höndunum. Oft sagðir þú að menntun skipti máli og varst oft að hvetja mig og alla í kring að mennta sig. Þar fær maður reynslu sem enginn getur tekið frá þér og svo opnast fleiri dyr ef einhverjar aðrar lokast.

Ég á minningar um þig á milli 15 ára og 20 ára aldurs, þá kom oft fyrir að ég fékk að vinna um jólin í Gúmmíbátaþjónustunni sem þú áttir við höfnina. Þar fékk maður að læra ýmislegt og gera ýmis smáverk sem maður réð við. Þarna var líka frábært að fá að vinna með Villa og Kjartani sonum þínum og frændum mínum. Í seinni tíma fékk ég að fara með bílana mína til að þrífa og sinna viðhaldsverkum. Sjaldan sem þú sagðir nei við því.

Það kom einu sinni fyrir að ég keypti mér stóra hátalara í stofuna, og ekki dugði minna en Pajero-jeppinn þinn í málið til að ferja þá. Þú varst ekki lengi að segja já þegar ég útskýrði þessa mikilvægu ferð.

Ég á einnig skemmtilegar minningar um Lada station-bílinn þinn. Einhver jólin var farið í vinnu í Gúmmíbátaþjónustunni og kom fyrir að þú varst búinn að gleyma þessum fáu hraðahindrunum sem voru í Keflavík og keyrt var aðeins of hratt og bíllinn stökk nánast. Þá sagðir þú „var þessi hraðahindrun þarna?“

Þegar ég kom frá Noregi jólin 2004 eftir nám flutti ég með fjölskylduna til Reykjavíkur. Það voru nefnilega fleiri opnar dyr þar en í Keflavík. Fjölskyldukaffið var sótt sjaldnar og ég fór að hringja í ykkur oftar, bara svona til að spjalla. Þú varst ekki bara afi minn heldur líka góður vinur. Ég mátti grínast mikið í þér og stundum hringdi ég til að reyna að selja þér gamlar bækur eða gamalt upplag af tímaritum. Þú og amma gátuð nú hlegið upphátt að þessum uppátækjum. Þetta voru svo skemmtilegar stundir.

Núna ertu farinn Ingvar afi í sumarlandið að hitta hana Guðrúnu ömmu, það verður yndislegt. Ég man á spítalanum þegar þú varst orðinn veikburða, þá varstu að spá í sjónina. Lokaðir stundum öðru auganu þegar þú horfðir yfir herbergið og aftur á myndina af ömmu. Baðst mig um að rétta þér myndina sem var á gluggakistunni, og hvort amma væri þarna.

Síðustu vikurnar vildirðu að ég kenndi þér aftur á farsímann, svo að hægt væri að hringja til Addíar vinkonu þinnar. Ég mátti ekki sýna þér of mikið í símann því þú vildir gera þetta sjálfur. Það birti yfir þér þegar þú talaðir við Addí, hún veitti þér svo mikinn félagsskap og þar sá maður hvað þú hafði gaman af að heyra í henni, sérstaklega þegar þú varst orðinn rúmfastur.

Ég votta mína dýpstu samúð til mömmu og systkina hennar sem misstu pabba sinn, pabba sem missti góðan tengdapabba sem hefur fylgt þeim á lífsleiðinni og til allra sem þekktu afa.

Takk elsku afi fyrir allar stundir og hvíl í friði.

Ingvi Jón Gunnarsson.

Í dag fylgjum við elsku Ingvari afa síðustu skrefin þar sem hann verður lagður til hinstu hvílu við hlið elsku Guðrúnar Maríu ömmu sem dó í mars árið 2022.

Ég kom inn í fjölskyldu Ingva Jóns mannsins míns þegar ég kynntist honum árið 1993 aðeins 21 árs gömul. Ég hef því þekkt tengdaafa minn meiri hluta ævi minnar og syrgi hann eins og hann væri minn eigin afi. Ingvi Jón var elsta barnabarn Ingvars og er það mikil gæfa og ekki sjálfgefið að fá að eldast með foreldra, ömmur og afa á lífi langt fram yfir miðjan aldur. Samband Ingva Jóns og afa hans var fallegt og traust. Ingvi hringdi reglulega í afa sinn eða við heimsóttum þau hjónin þegar Guðrún amma var á lífi. Þá var hann vanur að bulla í afa sínum og þykjast vera að selja honum ýmislegt eins og bókina „Íslenskir ferskvatnsfiskar“ og get ég ekki annað en brosað yfir þeirri minningu. Ég man að ég var alltaf fyrst dálítið hneyksluð á því að hann leyfði sér að bulla svona í afa sínum en afi leyfði honum þetta enda áttu þeir alltaf kærleiksríkt samtal þar sem stutt var í húmorinn.

Ingvar afi var alveg einstakur. Svo fullur af hlýju og kærleika, með stórar hendur og hlýtt faðmlag. Hann var mikill fjölskyldumaður og ásamt elsku ömmu heitinni héldu þau fjölskyldunni samrýndri með ýmsum hætti. Föstudagskaffið sem var nánast vikulegt á tímabili, verslunarmannahelgin með holugrilluðu lambalæri í boði afa og ekki síst áramótagleðin þar sem börn og fullorðnir spiluðu púkk fram á nótt. Afi og amma áttu fallegt samband sem var fullt af virðingu og hlýju. Aldrei bar skugga á þeirra langa hjónaband en að sjálfsögðu voru þau ekki alltaf sammála enda ólíkar týpur. Amma var jarðbundin og heimakær en afi eins og fiðrildi úti um allt. Þannig fylltu þau upp í tómarúm hvort annars. Amma kom afa niður á jörðina meðan afi plataði ömmu stundum á flakk og jafnvel út í lönd.

Hann afi var alltaf jákvæður, opinn og hress og alltaf til í gott spjall. Það var líka hollt að rökræða við afa. Maður var ekkert alltaf sammála honum en hann fékk mann til að færa rök fyrir máli sínu og það mátti líka vera ósammála.

Þegar við nú kveðjum elsku afa og langafa barnanna okkar erum við að kveðja ákveðið tímabil stórfjölskyldunnar. Þótt við munum halda áfram að koma saman og minnast þeirra hjóna er stórt skarð þar sem nærveru þeirra nýtur ekki lengur við. Við erum hins vegar full þakklætis fyrir að hafa fengið að hafa ömmu og afa svona lengi í lífi okkar.

Þegar amma dó fyrir þremur árum höfðum við miklar áhyggjur af afa því að andlegu heilsunni hans hrakaði mikið í sorginni enda höfðu þau verið saman í 72 ár. Hann var hins vegar svo lánsamur að kynnast henni elsku Addí sem bjó á hæðinni fyrir neðan afa og erum við viss um að það hafi bætt heilsu hans bæði andlega og líkamlega.

Ég votta allri tengdafjölskyldu minni innilega samúð.

Hvíl í friði, elsku afi.

Melkorka Matthíasdóttir.

Hvíl í friði elsku Ingvar langafi.

Ég er svo heppin að hafa verið fyrsta barnabarnabarnið og eytt öllum 26 árunum mínum í kringum hann. Hann hefur alltaf verið hlýr og hjartagóður með húmorinn á réttum stað. Mér þykir svo vænt um minningar af heimsóknum, þar var spjallað, hlegið, borðað og knúsað. Ingvar afi hélt alltaf fast og lengi í hendur mínar og strauk mér, hann var alltaf með svo stórar og sterkar hendur og hringirnir sem hann var með á puttunum voru stærstu hringir sem ég hef séð, sem mér fannst alltaf svo áhugavert þegar ég var lítil. Ég hélt fast og lengi í hendurnar á honum í hvert skipti sem ég hitti hann því hann gerði það sama við mig og mér þótti svo vænt um það.

Takk fyrir að láta mig brosa og hlæja óteljandi sinnum afi, og takk fyrir að halda í hönd mína.

Þín,

Gunnhildur.

Farinn er til sumarlandsins mikil höfðingi sem ég hef fengið að kalla vin minn síðan ég var smágutti. Ingvar giftist móðursystur minni henni Guðrúnu á miðjum sjötta áratugnum, Guðrún var einstakur gullmoli, en hún féll frá fyrir tveimur árum.

Ætli ég hafi ekki verið sex eða sjö ára þegar Ingvar var á Gullfaxa NK á síld með pabba og Guðrún dvaldi heima hjá okkur með sitt fyrsta barn. Það fór ekki hjá því að fyrirferðarmikill gutti rækist á horn í þeim þrengslum sem voru í litlu húsnæði þegar fjölgaði svona yfir sumartímann og á ég margar minningar frá þessum árum.

Það var nokkuð algengt á þessum árum að krakkar fengju að fara á sjóinn með pöbbum sínum og ég var ekki undantekning á því. Ég held að það hafi verið ákveðin trygging hjá pabba að þegar hann var á frívakt hafði hann Ingvar til að hafa auga með guttanum, sem mér hefur skilist hin seinni ár að hafi ekki veitt af. En við þessar aðstæður held ég að hafi myndast tenging og vinátta við minn kæra vin sem aldrei bar skugga á, þó svo að á tímabili væri aldursmunurinn mikill og að við höfum búið alla tíð hvor á sínum enda landsins.

Eitt vorum við Ingvar sammála um, að vera alltaf ósammála þegar við ræddum pólitík, þetta var óskráð regla sem aldrei var brotin. Oft var Gunna frænka búin að sussa á okkur og spyrja hvort þetta væri ekki orðið gott.

Það var einstaklega gott að heimsækja Ingvar og Gunnu og notaði ég hvert tækifæri sem gafst til þess. Þvílík hlýja, gestrisni og höfðinglegar móttökur og var hún frænka mín ekki lengi að töfra fram veisluborð. Þegar búið var að fylla magann og segja fréttir af fjölskyldunni tóku við pólitískar samræður og urðu stundum æði fjörugar.

Ingvar var mikill fjölskyldumaður, hreinskiptinn, hjartahlýr, skemmtilegur og umfram allt heiðarlegur.

Það verður skrítið að koma til Keflavíkur og þau heiðurshjón bæði horfin á vit feðra sinna.

Elsku frændfólk mitt, makar og börn, við Gunna sendum ykkur hugheilar samúðarkveðjur og við vitum að fjölmargar fallegar og skemmtilegar minningar um pabba ykkar og afa munu ylja ykkur um ókomna tíð.

Guð blessi ykkur öll.

Eiríkur Ólafsson.