Ísland verði á Evrópukortinu EVRÓPUSAMTÖKIN hafa sent Alexandre Lamfalussy, forseta Peningamálastofnunar Evrópu (EMI), bréf og bent á að Ísland sé ekki að finna á Evrópukorti því, sem prýðir tillögu að útliti evrósins, hins væntanlega sameiginlega

Evrópusamtökin skrifa Lamfalussy vegna evró-seðla

Ísland verði á Evrópukortinu

EVRÓPUSAMTÖKIN hafa sent Alexandre Lamfalussy, forseta Peningamálastofnunar Evrópu (EMI), bréf og bent á að Ísland sé ekki að finna á Evrópukorti því, sem prýðir tillögu að útliti evrósins, hins væntanlega sameiginlega gjaldmiðils Evrópusambandsins. Hvetja samtökin til þess að Ísland verði haft með á kortinu er seðlar verða prentaðir og mynt slegin.

"Ísland er og hefur alltaf verið hluti af Evrópu, landfræðilega, menningarlega, efnahagslega og pólitískt," segir í bréfi Evrópusamtakanna, sem Aðalsteinn Leifsson formaður undirritar. "Þótt Ísland eigi ekki aðild að Evrópusambandinu sem stendur er mjög líklegt að landið gangi í sambandið. Við hvetjum yður því eindregið til að Ísland verði "sett aftur" á kortið áður en endanlegt útlit verður ákveðið."

Endurspeglar áhugaleysi Íslendinga

Aðalsteinn Leifsson sagði í samtali við Morgunblaðið að evróið yrði samsett úr myntum þeirra ríkja, sem Ísland ætti mest viðskipti við, og yrði fyrir augum Íslendinga á hverjum degi í framtíðinni. Áhugaleysi Íslendinga á þátttöku í Evrópusamstarfinu endurspeglaðist sennilega í því að hönnuðir ESB hefðu gleymt Íslandi. "Þótt það sé áhyggjuefni að Ísland sé ekki á Evrópukortinu á seðlunum, er enn meira áhyggjuefni að Ísland skuli ekki íhuga af meiri alvöru að taka þátt í Efnahags- og myntbandalagi Evrópu og að ekki skuli í það minnsta vera athugað af meiri alvöru en gert hefur verið hvaða áhrif EMU muni hafa á íslenskt efnahagslíf og hvernig skynsamlegast sé að bregðast við," segir Aðalsteinn.

MYND af fyrirhuguðu útliti 500-evróa seðils. Ísland vantar á Evrópukortið.