Sigríður Einarsdóttir fæddist í Reykjavík 27. janúar 1957. Hún lést á gjörgæsludeild Landspítalans við Hringbraut 24. júní 2025.
Foreldrar hennar voru Einar Eiðsson frá Svalbarðseyri, f. 1927, d. 1986, og Laufey Guðný Kristinsdóttir frá Skarði í Landsveit, f. 1930, d. 2000.
Sigríður átti tvær systur, þær eru Birna, f. 1961, og Ellen María, f. 1966. Dóttir Birnu er Ellen Melkorka Hine, f. 1999. Dóttir Ellenar Maríu er Hildur Guðjónsdóttir, f. 1985, maki Hildar er Helgi Jóhann Björgvinsson og synir þeirra Sölvi Nóel og Ísak Einar.
Sigga ólst upp í Hlíðahverfinu í Reykjavík og bjó síðustu árin í íbúð sinni í Sóltúni 3.
Hún hóf ung störf í Landsbankanum eða árið 1974, strax að loknu gagnfræðaprófi, og starfaði þar alla sína starfsævi eða í hartnær 50 ár. Sigga starfaði í ýmsum deildum bankans, mest í framlínu hans í þjónustu við viðskiptavini. Hún var vel liðin af viðskiptavinum og starfsfólki og eignaðist þar sína bestu vini. Meðfram vinnu lauk hún stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti árið 1986. Litla fjölskyldan var Sigríði afar mikilvæg og þau vörðu miklum tíma saman.
Útför Sigríðar fer fram frá Langholtskirkju í dag, 3. júlí 2025, klukkan 15.
Sigga var stóra systir mín. Besta stóra systir sem hægt var að hugsa sér.
Í æsku elti ég hana út um allt. Þegar hún fékk hjól hljóp ég á eftir henni hvert sem hún fór – ég vildi vera eins og Sigga.
Hún hóf ung störf í Landsbankanum í Austurstræti og þar hékk ég yfir henni og beið þess að hún kláraði daginn bara til að verða henni samferða heim í strætisvagni.
Hún var bankakona alla sína starfsævi og sinnti starfi sínu af alúð og eignaðist í bankanum sína nánustu vini.
Við erum ekki stór kjarnafjölskyldan en náin. Við systur vorum í daglegum samskiptum og vikulega borðuðum við fjölskyldan öll saman. Fjölskyldan var henni mikilvæg og hún gerði alltaf allt sem í hennar valdi stóð fyrir sitt fólk. Systurdætrum sínum, þeim Hildi og Ellen, var hún sem móðir og Sölva og Ísak var hún besta ömmusystir.
Sigga hafði einstakan húmor, var kaldhæðin og fljót til svars. Það fór ekki mikið fyrir henni en hún var áhugasöm um menn og málefni og naut þess að hitta fólk, taka þátt, hlusta og hlæja. Hún var fagurkeri og hafði auga fyrir því sem vel var gert.
Ég sakna skilaboðanna „hvað er verið að bardúsa?“ og þegar ég spurði hvað væri að frétta af henni, þá var svarið oft „lítið og smátt“. Já, maður saknar mest hversdagslegu hlutanna.
Það er ótrúlega erfitt að missa systur sína en við þrjár áttum eftir að gera svo margt. Óvænt fráfall Siggu kennir manni að fresta ekki heldur njóta augnabliksins. Sigga mín, óskaplega finnst mér vænt um þig – ég vildi að ég hefði sagt þér það oftar.
Birna Einarsdóttir.
Raunveruleikinn er óraunverulegur þegar við stöndum frammi fyrir því stóra verkefni að leggja Siggu okkar til hinstu hvílu. Síðustu fjórar vikur hafa verið okkur fjölskyldunni erfiðar, þar sem sorgin er yfirgnæfandi en vonin var sorginni framar. Það var þá snemma morguns þann 24. júní sl. sem sorgin tók yfirhöndina þegar við kvöddum þig og þökkuðum þér fyrir allt og allt. Þú barðist eins og hetja í 23 daga, inniliggjandi á gjörgæslu Landspítalans, þvílík þrautaganga sem þínir síðustu dagar með okkur voru.
Það var mín gæfa að þú hafðir áhuga á að taka þátt í mínu lífi frá fyrsta degi og allar götur fram. Þú stóðst þétt við bakið á mér í einu og öllu, leiðbeindir mér þegar þurfti og varst ávallt tilbúin að rétta hjálparhönd. Samband okkar var sterkt, einstakt og þegar á reyndi vorum við alltaf til staðar hvor fyrir aðra. Síðar var það gæfa sona minna, Sölva og Ísaks, að þú stæðir þétt við bakið á mér, tókst þeim sem þínum og varst ávallt til staðar fyrir þá.
Þegar litið er yfir farinn veg höfum við skapað fjölda góðra minninga saman, ferðalög bæði innan- og utanlands, allir stóru og smáu sigrarnir og lífsins vörður sem við höfum fagnað saman í gegnum árin, en það er þó hversdagsleikinn sem ég kem til með að sakna hvað mest. Samgangur var mikill og stundirnar við matarborðið sem voru í það minnsta vikulegar eru mér og mínum dýrmætar, símtölin sem við áttum og stundirnar sem þú eyddir með Sölva og Ísak eftir skóla. Þú gafst þér tíma fyrir okkur og varst örlát á þitt, fyrir það vil ég þakka og mun reyna að tileinka mér þá eiginleika um ókomna tíð.
Það skín svo skært að fjölskyldan var þér allt og það er mér ljóst að þú varst hryggjarstykkið í okkar einingu. Ég mun leggja mig fram við að halda uppi minningu þinni og rifja reglulega upp þær stundir sem við fjölskyldan áttum með þér og þína frábæru persónueiginleika, þá helst hversu hnyttin, kaldhæðin, skemmtileg og kærleiksrík þú varst.
Líkt og áður sagði: raunveruleikinn er óraunverulegur þegar ég kveð þig í hinsta sinn og sorgin yfirþyrmandi.
Elsku besta Sigga mín, ég kveð þig með brotið hjarta, með þökk fyrir allt sem þú gafst.
Hildur Guðjónsdóttir.
Sigga frænka mín dó á drungalegum þriðjudegi eftir erfið veikindi. Mér var verulega brugðið að heyra að hún væri dáin. Ég hafði svo mikla trú á að læknavísindin ættu eftir að töfra fram lausn á meini hennar. Eftir því sem árin færast yfir mann sjálfan finnst manni 68 ár ekkert hár aldur.
Siggu frænku hef ég þekkt svo lengi sem ég man eftir mér og margs er að minnast nú þegar litið er um öxl. Náinn vinskapur mæðra okkar Svönu og Öllu, sem voru frænkur ættaðar frá Skarði í Landsveit, var ástæðan fyrir því að Sigga og systur hennar, Birna og Ellen María, hafa alltaf verið hluti af minni tilveru.
Margt var brallað. Sigga var þremur árum eldri en ég en við náðum alltaf vel saman. Á unglingsárunum var sveitin í Skarði miðpunkturinn þar sem við vildum vera sem mest og oftast. Það var allt sem heillaði við að vera í Skarði, fallega sveitin, okkar einstöku ættingjar, búskapurinn, sem var gaman að taka þátt í, og svo allir sætu strákarnir og sveitaböllin.
Við Sigga fórum líka saman á böll í Reykjavík þegar ég var komin í menntaskóla og hún orðin fastur starfsmaður Landsbankans, en þar vann hún alla sína starfsævi. Það var oft sem það kom sér vel að geta fengið lánað hjá Siggu gamalt nafnskírteini til þess að komast inn á réttu skemmtistaðina áður en ég hafði aldur til. Þetta var að vísu ekki alveg hættulaust, því til þess að verða tekin trúanlega varð ég líka að vera sem líkust Siggu með gömlu gleraugun hennar frá því að myndin var tekin. Ég sá nánast ekkert með þeim og var oftar en ekki næstum því búin að ganga á hurð eða vegg á leiðinni inn á öldurhús með gleraugun og skírteinið.
Við Sigga áttum eftir að vera saman erlendis, ferð til Noregs að heimsækja Guðrúnu frænku sem þá vann á norsku hóteli kemur upp í hugann. Til eru myndir af okkur Siggu í norskum þjóðbúningum, sem komu til vegna þess að yfirmanni Guðrúnar fannst við full langsetnar í heimsókninni hjá henni og þegar hörgull var á starfsfólki á hótelinu fannst honum liggja beinast við að láta gestina, frænkurnar frá Íslandi, vinna fyrir uppihaldinu með því að þjóna í borðsalnum.
Við Sigga áttum eftir að eiga ólíkt lífshlaup. Ég gat varla beðið með að flytjast af landi brott eftir menntaskóla en Sigga var heimakær og jarðbundin og vægast sagt lítið fyrir óvissuferðir eða óvæntar uppákomur. Þó svo að ég ætti eftir að búa í útlöndum í áratugi hélst alltaf samband við Siggu og þær systur þó að oft liði langt á milli þess að við sæjumst eða heyrðust.
Sigga var einhleyp allt sitt líf, hún sagðist vilja hafa þetta svona, hún væri líka ekkert fyrir börn. Það var þess vegna gaman að fylgjast með því hvernig umhyggja hennar og áhugi á systrabörnunum og barnabörnunum jókst þegar þau voru vaxin upp úr mesta smábarnaskapnum.
Systurnar þrjár voru mjög nánar, þrátt fyrir að vera ólíkar, það verða mikil viðbrigði fyrir þessa litlu fjölskyldu að sjá á eftir henni Siggu. Ég sendi mínum kæru frænkum Birnu og Ellen Maríu, dætrum þeirra og fjölskyldum innilegustu samúðarkveðjur.
Kristín Jóhannsdóttir.