Haraldur Pálmar Haraldsson fæddist í Reykjavík 7. mars 1953. Hann lést á Móbergi Selfossi 23. júní 2025.

Foreldrar hans voru Haraldur Eyland Pálsson húsasmíðameistari frá Siglufirði, f. 7. júlí 1924, d. 18. desember 1983, og Eyrún Maríusdóttir húsmóðir úr Reykjavík, f. 21. júní 1923, d. 18. janúar 1999.

Haraldur var næstyngstur fjögurra barna þeirra. Systkini hans: Sverrir Eyland, f. 28. janúar 1949, d. 23. ágúst 1973, Eyþór Már, f. 19. maí 1950, og Guðbjörg Rós, f. 21. október 1954.

Útför hans fór fram í kyrrþey.

Netgrein á www.mbl.is/andlat/minningar

Elsku Halli frændi.

Nú sit ég á nákvæmlega sama stað og þú sast alla jafna. Reyndar er orðið bannað að reykja innandyra hér á fyrstu hæð hússins og mig vantar bolla með soðnu kaffi. Að öðru leyti er þetta nokkuð nærri lagi.

Áskoranir þínar við andleg veikindi voru oft erfiðar og voru einnig áskoranir okkar allra sem þér stóðu næst. Á sama tíma og þær voru erfiðar voru þær einnig skemmtilegar og oft spaugilegar. Að segja ketti til syndanna fyrir að hafa hlegið að þér er eitt dæmi um það.

Alltaf varstu með svar við öllu og aldrei stóð á svari, svörin komu alltaf alveg um hæl. Undir það síðasta, eftir heilablóðfallið, varstu farinn að þurfa aðstoð við allar athafnir daglegs lífs og erfitt var að skilja hvað þú sagðir. Síðasta spurning mín til þín var á 17. júní síðastliðinn á hjúkrunarheimilinu. Þá spurði ég hver tilgangur lífsins væri, og svarið kom um leið: „Að standa sína plikt.“

Hver kemur með svar við svona stórri spurningu á tveimur sekúndum?

„Sælla er að gefa en að þiggja“ er orðatiltæki sem lýsir þinni persónu vel. Þú gafst frá þér allt sem þú áttir og gerðir allt fyrir alla.

Þegar ég hugsa til þín er efst í huga mér þakklæti.

Þakklæti fyrir að hafa fengið að alast upp með þér í húsinu og í seinni tíð að skilja orðatiltækið sem þú varst svo gjarn á að segja: „Vel skeindur rass og allt í himnalagi!“

Takk fyrir samferðina,

Haraldur Gunnar
(Halli Gunn).

Elsku Haraldur frændi hefur kvatt þennan heim. Það sem einkenndi hans líf var hversu einstakur maður, hógvær og lítillátur hann var. Þótt hann hafi glímt við andleg veikindi öll sín fullorðinsár, sem margir skildu ekki til fulls, þá kvartaði hann aldrei. Hann bar sína þungu byrði í hljóði. Hann var sjálfstæður, mjög félagslyndur og mikill húmoristi. Virkilega litríkur og skemmtilegur, það var mikið um uppákomur og mikið hlegið. Einstakur karakter og bráðgreindur, auðmjúkur og með hjarta sem vildi öllum vel. Alltaf. Sama hvernig fólk kom fram við hann. Hann lagði sig alltaf fram um að vera góð manneskja, jafnvel þótt lífið hefði ekki alltaf verið honum létt. Ég er afar þakklát fyrir að hafa alist upp með Halla frænda og ömmu Eyrúnu, þau tvö voru of góð fyrir þennan heim. Það sem einkenndi þau var samkennd, auðmýkt, kærleikur og lítillæti. Ég þakka þér fyrir samfylgdina í gegnum árin, elsku Halli frændi, og bið að heilsa ömmu Eyrúnu. Megir þú hvíla í Guðs faðmi elsku fallegi frændi.

Þegar raunir þjaka mig

þróttur andans dvínar

þegar ég á aðeins þig

einn með sorgir mínar.

Gef mér kærleik, gef mér trú,

gef mér skilning hér og nú.

Ljúfi drottinn lýstu mér,

svo lífsins veg ég finni

láttu ætíð ljós frá þér

ljóma í sálu minni.

(Ómar Ragnarsson/
Gísli á Uppsölum)

Þín frænka,

Kristrún Dagný
Matthíasdóttir.