"Megum ekki missa af lægðunum" "Í STÝRIMANNASKÓLANUM lærði maður að taka veður og sneiða hjá lægðum. Þessi leiðangur er svolítið frábrugðinn, því við megum helst ekki missa af lægðunum," segir Halldór Nellet, skipherra hjá Landhelgisgæslunni, sem í gær

Varðskipið Ægir fór í gær til tveggja mánaða veðurathugana úti á rúmsjó

"Megum ekki missa af lægðunum"

"Í STÝRIMANNASKÓLANUM lærði maður að taka veður og sneiða hjá lægðum. Þessi leiðangur er svolítið frábrugðinn, því við megum helst ekki missa af lægðunum," segir Halldór Nellet, skipherra hjá Landhelgisgæslunni, sem í gær stýrði varðskipinu Ægi úr höfn í Reykjavík til að taka þátt í veðurathugunarverkefni langt suður í hafi.

18 manna áhöfn Ægis tekur þátt í alþjóðlegu verkefni sem stendur yfir í tvo mánuði. Skipið verður staðsett þann tíma 900 mílur suð-suðvestur af Íslandi, miðja vegu milli Írlands og Nýfundnalands, og safnar upplýsingum um veður, strauma og vinda allt frá yfirborði sjávar og upp í 16 kílómetra hæð.

Tilgangurinn er að fá úr því skorið hvort hægt verði að afla betri upplýsinga um veður á þessum slóðum og um leið renna stoðum undir betri veðurspár.

Komið hefur verið fyrir um borð í Ægi sjálfvirkri veðurathugunarstöð sem skipverjar hafa fengið þjálfun í að meðhöndla og eiga þeir auk þess að senda á loft og safna loftbelgjum sem safna eiga upplýsingum um veðurfar á þjóðbraut lægðanna á Atlantshafi.

Alls taka fjögur skip þátt í þessum leiðangri og verða skipin staðsett með 150 sjómílna millibili á 35 gráðu vesturlengdar. Ægir verður nyrstur, þá franskt skip, svo bandarískt og syðst verða Rússar. Sjö flugvélar sveima yfir skipunum og auk þess verða frekari athuganir gerðar í landi, en stjórnstöð verður í Shannon á Írlandi, að sögn Halldórs.

Sjá ekki land vikum saman

Varðskipið er væntanlegt heim til Reykjavíkur að nýju í lok febrúar, en fram til þess tíma munu skipverjar ekki sjá land, nema hvað skroppið verður inn til Írlands að taka olíu. "Auðvitað hefði maður óskað sér að vera á stærra skipi í þessu verkefni en þetta verður að duga. Nýi Ægir er stærsta skip sem við eigum, en hann er að verða 30 ára. Þetta verkefni er sönnun þess að verkefni Landhelgisgæslunnar eru að aukast og við þurfum að fá stærra skip," sagði Halldór Nellet, skipherra á Ægi.

Morgunblaðið/Árni Sæberg MAGNÚS Guðjónsson, Ólafur Valur Ólafsson og Björn Straumland, skipverjar á ÆGI voru í óða önn að undirbúa brottför í gær og m.a. tóku þeir niður jólaskrautið.