Orri Harðarson fæddist 12. desember 1972. Hann lést 7. júní 2025.
Útför Orra fór fram 30. júní 2025.
„Þú ert hávandaður einstaklingur, alveg hávandaður.“ Þetta heyrði ég í ófá skiptin frá Orra Harðarsyni, vini sem var mér svo kær. Orri kunni að hrósa og hann stappaði í fólk stálinu við alls kyns erfiðar aðstæður. Ófá voru skiptin þar sem ég talaði við hann í einhvers konar „krísu“ og alltaf tókst honum að láta mér líða betur í lok samtalsins og sjá lausnir. Við hjálpuðum enda hvor öðrum reglulega í gegnum árin. Þegar blóðsykur minn mældist of hár – nokkuð sem Orri sjálfur hafði glímt við í nokkurn tíma – sagði hann: „Þetta er ekkert mál, Hlynur minn. Það þarf bara að pæla aðeins í þessu.“ Og svo komu pælingarnar á færibandi. Hann var algjörlega búinn að stúdera málið.
Leiðir okkar Orra lágu fyrst saman vorið 2002. Ég var þá kaffibarþjónn á Café Karólínu í Listagilinu á Akureyri og hann kúnni. Orri sá fljótt að þegar ég var á vaktinni þá var spiluð tónlist við hans smekk og við náðum strax vel saman – þótt hann væri átta árum eldri og búinn að skapa sér feril í tónlistarsenunni á Íslandi. Bræðralag myndaðist sem hélst þar til yfir lauk. Engan skugga bar á vináttu okkar og einu deiluefnin voru í raun Elvis Presley og Evrópusambandið – eins ólík viðfangsefni og þau nú eru.
Orri varð minn þriðji eldri bróðir. Og það var svo sérstakt með okkar vináttu að langoftast vorum við bara tveir: hann kynntist aðeins lítillega mínum gömlu góðu vinum og ég engum af hans. Það var engin ástæða fyrir því nema að okkur fannst bara svo gott að vera einir saman. Hann kynnti mér Þórberg og Dylan og margs konar pælingar um tilveruna sem munu fylgja mér til dauðadags og sumar þeirra hafa þegar orðið mér að leiðarljósi. Síðasta samverustund okkar vinanna var yndisleg. Þá snerist samtalið að mestu leyti um það hvaða sólóplötur Bítla væru bestar og auðvitað vorum við sammála um það.
Veikindi Orra voru honum og öllum þeim sem stóðu honum nærri mikið áfall. En hann nálgaðist veikindin af þvílíkri auðmýkt að ég á erfitt með að koma orðum að því. Með bros á vör tók hann á móti heimsóknum fjölda vina, vopnaður kaffi, sódavatni og skinkuhornum. Auk þess sem hann reyndi eftir fremsta megni að svara skilaboðum og símtölum. Alltaf gengu dæturnar samt fyrir öllu öðru, enda var hann mikill og góður pabbi sem naut sín í hlutverkinu.
Orri hafði kaldhæðna kímnigáfu og skiptumst við oft á sögum um einhvers konar óheppilegar aðstæður sem við höfðum lent í og hlógum dátt. Hann hafði einstakt lag á því að lýsa aðstæðum með snjöllum samlíkingum eða snaggaralegum kvótum úr poppsögunni.
Orri gisti oftar en ekki hjá mér þegar hann bjó utan Akureyrar, en átti þangað erindi. Endalausar minningar um kvöld- og nætursamveru í Norðurgötunni, Munkanum og Kotinu fljúga nú í gegnum huga mér og ég brosi í gegnum tárin. Þótt sorgin sé blýþung þá er hjarta mitt fullt af þakklæti fyrir að hafa kynnst þeim góða dreng sem Orri Harðarson var.
Hlynur F. Þormóðsson.
Að eiga góðan vin eins og Orra okkar, sem við munum minnast og elska endalaust, er ómetanlegt. Hæfileikaríki vinur okkar, sem masteraði svo margt en kannski fyrst og fremst það að vera Orri. Einstakur, bráðskemmtilegur, næmur og hlýr.
Hann sýndi okkur kærleika og áhuga alla tíð. Honum var umhugað um okkur; einstaklega uppbyggilegur og umhyggjusamur í samtölum og með húmorinn að leiðarljósi í rökræðum. Lífskúnstnerinn sem hann var.
Orri snerti hjörtu fólks á öllum aldri og gat rætt um öll heimsins mál af innsæi.
Sum okkar kynntust Orra í æsku, önnur á gelgjunni og eigum við margar dýrmætar stundir frá því þegar við vorum ung, töff og flippuð. Við hlustuðum á tónlist, drukkum kaffi, sumir aðeins kók og marga lítra á dag, og síðar eitthvað sterkara.
Við héngum saman alla daga og ræddum tónlist, pólitík og tilfinningar. Samræður og samverustundir sem höfðu mótandi áhrif á líf okkar sem við erum stolt af og tengslin hafa haldist náin alla tíð.
Orri var tónlistarmaður, orðlistamaður, hljóðlistamaður. Við fylgdumst með á kantinum, við fengum að forhlusta, forlesa og koma með athugasemdir og hann mat það mikils.
Hann gaf út sína fyrstu plötu tvítugur og að sjálfsögðu mættum við öll á tónleikana og vorum yfir okkur stolt og hrifin. Eftir giggið hældum við honum í hástert, en perfeksjónistinn í honum var heldur ósáttur við feilnótu sem enginn annar tók eftir. Þessi vandvirkni og natni einkenndi öll hans verk.
Orri gaf út fimm plötur með fallegustu laglínunum og textunum, sem við munum alltaf njóta og varðveita. Þá kom hann að gerð fjölda annarra platna ýmist sem pródúsent, upptökustjóri, hljóðfæraleikari o.s.frv.
Orri var skapandi, sérstaklega orðheppinn og góður penni og kom okkur stöðugt á óvart. Hann fór að skrifa ritdóma, þýddi bækur og skrifaði svo tvær skáldsögur.
Dýrmætasta sköpunarverk Orra er dætur hans tvær, Karólína og Birgitta Ósk. Þær voru honum alltaf efst í huga og allt annað vék.
Við erum öll óendanlega þakklát fyrir að hafa farið í gegnum lífið með Orra og sendum ást til ykkar allra sem þekktuð hann.
Listin að lifa
Lífið er leikur
þess virði að lifa því
brostu út í bæði
og þín veröld verður ný
Horfðu til himins
og hann dregur tjöld sín frá
listin að lifa
er að dvelja ekki í eftirsjá
Þótt hart sé í ári
og veröld virðist svört
taktu einn dag í einu
og hún verður aftur björt
Þótt tíminn sé naumur
og tækifærin fá
þá er listin að lifa
þessu lífi ekki í eftirsjá
Byggðu brú – yfir fljótið svarta
hafðu trú – á töfra þessa heims
Þú ert þú – og ekkert fær breytt því
þetta er þitt líf og það er nú
Lífið er málverk
sjaldnast svart og hvítt
litirnir margir
þú sérð alltaf eitthvað nýtt
Þótt vonin sé farin
hjarta þínu frá
þá er listin að lifa
þessu lífi ekki í eftirsjá
(Orri Harðarson)
Sólbjörg (Solla),
Sigríður (Sigga), Sunna, Heiðrún og Lúðvík (Lúlli).