Erla Auðlín Bótólfsdóttir fæddist í Reykjavík 19. maí 1931. Hún lést á Hrafnistu, Laugarási, 22. maí 2025.
Foreldrar hennar voru hjónin Bótólfur Sveinsson bifreiðastjóri, f. á Gautastöðum í Hörðudal í Dalasýslu, og Margrét Erlingsdóttir húsmóðir, f. á Geitabergi á Hvalfjarðarströnd. Ber útfarardag Erlu upp á afmælisdag móður hennar, en hún fæddist 12. júní 1906 og lést 29. mars 1995, á 89. aldursári. Bótólfur, faðir Erlu, dó fjórum árum seinna, 26. febrúar 1999, 98 ára að aldri, en hann var fæddur 17. júní 1900. Þau hjón voru búsett á Týsgötu 4b þegar Erla fæddist, en fluttust fimm árum síðar að Breiðholti við Laufásveg, og þar ólst hún upp ásamt yngri systkinum sínum, þeim Sólveigu Sveinu, Fjólu Ingibjörgu og Erlingi Sveini. Eldri hálfsystir Erlu, samfeðra, var Ragnhildur Guðmunda. Hún lést 2006 og Sólveig Sveina 2015, en Fjóla og Erlingur lifa systur sína.
Eiginmaður Erlu var Guðmundur Kristleifsson húsasmíðameistari, frá Efri-Hrísum í Fróðárhreppi á Snæfellsnesi, sonur hjónanna Kristleifs Jónatanssonar og Soffíu Guðrúnar Árnadóttur. Erla og Guðmundur gengu í hjónaband 1. október 1949. Þau byrja sinn búskap á neðri hæðinni í Breiðholti og búa þar til ársins 1967 en þá flytja þau í Hlíðahverfi Reykjavíkur. Þegar síðasta barnið fer að heiman árið 1991, þá flytja þau í Árbæinn. Þegar þau fara að reskjast frekar flytja þau inn í þjónustuíbúð á Dalbraut í lok árs 2009. Þremur árum eftir andlát eiginmanns síns 18. júlí 2011 flytur hún á milli húsa á Dalbraut og að lokum í júlí 2022 flytur hún á hjúkrunarheimilið Hrafnistu, Laugarási.
Erla og Guðmundur eignuðust fjögur börn. Þau eru: 1) Margrét Hulda Smith, f. 1950, gift Peter Smith, þau búa í Englandi og eiga tvö börn, Mark Peterson og Emmu. Mark á tvö börn og Emma þrjú. 2) Soffía Guðrún, f. 1951, hún á tvær dætur, Huldu Erlu með Ólafi Benediktssyni og Hildi Sóleyju með Sveini Jóhannssyni. Hulda Erla á þrjú börn og eitt barnabarn. Hildur Sóley á tvö börn. 3) Birgir, f. 1954, hann á þrjár dætur, Evu Heiðu með Önnu Hrefnudóttur, Jóhönnu Kristrúnu og Erlu Björgu með Sólveigu Maríu Þorláksdóttur. Eva Heiða á tvö börn og tvö barnabörn, Jóhanna Kristrún á tvö börn og Erla Björg á tvö börn. 4) Kristrún, f. 1956, einhleyp og barnlaus. Barnabarnabörnin eru nú 16 talsins og barnabarnabarnabörnin þrjú.
Störf hennar utan heimilis eftir það voru hlutastörf eftir því sem heilsan leyfði. Starf hennar innan heimilis var viðamikið, fjögur börn og þar af eitt sem þurfti meiri umönnun en gengur og gerist. Á þessum tíma voru ekki komnar þvottavélar og voru t.d. bleyjur soðnar í þar til gerðum potti, skolaðar og hengdar upp til þerris.
Útför hennar fór fram í kyrrþey að ósk hennar.
Þó að hún hafi fætt mig og alið upp þá kom í ljós að ég vissi ekki allt um hana og því ætla ég að fjalla lítillega um það sem mætti kalla leynilíf móður minnar.
Hún er 8-9 ára þegar heimsstyrjöldin hefst og komin á táningsaldur þegar henni lýkur. Æskuheimili hennar, Breiðholt við Laufásveg, var í næsta nágrenni við Reykjavíkurflugvöll, þannig að hún fylgist með byggingu hans og framgangi. Austar er svo Öskjuhlíðin með sín hernaðarmannvirki.
Þegar hún fæðist er fjöldi Íslendinga 109.088 en við andlát hennar hefur þeim fjölgað í tæp 390 þúsund eða 3,57-falt.
Hún var lífleg og skemmtileg og laðaði að sér fólk, bæði börn og fullorðna. Hugarfar hennar var jákvætt. Nánir ættingjar lýsa henni sem góðri húsmóður, t.d. dáðist systir hennar að því hve allur þvottur var í góðu skipulagi hjá henni. Önnur lýsing frá systkinum er að hún hafi verið trúnaðarvinkona þeirra og ávallt hafi verið gott að leita til hennar. Hún tók öllum með hlýju og brosi, gerði engan mannamun og erfði ekki neitt við nokkurn mann. Fólk laðaðist að henni og sem dæmi að þegar hún hafði dvalið sér til heilsubótar á heilsuhælinu í Hveragerði, þá eignaðist hún vinkonur sem voru í símasambandi við hana í langan tíma á eftir. Í þessu sambandi má geta að hún komst snemma upp á lag með það að nota síma til að halda sambandi við fólk. Hún hafði mikinn áhuga á fólkinu sínu og fylgdist vel með börnunum sínum, barnabörnum og síðar þeim sem þar á eftir komu. Spurningar hennar um afkomendur sína einkenndust af væntumþykju og forvitni. Þegar litið er til systkinabarna hennar, hvort sem þau voru í nágrenni við hana eða ekki, þá hafði hún ekki síðri væntumþykju til þeirra. Þessi hópur lýsir henni sem góðri og glaðlyndri konu með góða nærveru. Fyrrverandi tengdabörn hennar nefna hana sem sína einu tengdamóður og voru í góðu sambandi við hana, heimsóttu hana þrátt fyrir að slitnað hefði upp úr. Systkini fyrrverandi tengdabarna voru líka full af væntumþykju í hennar garð og mörg hver heimsóttu hana á Dalbraut og Hrafnistu. Barnabörnin minnast hennar sem glaðlyndrar og góðri konu, með góðan húmor, og minnast þess hve gott var að hitta hana og fá grjónagraut eða kjötbollur. Þegar kemur að barnabarnabörnum, þá var ekki lengur í boði grjónagrautur eða kjötbollur, en hins vegar var í boði áhugi á þeim, góðmennska, sælgætisskápur og góður húmor. Þegar hún flutti á milli húsa á Dalbraut þremur árum eftir lát eiginmanns, þá tók hún þátt í því félagsstarfi sem þar var í boði og segja má að þar hafi sagan endurtekið sig, því þar eignaðist húni vini og vinkonur, bæði meðal heimilisfólks og starfsfólks. Hún hafði gaman af fallegum hlutum og fallegum fötum. Þegar litið er til trúarlífs hennar, þá hafði hún trú á mætti bænarinnar. Hún bað fyrir fólki og bað presta að biðja fyrir fólki.
Hún greindist með sykursýki á miðjum aldri og var eflaust með ógreinda og ómeðhöndlaða sykursýki mestalla ævi. Hún var ætíð þorstlát og m.a. undraðist heimilisfólkið á Völlum, þar sem hún var í kaupavinnu, hvað henni þótti vatnið þar gott. Hún fylgdist með atburðum líðandi stundar með lestri Morgunblaðsins, fréttalestri og átti það til að æsa sig yfir íþróttakappleikjum í sjónvarpi. Í júlí árið 2022 flutti hún svo á Hrafnistu, Laugarási, þar sem hún lést í hárri elli þann 22. maí 2025.
Birgir Guðmundsson.
Elskuleg Erla tengdamamma mín er látin. Hún var nýbúin að eiga sinn 94. afmælisdag og því tilbúin að yfirgefa þetta líf, sátt við Guð og menn.
Ég man það eins og gerst hafi í gær þegar ég hitti Erlu í fyrsta sinn. Þar hitti ég fyrir konu sem tók mér opnum örmum, hlý og falleg. Frá fyrstu stundu virtumst við hafa þekkst lengi, gátum spjallað um alla heima og geima og ég sogaðist að þessari hlýju og útgeislun sem hún hafði til að bera. Erla hafði þá eiginleika að láta öllum í kringum sig líða vel, var skemmtileg og hláturmild og með mikinn húmor. Þegar ég hugsa til baka þá hef ég sjaldan hlegið jafn mikið með nokkurri manneskju eins og henni. Og við áttum sem betur fer mikið af stundum saman í gegnum tíðina.
Erla var góð amma og því fengu dætur mínar að kynnast. Þegar ég eignaðist yngri dóttur mína var fæðingarorlof aðeins þrír mánuðir og ég því í miklum vandræðum hver ætti að taka við barninu þegar því lyki. Þarna kom Erla tengdamamma mín sterk inn og bauðst til að taka þá litlu í pössun fimm daga vikunnar. Þetta var ómetanlegt og sýndi í raun hvað Erla var alltaf hjálpsöm og góð manneskja. Ég auðvitað naut líka góðs af og var mætt í morgunkaffi, ristað brauð og gott spjall við tengdamömmu mína þessa fimm daga vikunnar. Þessar samverustundir okkar voru góð byrjun á nýjum degi.
Ég gæti skrifað svo margt og mikið meira um tengdamömmu mína því árin sem við þekktumst voru mörg. En best af öllu er að eiga minningarnar allar sem hún skildi eftir sig fyrir sjálfan sig og afkomendur. Og talandi um minningar þá koma upp í hugann öll yndislegu aðfangadagskvöldin sem við áttum saman. Þá komu Erla, Gummi og Kristrún til okkar áður en jólin voru hringd inn og þá máttu jólin koma fyrir mér.
Ég elskaði Erlu mína og er þakklát fyrir að hafa fengið að eignast hana sem tengdamömmu mína í lífinu. Ég vil þakka henni samfylgdina og kveð hana með vissu um að nú líði henni vel umvafin sínu allra besta. Ég votta öllum afkomendum Erlu mínar dýpstu samúðarkveðjur.
Sofðu rótt, elsku Erla mín.
Þín tengdadóttir,
Sólveig.
Ég fékk nafnið mitt frá Erlu ömmu og hún kallaði mig nöfnu. Þegar ég fæddist var fæðingarorlof bara þrír mánuðir. Ég var 12 vikna ungbarn þegar ég var komin í umsjón ömmu alla virka daga og var mikið hjá henni í uppvexti mínum. Erla amma er ein af þeim manneskjum sem ólu mig upp og fyrir það er ég afar þakklát.
Það eru margar minningar sem ég á af ömmu og hversdagslífinu okkar saman. Lífið var ekki flókið hjá okkur og einkenndist af ástríki. Hún eldaði hádegismat og þá kom afi líka heim í hádegishléinu sínu. Fengum grjónagraut, kjötbollur, fiskbúðing og annan heimilismat sem var hversdagsmatur Íslendinga og var svo dásamlega lystugur þarna í eldhúsinu hjá ömmu. Hún bakaði iðulega jólaköku með rúsínum og skúffuköku. Fyrir jólin bakaði hún smákökur og ég fékk að velja mér í poka og eiga fyrir mig. Hún passaði alltaf að eiga súkkulaði „í skápnum“. Líka eftir að ég varð fullorðin. Ég á líka margar minningar af því að fara út að borða í hádeginu með ömmu og afa á afmælisdögunum mínum eftir að ég varð unglingur.
Erla amma mín hafði sterkan karakter. Hún var hlý, mjúk og hafði mikla góðvild. Hún var stórskemmtileg og orðheppin þegar sá gállinn var á henni. Hún var félagslynd en átti það til að loka sig af heima sem breyttist þegar hún flutti á Dalbraut og fann hvernig fólk sogaðist að henni þar. Hún vildi hafa fallegt í kringum sig og var nægjusöm og gjafmild. Hún spáði í drauma og þýðingu þeirra. Hún sagði oft við mig í uppvextinum: „Erla mín, ég held ég eigi ekki langt eftir.“ Það olli mér ekki kvíða heldur gaf hún mér þá vitneskju ungri að dauðinn er hluti af lífinu. Við þurfum að hafa það í huga og vera góð við fólkið okkar og passa upp á dagana okkar. Þeir eru nefnilega takmörkuð auðlind. Erla amma reyndist nú ekki sannspá þar sem hún varð manna elst, 94 ára þegar hún lést. Þá var hennar tími sannarlega kominn. Við sem stóðum ömmu næst fundum það.
Örfáum dögum áður en Erla amma dó, á afmælisdaginn hennar þann 19. maí, fékk ég að sitja hjá henni. Hún var orðin þreytt en vaknaði á meðan ég sat þarna, horfði í augun mín, við héldumst í hendur í hinsta sinn og ég fékk að þakka henni fyrir allt sem hún gerði fyrir mig og við kvöddumst. Fyrir það er ég þakklát.
Takk, elsku Erla amma, fyrir allt sem þú gafst mér og fyrir þau áhrif sem þú hafðir á mig. Tilvist þín á þessari jörð skipti öllu máli fyrir mig og marga aðra í kringum þig. Hvíldu þig núna með Gumma afa.
Erla Björg Birgisdóttir.
Elsku amma mín, Erla góða Erla, er nú búin að fá hvíldina, rétt 94 ára gömul. Eftir sitja fallegar og ljúfa minningar um hlýja manneskju sem tók vel á móti fólki. Ég á margar fallegar minningar um ömmu. Mér þykir sérstaklega vænt um minningarnar frá öllum jólunum okkar saman. Aðfangadegi og jóladegi vörðum við saman, fyrst heima hjá okkur fjölskyldunni í Barmahlíð og svo heima hjá afa og ömmu í Drápuhlíð.
Amma var söngelsk og þykir mér sérstaklega vænt um minningarnar sem hún og mamma sköpuðu með því að sitja saman og syngja með sálmunum í útvarpinu. Ég er líka þakklát fyrir að strákarnir okkar Árna hafi fengið að kynnast langömmu sinni, en þeir heimsóttu hana reglulega. Strákarnir voru alltaf glaðir og fannst amma sín skemmtileg og lífleg.
Elsku amma mín, nú ertu búin að fá hvíldina. Takk fyrir þína góðmennsku og gleði sem þú skilur eftir hjá okkur. Við hugsum til þín og biðjum að heilsa afa.
Jóhanna Kristrún.