Jóhann Ólafur Sverrisson fæddist á Straumi, Skógarströnd, 24. nóvember 1940. Hann lést á Landspítalanum 10. júní 2025.

Foreldrar hans voru hjónin Ólöf Guðrún Guðbjörnsdóttir húsmóðir frá Ballará á Skarðsströnd, Dalasýslu, f. 1915, d. 2003, og Sverrir Guðmundsson, bóndi á Straumi, Skógarströnd, frá Svínaskógi, Staðarfellssókn, Dalasýslu, f. 1910, d. 1986. Systkini Ólafs eru Jón Ingiberg, f. 1934, d. 2000, Guðmundur Viggó, f. 1938, d. 2019, Gunnar Guðbjörn, f. 1943, d. 2002, Soffía Hulda, f. 1945, d. 2024, Þórdís Ingibjörg, f. 1946, d. 2011, og Bjarnfríður, f. 1952.

Ólafur kvæntist 21. október 1967 Ósk Elínu Jóhannesdóttur, f. 1941, d. 2017. Foreldrar hennar voru hjónin Ragnhildur Sumarlína Magnúsdóttir húsmóðir frá Akranesi, f. 1902, d. 1967, og Jóhannes Birkiland Stefánsson rithöfundur frá Uppsölum í Blönduhlíð, Skagafirði, f. 1886, d. 1961.

Dóttir Óskar er 1) Sigurlaug Ragnhildur Sævarsdóttir, f. 7.10. 1962, sem Ólafur gekk í föðurstað. Faðir hennar var Sævar Sigurjónsson frá Hellissandi, f. 1939, sem fórst með Sæfelli SH-210 1964. Sigurlaug er búsett í Grundarfirði. Börn hennar eru Hildur Inga, f. 1989, gift Pavol Inga Kretovic, þau eiga tvö börn, Sævar Örn, f. 1992, kvæntur Larissu Weidler, og Gísli Már, f. 2001.

Börn Ólafs og Óskar eru: 2) Sævar Unnar, f. 23.8. 1967, búsettur í Danmörku, kvæntur Line Thoresen Raih. Börn Sævars eru Jóhannes Elías, f. 2000, kvæntur Söru Jörgensen, þau eiga tvö börn, Elisabeth Elínu, f. 2004, og Magnus Samuel, f. 2004. 3) Ólöf Bessa Berntzen, f. 18.12. 1968, búsett í Noregi, var gift Tore Johnny Berntzen, f. 1965, d. 2006. Unnusti hennar er Magnús Þ. Gíslason, f. 1969. Synir Ólafar eru Alexander Johnny, f. 1992, og Kristófer, f. 1995. Unnusta hans er Camilla Louise Heimly. 4) Sverrir Halldór, f. 2.5. 1970, búsettur í Reykjavík, kvæntur Sarinthip Prommee, f. 1976. Dætur Sverris eru María Ósk, f. 1991, gift Kára Brynjarssyni, þau eiga tvö börn, og Eva Prommee, f. 2009. 5) Jóhannes Ragnar, f. 16.9. 1971, búsettur í Reykjavík, kvæntur Jóhönnu Hjördísi Guðmundsd., f. 1971. Börn þeirra eru Dagný Björk, f. 1995, gift Helga Óskarssyni, þau eiga tvö börn, og Guðmundur Aron, f. 2004. 6) Margrét Rebekka, f. 9.5. 1977, búsett í Reykjavík. 7) Óskar Elías, f. 18.12. 1980, búsettur í Reykjavík, kvæntur Sigrúnu Jóhannsd., f. 1984. Börn þeirra eru Ólöf Bára, f. 2006, Sæunn Svava, f. 2011, og Jóhann Ólafur, f. 2019.

Ólafur vann gegnum tíðina ýmis störf, m.a. tengd landbúnaði og síðar við véla- og bifvélaviðgerðir. Hann starfaði m.a. hjá Loftleiðum og síðar hjá Heklu, Bifreiðaverkst. Jónasar og Hlaðbæ. Síðustu áratugi starfsævinnar starfaði hann hjá Reykjavíkurborg, sem sundlaugarvörður í Breiðholtslaug.

Hann var laghentur og sérlega greiðvikinn og aðstoðaði iðulega vini og vandamenn við ýmsar bifreiðaviðgerðir. Ferðalög um landið í húsbíl þeirra hjóna voru fastur punktur í tilverunni.

Útför Ólafs fer fram frá Fella- og Hólakirkju í dag, 4. júlí 2025, og hefst hún kl. 13.

Elsku Óli kom inn í líf mitt þegar ég var þriggja ára. Reyndar hitti hann mig fyrst þegar ég var nýfædd, á Hellissandi, þar sem hann þekkti foreldra mína – hann vann með föður mínum á þeim tíma. Þegar faðir minn fórst í sjóslysi, tveimur árum síðar, breyttist líf okkar mikið. Ári síðar fann mamma ástina á ný – í faðmi Óla. Það var henni dýrmætt að finna hamingjuna á ný eftir skipbrot lífsins.

Eftir að mamma og Óli hófu búskap stækkaði fjölskyldan ört. Ég eignaðist fjögur systkini á rúmum fjórum árum. Margar minningar lifa um ferðirnar í gulu VW-bjöllunni, og þá var gjarnan kók og prins með í för. Í litlu gulu bjöllunni sátu foreldrarnir í framsætum og við krakkarnir fimm í aftursætinu – ég í miðjunni til að halda friðinn eftir þörfum. Þegar sjötta barnið fæddist var burðarrúm sett þvert yfir aftursætið – við vorum þá orðin átta í bjöllunni. Geri aðrir betur. Tíðarandinn var vissulega annar en í dag. Þegar sjöunda barnið kom í heiminn var kominn stærri bíll á heimilið.

Óli og mamma elskuðu að ferðast um landið. Þau eignuðust húsbíl og nýttu hann vel á sumrin – alltaf til í að leggja af stað í ný ævintýri. Þau voru að ýmsu leyti ólík, bæði þrjósk, en sameinuðust í þessum áhuga sínum og á milli þeirra ríkti ávallt mikill kærleikur.

Óli var alla tíð einstaklega greiðvikinn maður. Hann var alltaf tilbúinn að hjálpa öðrum – hvort sem það snerist um bílaviðgerðir eða annað. Hann var sannkallaður snillingur með bíla og við systkinin nutum þess í ríkum mæli. Ég man vel eftir fyrstu bílunum sem ég átti – Óli kom iðulega að viðhaldi þeirra og oft að vali líka. Hann var ávallt boðinn og búinn að rétta hjálparhönd. Hann var mér mikilvægur í lífinu og ég er honum ævinlega þakklát fyrir allt sem hann gerði fyrir mig.

Andlát mömmu árið 2017 var elsku Óla þungbært. Eftir það fór heilsan að gefa sig, þótt hann hafi enn komist með okkur systkinunum í nokkrar góðar utanlandsferðir. Spítalaferðir urðu tíðari með árunum og að lokum kvaddi hann þetta líf í þeirri síðustu.

Nú er þrautum þessa heims lokið og ný ævintýri tekin við. Ég trúi því að fagnaðarfundir hafi átt sér stað á himnum þegar hjónin hittust á ný. Að leiðarlokum þessa lífs er mér efst í huga og hjarta djúpur kærleikur og þakklæti fyrir öll árin sem við áttum saman.

Sigurlaug

(Silla).

Minning um elsku besta pabba minn.

Ég er næstelstur af okkur sjö systkinum. Þegar ég fæddist bjuggum við á Suðurlandsbraut og fluttum við síðan í Smálönd þegar ég var fimm ára og ég man eftir að Siggi og Agnar hjálpuðu okkur að flytja á rúgbrauðunum sínum. Pabbi var mjög góður bifvélavirki, hafði verkstæði heima og kenndi okkur bræðrum hvernig við gætum gert við bílana okkar sjálfir. Ég gæti ekki hugsað mér betri kennara. Hann pabbi var snillingur að gera við Volkswagen-bjöllu og hann átti líka margar af þeirri gerð gegnum árin. Fyrsti bíllinn minn var gamla bjallan hans pabba, Jens afmælisútgáfa af árgerð 1974.

Mamma sagði mér frá því að þegar ég var sirka fjögurra ára hefðum við verið á Straumi hjá afa og ömmu og pabbi farið ásamt Guðmundi bróður sínum með hesta sem áttu að fara upp í Langadal, ég fékk ekki að fara með. Allt í einu var ég farinn af stað á eftir pabba og mamma fann mig úti í móa.

Við ferðuðumst mikið í sumarfríunum okkar þegar við vorum lítil, annaðhvort á Straum eða norður á Dúk í Sæmundarhlíð í Skagafirði. Mér er mjög minnisstætt þegar við fórum norður á einni af bjöllunum hans pabba. Við sátum fjögur aftur í og burðarrúm ofan á okkur og svo fór kúplingin í bílnum. Pabbi hafði meðferðis nýja kúplingu og það tók hann 30 mínútur að skipta um hana. Hann hafði búið til sérstakan trékubb sem passaði í gatið og hélt kúplingadisknum á réttum stað á meðan hann skrúfaði hann fastan. Á meðan við biðum eftir að hann væri búinn fengum við kók og prins póló.

Elsku pabbi, ég vil þakka þér fyrir allar heimsóknirnar til okkar til Danmerkur. Má þar nefna giftingu, skírnir og fermingar allra barnanna minna. Ég vil einnig þakka fyrir jólagjafir og afmælisgjafir til barnanna. Það var svo gott að koma og heimsækja þig og mömmu. Þú spurðir hvað við vildum fá að borða og ég svaraði „áttu fleiri sveitabjúgu frá Dísu frænku“ og þú áttir fleiri sem þú eldaðir fyrir okkur, nammi namm. Já, í svona stórum systkinahópi voru ekki til miklir peningar á þessum tíma og ég byrjaði að selja Vísi og Dagblaðið þegar ég var sirka 7–8 ára og átti alltaf aukablöð sem ég skipti við nokkra starfsmenn hjá Coca Cola og kom heim með fulla tösku af kók. Ég fékk ágætis vasapeninga fyrir það. Þegar ég var sirka 10 ára fór ég í sveit hjá Sigurði á Staðarbakka í Helgafellssveit en pabbi hafði verið vinnumaður hjá þeim þegar hann var ungur.

Elsku besti pabbi minn, afi og langafi. Nú ertu kominn í faðm elsku mömmu. Takk fyrir allt sem þú hefur kennt okkur gegnum tíðina, elska þig.

Þinn kæri sonur,

Sævar.

Elsku pabbi minn.

Eftir erfið veikindi fékkstu loksins að hvílast og fara til hennar mömmu, þar sem þið eruð hamingjusöm og hafið það mjög gott í sumarlandinu góða. Nú eru tvær skærar stjörnur á himninum.

Ég veit ekki alveg hvar á að byrja þegar ég hugsa til þín. Það er svo margt sem kemur upp í hugann. Allar ferðirnar í gulu bjöllunni og þá alltaf með kók í glerflösku, sem þú gerðir gat í tappann á með skrúfjárni, og prins póló.

Minnist líka tímans þegar við bjuggum í Smálöndunum þar sem mig dreymdi alltaf illa og kom inn til ykkar mömmu og lagðist á milli ykkar. Það var svo mikið öryggi fyrir mig að geta komið inn til ykkar.

Það er mér svo mikils virði að hugsa til þessara tveggja vikna sem ég átti með þér síðastliðinn desember þar sem við fórum í blómabúð til að kaupa blóm og kerti á leiðið hennar mömmu, borðuðum saman hádegismat og spjölluðum saman um gamla daga.

Kveð þig að sinni, elsku pabbi, með kærleik í hjarta og við sjáumst síðar.

Þín dóttir,

Ólöf Bessa (Lóa/Bessý).

Elsku faðir minn er fallinn frá eftir erfið veikindi. Eftir standa margar minningar um kæran föður og myndast því stórt tómarúm við fráfall hans.

Ég minnist góðra stunda gegnum tíðina og oft í „félagsmiðstöðinni“ í bílskúrnum. Þar var stússað við ýmsar bílaviðgerðir og áttum við fjölmargar góðar stundir þar.

Ég kveð elsku pabba með ást og söknuði. Pláss hans verður aldrei fyllt í hjarta mínu.

Þinn sonur,

Sverrir.

Elsku pabbi.

Það er erfitt að setja í orð allt það sem þú varst okkur. Minningarnar eru óteljandi, stórar sem smáar, en saman mynda þær mynd af manni sem var okkur allt: traustan, hlýjan, hógværan í orðum en sterkan í verkum. Þú varst alltaf til staðar.

Eitt af því sem stendur skýrt upp úr er tíminn sem ég átti með þér í skúrnum. Þangað leitaði ég oft, stundum til að gera við tjónaða bíla sem ég hafði keypt, stundum vegna venjulegs viðhalds, en líka bara til að hitta þig, spjalla og njóta samverunnar. Lyktin af olíu og verkfærum, hláturinn sem fylgdi þegar hlutirnir fóru öðruvísi en ætlað var, allt þetta verður ávallt tengt þér. Ég lærði gríðarlega mikið af þér um bílaviðgerðir og um lífið líka.

Þú varst einstaklega laghentur. Oft skildum við systkinin bíla eftir ókláraða í skúrnum hjá þér, ákveðin í að klára daginn eftir en þegar við komum aftur var bíllinn tilbúinn. Þú gast ekki hvílt þig fyrr en verkefnið var búið, ekki af stoltinu heldur af kærleika. Það var ekki í þínu eðli að láta hluti vera hálfkláraða. Þegar við festumst í einhverri viðgerð, þá fannst þú alltaf leið. Þú gafst aldrei upp.

En þú varst ekki bara maður verka, þú varst líka fjölskyldumaður af bestu gerð. Þótt þú værir tregur til að fara til sólarlanda gáfumst við ekki upp við að fá þig með. Eftir smá ýtni tókst okkur, mér og Jóhönnu, að fá þig til að fara með okkur öllum systkinunum til sólarlanda. Fyrsta ferðin til Tenerife er ógleymanleg. Þú varst við þokkalega heilsu, nokkuð hress og glaður, og við sáum þig njóta lífsins og samverunnar af heilum hug. Við vissum ekki þá hversu dýrmæt þessi ferð yrði en í dag stendur hún upp úr í minningunni.

Ferðirnar urðu fleiri og tóku á sig nýja merkingu. Þær urðu tákn um nýjan kafla í lífi okkar með þér þar sem þú, sem alla tíð hafðir hugsað um aðra, fékkst loksins tækifæri til að slaka á og njóta þess að vera umvafinn fjölskyldunni. Þú sagðir kannski ekki alltaf mikið, en við fundum kærleik í öllu sem þú gerðir, í nærverunni, í verkunum, í hlýjunni sem fylgdi þér.

Nú þegar þú ert farinn skilur þú eftir þig tómarúm en líka djúpa, hlýja og fallega sögu sem lifir áfram í hjörtum okkar. Við erum þér óendanlega þakklát fyrir allt sem þú varst, fyrir allt sem þú gafst, og fyrir allan þann kærleik sem þú sýndir, ekki með orðum heldur í verki.

Hvíldu í friði, elsku pabbi. Ég mun aldrei gleyma þér.

Kær kveðja, þinn uppáhaldssonur,

Jóhannes

(Jói).

Elsku pabbi.

Mér finnst mjög erfitt að vera að skrifa minningargrein um þig, en komið er að leiðarlokum hjá þér. Núna ert þú kominn til hennar elsku mömmu sem þú saknaðir mjög mikið eftir að hún fór í sumarlandið. Og ég vona að núna líði ykkur vel saman á ný. Ég veit að þið fylgist með og passið upp á alla ykkar afkomendur. Í veikindum þínum var ég í heimsókn hjá þér og þú varst sofandi en vaknaðir svo hissa að sjá mig. Ég spurði þig hvort þú vissir hver ég væri. Þú sagðir já, en svo kom löng þögn: Þú heitir Margrét Rebekka eða Magga og ert dóttir mín! Og þar sem ég hringdi á hverjum degi til að heyra í þér, þá vildi ég að það væri sími á himnum svo ég gæti hringt í þig og heyrt röddina þína aftur.

Ég hugsaði um þig í dag en það er ekkert nýtt, ég hugsa til þín í þögn og ég segi oft nafnið þitt. Ég hef oft tekið símann til að hringja í þig til að segja þér fréttir, en þá man ég að þú ert ekki lengur hér. Og þegar það voru landsleikir þá hringdi ég til að láta þig vita á hvaða sjónvarpsstöð þeir væru sýndir. Svo með sólarlandaferðir, þú varst ekkert fyrir svoleiðis utanlandsferðir. En svo var ákveðið að fara til Tenerife í viku, öll systkinin og þú. Þú ætlaðir ekki að kaupa neitt, en svo vantaði þig bara fullt af fötum, til dæmis buxur, boli og sokka. Þú keyptir það allt og meira til. Og þér fannst þessi ferð frábær sem hún var.

Ég elska þig meira en orð geta lýst, elsku pabbi minn. Sakna þín endalaust og mun geyma allar minningar um þig í hjarta mínu.

Blessuð sé minning þín.

Þín dóttir,

Margrét Rebekka

(Magga).

Elsku pabbi minn.

Þó að það sé erfitt að kveðja þig er það huggun að vita að þú þjáist ekki lengur. Einnig er það huggun að vita að mamma mun taka vel á móti þér. Ég er mjög þakklátur fyrir þann tíma sem við fengum með þér. Þú reyndist mér frábærlega og varst alltaf til taks þegar maður þurfti, meira að segja á þeim tíma sem ég var í fýlu út í þig. Ég fékk að misstíga mig oft á uppvaxtarárum mínum en þá varst þú alltaf til staðar til að reisa mig við aftur.

Þú hefur alltaf verið maður fárra orða en alltaf varstu til í að hlusta og gafst svo venjulega stutt og góð ráð.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta mikið heldur bara segja það sem er mikilvægast:

Takk fyrir að vera til staðar, takk fyrir að vera alltaf þú, takk fyrir alla hjálpina, takk fyrir að vera góður pabbi, takk fyrir að vera góður afi barnanna minna og takk fyrir allar minningarnar.

Svo ætla ég að segja það sem maður sagði ekki alltof oft en vona að þú vitir það: ég elska þig pabbi og mun ávallt elska þig.

Kveðja!

Hinn uppáhaldssonurinn þinn,

Óskar litli.

Elsku Óli, það er sárt að þurfa að kveðja þig en þér líður betur núna og það er huggun í því.

Mig langar mest að segja takk. Ég var kannski ekki nógu dugleg að segja það en ég er svo þakklát fyrir að hafa kynnst þér. Þakklát fyrir allt sem þú gerðir fyrir okkur því þannig sýndir þú okkur kærleika, með gjörðum og stundum orðum.

Takk fyrir allar minningarnar sem ég mun geyma í hjarta mér.

Takk, elsku tengdapabbi.

Þín tengdadóttir,

Sigrún.

Elskulegi tengdafaðir minn, Ólafur Sverrisson, er fallinn frá. Í hjarta mínu ríkir djúpur söknuður og þakklæti.

Fyrir 37 árum, þá 17 ára gömul, kynntist ég Jóa mínum. Þegar ég kom í fyrsta sinn inn á heimili Óla og Óskar í Unufellinu tók strax á móti mér hlýja og kærleikur. Mér leið fljótt eins og ég væri þegar orðin hluti af þessari stórfjölskyldu, og þannig hefur það alltaf verið. Frá því við Jói hófum okkar búskap var Óli ávallt tilbúinn að styðja okkur með allt sem þurfti. Þegar við fluttum í okkar fyrstu íbúð þá áttum við lítið innbú, en strax fyrsta daginn í íbúðinni okkar var Óli mættur til okkar með veglegt pottasett og hefur það sett fylgt okkur öll okkar búskaparár. Það var svo sjálfsagt fyrir hann að rétta hjálparhönd, alltaf boðinn og búinn að hjálpa. Eitt minningabrot stendur mér sérstaklega nærri. Þegar við byggðum pall við húsið okkar fyrir 14 árum var Óli mættur eldsnemma á morgnana í smíðagallanum, með jákvætt viðmót og klár í slaginn. Dag eftir dag kom hann og aðstoðaði Jóa þar til verkið var fullbúið. Aðstoð hans var okkur dýrmæt og hún var sjálfsögð í hans huga. Þannig persóna var hann, hann sýndi umhyggju sína með því að hjálpa fólkinu í kringum sig.

Ekki má svo gleyma öllum bílaviðgerðunum sem hann tók að sér fyrir vini, fjölskyldu og alla sem leituðu til hans. Eftir að þau hjónin fluttu í Álftahólana áttu hann og synir hans margar góðar og dýrmætar stundir saman þar í bílskúrnum í bílaviðgerðum og félagsskap hver annars.

Kæri Óli, þakka þér af öllu hjarta fyrir öll góðu árin, fyrir hlýjuna, hjálpsemina og það traust sem þú sýndir okkur. Þín verður sárt saknað.

Með kærleik og virðingu, þín tengdadóttir,

Jóhanna.

Elsku afi.

Þú varst alltaf svo góður við okkur og það var nánast sama hvað við báðum um, þú reyndir að verða við því. Þú varst alltaf svo jákvæður við okkur.

En elsku afi núna ertu farinn til ömmu og við munum sakna þín mikið.

Takk fyrir allt, elsku afi.

Sæunn Svava og

Jóhann Ólafur.

Elsku besti afi minn.

Fyrir mér varst þú ekki bara afi, þú varst líka fyrsti besti vinur minn.

Ég elskaði að vera með þér og gera skemmtilega hluti eins og að gefa hestunum þegar þú vannst við það. Ein minning er frá því að ég var að gista hjá ykkur ömmu, ég ætlaði með að gefa hestunum um morguninn. Þú fórst svo án mín því þú vildir leyfa mér að sofa. Ég varð rosa reið og ég lét þig lofa að fara aldrei aftur án mín. Þú lofaðir og stóðst alltaf við það. Það var alltaf gaman hjá ykkur ömmu og ég reyndi að hitta ykkur eins oft og ég gat.

Ég mun alltaf elska þig og sakna.

Ástarkveðja,

Ólöf Bára.

hinsta kveðja

Elsku afi.

Takk fyrir allt.

Kveðjum þig með kærleik í hjarta.

Þínir dóttursynir,

Alexander og

Kristófer.