Heimir Hjálmarsson fæddist á Fáskrúðsfirði 8. mars 1946. Hann lést í faðmi fjölskyldunnar eftir stutt veikindi á Landspítalanum 22. júní 2025.
Heimir var yngstur átta barna Svanhvítar Guðmundsdóttur, f. 29. október 1909, d. 5. ágúst 1998, og þriggja sona Hjálmars Guðjónssonar, f. 27. október 1906, d. 11. ágúst 1989, seinni manns Svanhvítar. Eldri bræður Heimis eru Sigurjón og Guðmundur Þorlákur. Hálfsystkin þau Guðrún Jónsdóttir, Óskar Ásmundur Jónsson, Kári Jónsson, Guðný Jónsdóttir og Guðjón Bernharð Jónsson.
Eftirlifandi eiginkona Heimis er Áslaug Bjarney Jónsdóttir, f. 10. desember 1948, börn þeirra eru: 1) Hjálmar, f. 21. febrúar 1968, maki Kristín Hanna Hauksdóttir, eiga þau þrjú börn og þrjú barnabörn: a) Bryndís, maki Ástráður Ási Magnússon, börn þeirra eru Salka Rós og Malín Sara. b) Áslaug Stefanía, maki Emil Logi Birkisson, barn þeirra er Brynjar Logi. c) Fannar Haukur. 2) Guðrún Jónína, f. 11. júní 1969, maki Bergur Einarsson, eiga þau tvö börn: a) Heimir Jón, maki Elva Rán Grétarsdóttir, börn þeirra eru Sóldís Ósk og Grétar Þór. Fyrir á Heimir Bergrós Björt. b) Bjarney Birta, maki Kristján Birgir Gylfason, barn þeirra er Huginn Hrafn. 3) Heimir Ásþór, f. 18. maí 1980, sambýlismaður Sævar Örn Magnússon. 4) Eydís Ósk, f. 28. febrúar 1984, maki Steinar Grétarsson, eiga þau tvö börn: a) Aníta Rós. b) Bergdís Líf, fyrir á Steinar Auðun Þór.
Fyrir á Heimir Albert Svan, f. 30. desember 1965, maki Guðrún Guðmunda Hauksdóttir, eiga þau tvö börn: a) Hulda María, maki Andri Kristmundsson. Fyrir á Hulda María Sólrúnu Mattheu. b) Aron Dagur.
Heimir ólst upp í Þórshamri á Fáskrúðsfirði og gekk þar í barnaskóla. Hann bjó á Fáskrúðsfirði alla sína ævi og vann ýmis störf. Var lengi við störf í bátasmiðjunni á Fáskrúðsfirði, var sjómaður á ýmsum bátum, vann við virkjunargerð í Vatnsfellsvirkjun. Seinustu árin vann hann í bræðslunni hjá Loðnuvinnslunni.
Heimir verður jarðsunginn frá Fáskrúðsfjarðarkirkju í dag, 2. júlí 2025, klukkan 13.
Elsku hjartans pabbi minn.
Það er erfitt að koma tilfinningum sem eru sterkari en sólin í orð. Frá því ég man eftir mér hefur þú alltaf verið til staðar fyrir mig, stutt mig og hvatt í hverju sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Það var ómetanlegt að eiga þig að, varst alltaf svo rólegur að ég minnist þess ekki að hafa nokkru sinni séð þig reiðan.
Þegar ég var lítil þá var það besta sem ég gat hugsað mér að vakna við hljóðið í söginni þinni og lyktina af nýsöguðum við. Það var alltaf spennandi að koma og sjá hvað þú varst að búa til. Oftar en ekki var það eitthvað sniðugt fyrir okkur í herbergin okkar, rúm eða
hillur. Ég held að það sé ekki til sá hlutur sem þú gast ekki smíðað.
Þú leyfðir mér að brasa margt í bílskúrnum, saga út ýmsar fígúrur og pússa. Þú mættir mér alltaf með ómældri þolinmæði og hlýju.
Þegar ég vildi mála herbergið mitt blátt og grænt með stigamynstri yfir stóran vegg, þá var það gert þrátt fyrir að þér fyndist það ekkert endilega frábær hugmynd. Svo smíðaðir þú handa mér stórt rúm með fallegum gafli, sem ég vildi að hefði verið geymdur þótt rúmið hafi verið orðið lélegt.
Þegar ég var að vinna á Café Nielsen eftir að ég kom heim frá Dóminíska fékkst þú þá snilldarhugdettu að kaupa handa mér bíl. Hann var árgerð 1988 (fjórum árum eldri en ég), grár Daihatzu Cuore. Hann var rosalega ljótur en mér þótti afskaplega vænt um hann því þú gafst mér hann alveg óumbeðinn. Þú borgaðir líka einu sektina sem ég hef fengið á ævinni og ég man þegar þú hvíslaðir í símann: „Við skulum ekkert vera að trufla mömmu þína með þessu …“ Á honum rúntaði ég svo þangað til hann gafst upp á leiðinni yfir fjöllin frá Akureyri til Fáskrúðsfjarðar eftir næstsíðasta skólaárið í MA.
Stelpurnar mínar nutu góðs af öllu því skemmtilega sem þú gast búið til og þegar þú lékst við þær. Þær voru margar stundirnar sem fóru í að leika í kofanum sem þú
settir saman handa þeim og enn fleiri í drullumall í heimatilbúna útieldhúsinu sem þú smíðaðir. Þær höfðu líka einstaklega gaman af því þegar við vorum öll saman í útilegu, það var ekkert skemmtilegra en að fá að þykjast keyra húsbílinn og fá nokkra sykurmola úr sykurkarinu ykkar mömmu.
Það eru svo margar minningar sem hlýja mér í hjartanu, allar skemmtilegu sögurnar og dásamlegi pabbahúmorinn sem kom mér alltaf til að hlæja. Ég mun halda fast í minningar um frábærar samverustundir þar sem ekki þurfti annað en bara spjall okkar á milli og mögulega einn bolla af vondu neskaffi sem þér fannst alltaf svo gott. Takk fyrir að vera besti pabbinn og yndislegur afi fyrir litlu konurnar mínar. Takk fyrir allt pabbi minn, ég elska þig. Þangað til næst.
Þín yngsta,
Eydís Ósk.
„Nei hæ, elskan mín!“ Svona byrjuðu öll samtölin við elsku afa.
Afi var mikill braskarl og alltaf tilbúinn í alls konar verkefni: smíða rólu og sandkassa fyrir barnabörnin og minni verkefni eins og að hjálpa mér að smíða lítinn bát og fara með mér og sjá hvort hann myndi fljóta. Hann stoppaði ekki þar; það þurfti auðvitað að mála hann og ekki með venjulegri málningu heldur skipalakki því jú, hann var auðvitað að fara að sigla!
Ég var svo heppin að fá að búa fyrir ofan afa og fékk því mjög oft far í skólann á eðalkerrunni; rauðri Lada sport – gerist ekki glæsilegri!
Veit ekki hvort það var af því að hann var orðinn þreyttur á skutlinu eða vildi að ég hreyfði mig sem hann gaf mér þetta glæsilega gráa demparahjól! Vá hvað ég var ánægð með það og hjólaði kannski tvisvar í skólann áður en ég bað um far aftur, af því jú Ladan var miklu flottari!
Elsku afi minn, góða ferð í sumarlandið, þín er sárt saknað.
Bryndís Hjálmarsdóttir.