Aðalheiður Sara Gunnarsdóttir fæddist á Ísafirði 25. ágúst 1927. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri 24. júní 2025.

Hún var dóttir hjónanna Ingibjargar Söru Sigurðardóttur, f. 1904, d. 1931, og Gunnars Hjartar Ásgeirssonar beykis, f. 1889, d. 1957. Var í fóstri hjá Guðmundi og Jónu í Hnífsdal um tíma þar til faðir hennar giftist aftur Maríu Rebekku Sigurðardóttur, systur Ingibjargar, f. 1910, d. 1994. Hálfsystkini Aðalheiðar eru Ingibjörg María, f. 1934, d. 2022, Jóna Kristín, f. 1943, d. 2021, og Ásgeir, f. 1947.

Eiginmaður Aðalheiðar var Stefán Erlendur Þórarinsson húsasmiður, f. 1926, d. 2021. Foreldrar hans voru Sigríður Oddný Ingvarsdóttir ljósmyndari á Húsavík, f. 1889, d. 1972, og Þórarinn Stefánsson bóksali og hreppstjóri á Húsavík, f. 1878, d. 1965. Börn þeirra eru: 1) Margrét leikskólakennari, f. 1952, maki Þorgeir Guðmundsson rafvirki, börn þeirra Hilda Björg, Aðalheiður Sara og Gróa Ólöf húsgagnaarkitekt. 2) Þórarinn húsasmiður, f. 1953, börn hans Borgar og sammæðra Stefán Heiðar og Ásdís Guðný. 3) Ingibjörg María tryggingasali og ræðismaður Íslands í Colorado, f. 1955, maki Jeffrey Brimer, dóttir hennar Sóley Anna, fædd Berrymann. 4) Sigríður Oddný kennari, f. 1957, maki Ragnar Sigurjónsson, dóttir þeirra Ásthildur. 5) Halla jógakennari, f. 1959, börn hennar Stefán, Friðfinnur, Margeir (d. 2019) og Antonía. 6) Guðmundur Jón húsgagnasmiður, f. 1963, maki Hulda S. Jeppesen, sonur hans frá fyrra hjónabandi Daði Már.

Langa- og langalangömmubörnin fylla svo rúma þrjá tugi.

Aðalheiður og Stefán eignuðust einnig litla stúlku, Sigríði Ingvarsdóttur, f. 1961, sem fékk aðra foreldra, Ingvar mág Aðalheiðar og Björgu Friðriksdóttur konu hans. Maki hennar er Guðmundur A. Jónsson og börn þeirra Björg, Ingvar Kristinn og Guðni Páll.

Aðalheiður ólst upp á Bæjum við Ísafjarðardjúp hjá móðurfólki sínu. Hún fór ung til Reykjavíkur og vann þar við ýmis störf. Fór svo tvö ár til Danmerkur og starfaði í lyfjaverksmiðju. Reynslan þaðan kom að góðum notum síðar á ævinni, en hún fylgdist ávallt vel með, var listakokkur og flink í höndunum. Þegar Heiða kom aftur heim leitaði æskuvinkona hennar Kaja (Karitas Hermannsdóttir) eftir aðstoð hennar í veikindum sínum. Hún fór því til Húsavíkur og hitti þar Stefán, væntanlegan eiginmann sinn. Fjölskyldan stækkaði ört og nóg var að gera á stóru heimili. Aðalheiður var útsjónarsöm að sjá fjölskyldunni farborða, saumaði föt á börnin og bjó sjálf til snið eftir nýjustu tísku. Það var gestkvæmt á heimilinu og mikil fjölbreytni í matargerð, en Heiða gat gert dýrindis máltíð úr litlu. Þegar börnin fóru að stálpast tóku við ýmis árstíðabundin störf, í sláturhúsinu á haustin og í Bókaverslun Þórarins Stefánssonar. Þá starfaði hún í 20 ár á Sjúkrahúsinu á Húsavík við góðan orðstír. Heiða hélt minni sínu nánast fram á síðasta dag, hafði áhuga á íþróttum, var listfeng og hafði ástríðu fyrir handavinnu og eftir hana liggja margir listagripir.

Síðustu fimm árin dvaldi hún á Hjúkrunarheimilinu Hlíð við úrvals aðhlynningu.

Jarðsungið var frá Akureyrarkirkju 1. júlí 2025.

Ég hitti Heiðu, eins og Aðalheiður tengdamóðir mín var kölluð, fyrst fallegt sumarkvöld árið 1997, þá nýlega kominn í samband við Guðmund Jón, eða Mugga, son þeirra. Móttökurnar hjá þeim Stefáni tengdapabba í Höfðabrekkunni voru strax hlýjar og góðar, en þar höfðu þau í samstarfi við vini byggt sér einbýlishús með stórum garði og dásamlegu útsýni yfir Húsavíkurbæinn. Heimilið þeirra var einstaklega snyrtilegt og ávallt var vel tekið á móti mér í fjölskyldunni síðan. Ég var heppin að hitta Mugga minn, sem fékk mikla samskiptaþjálfun í hópi sex systkina og fjölda ættingja og vina sem ólust upp í götunni. Nú þegar Heiða er fallin frá eftir hetjulega baráttu, hún ætlaði að verða 100 ára, spyr ég mig hvað einkenndi hana helst. Það fyrsta sem kemur upp í hugann er þrautseigja, gott minni, hreinskilni og snyrtimennska, en þó að svarið yrði að hætti samtímakvenna „þú ræður“, spurð hvers hún óskaði sér, sé ég ekki betur en að hún hafi náð að skila því sem hún ásetti sér með sóma. Það er mér alltént hulin ráðgáta hvernig þeim Stefáni tókst að koma öllum þessum vel heppnuðu afkomendum í heiminn og börnunum sínum til manns. Einnig hvernig henni í takt við samtíma húsmæður tókst að útbúa 4-5 máltíðir á dag, halda heimilinu hreinu, þvo þvotta, sauma föt á börnin og útbúa mat frá grunni samhliða því að ala önn fyrir börnunum. Heiða var vel að sér með menn og málefni og gat sagt skemmtilega frá. Hún fylgdist vel með og hafði gaman af því að ferðast. Oft ræddi hún um dásemdarferðir sem þau Stefán fóru með kærum vinum tengdum Tónakvartettinum frá Húsavík. Heiða gat stuðað fólk með hreinskilni sinni, ég held það hljóti að vera dönsk áhrif þess sem virðir heiðarleika og réttsýni, enda var hvergi var öruggara að gleyma hlutum en hjá henni því minnstu hárteygjur komust til skila. Heiða hafði gaman af íþróttum, æfði handbolta sem ung kona, sá leikur var vinsæll hjá jafnöldrunum.

Sé hugsað til Heiðu kemur þó ekki síst upp í hugann listfengi hennar og nákvæmni. Hún var með ástríðu fyrir handavinnu og margt fallegt er til eftir hana hjá ættingjum hennar og vinum. Hún gerði líka mjög góðan mat svo athygli vakti hjá gestum og vinum barna hennar. Ekki skorti útsjónarsemi hvað varðar verkfæri til að létta störfin á heimilinu, þann sið hefur Muggi aldeilis tekið sér til fyrirmyndar. Börnin þeirra Stefáns og afkomendur hafa ekki farið varhluta af hæfileikum þeirra Stebba, en fjöldi þeirra er nú nálægt hálfu hundraði. Ég sendi öllum velunnurum hennar innilegar samúðarkveðjur og þakklæti til starfsfólks á Hjúkrunarheimilinu Hlíð sem annaðist hana svo vel.

Hulda Sigríður Jeppesen.