Flestar EES-reglur varða almannahag HALLDÓR Ásgrímsson utanríkisráðherra segir að álag á utanríkisþjónustuna hafi aukizt mjög á síðastliðnum árum vegna margs konar alþjóðlegs samstarfs, ekki eingöngu vegna aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu.

Ráðherra segir þörf á eflingu utanríkisþjónustunnar

Flestar EES-reglur

varða almannahag

HALLDÓR Ásgrímsson utanríkisráðherra segir að álag á utanríkisþjónustuna hafi aukizt mjög á síðastliðnum árum vegna margs konar alþjóðlegs samstarfs, ekki eingöngu vegna aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Þörf sé fyrir eflingu utanríkisþjónustunnar og fleiri sendiráð. EES-reglur, sem hér taki gildi, séu sumar hverjar ekki sniðnar að íslenzkum aðstæðum, en flestar varði þær almannahag.

Davíð Oddsson forsætisráðherra sagði í áramótagrein sinni í Morgunblaðinu að þátttaka í alþjóðlegum stofnunum reyndi æ meir á hið fámenna íslenzka embættismannakerfi. EES-samningurinn hefði t.d. kallað á fleiri starfskrafta en búizt var við og væri það starfslið þó enn undirmannað. Forsætisráðherra ræddi einnig um "tilskipunar- og reglugerðafargan, sem útungunarstofnanir í Brussel spýta frá sér með ógnarhraða" og sagði að flestar þessar tilskipanir væru viðteknar hér án þess að nægileg innlend athugun hefði átt sér stað, til þess skorti mannskap.

Mikil aukning samstarfs á skömmum tíma

"Það hefur alltaf verið erfitt fyrir fámenna þjóð að reka öfluga utanríkisþjónustu. Við verðum mjög varir við það í utanríkisráðuneytinu með vaxandi alþjóðlegu samstarfi, ekki bara að því er varðar Evrópusamstarfið," segir Halldór. Hann bendir á að á stuttum tíma hafi Ísland ekki aðeins gerzt aðili að EES, heldur einnig að Eystrasaltsráðinu, Barentsráðinu, Vestur-Evrópusambandinu og Norðurheimskautsráðinu. Þá hafi starf innan Evrópuráðsins, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, OECD og fleiri stofnana aukizt mjög. Ísland hafi tekið sæti í efnahags- og félagsmálanefnd Sameinuðu þjóðanna og málefni Alþjóðabankans hafi nýlega flutzt til utanríkisráðuneytisins.

"Það er engin launung að við eigum erfitt með að sinna öllu þessu starfi með þeim hætti sem við vildum gera. Það er rétt hjá forsætisráðherra að það krefst auðvitað mikils mannafla að fylgjast með því, sem gerist á vettvangi Evrópusambandsins. Þar verðum við að forgangsraða og byggja að hluta til á samstarfsaðilum okkar, ekki sízt á þeirri vinnu, sem fer fram á vegum EFTA," segir Halldór. "Ég tel hins vegar þrátt fyrir allt að okkar fólki takist mjög vel að halda utan um þessi mál þótt auðvitað komi upp vandræði eins og gengur.

Því er heldur ekki að neita að útgáfa á ýmsum reglum krefst mikillar vinnu. Þar með er ekki sagt að megnið af reglunum, sem verið er að gefa út, sé óþarft. Þær snerta almannahag, bæði hjá okkur og í öðrum löndum. Þetta eru oft og tíðum reglur, sem varða t.d. neytendavernd og réttarstöðu almennings á ýmsum öðrum sviðum. Því er heldur ekki að neita að aðstæður hér á landi eru stundum ekki þær sömu og annars staðar í Evrópu, meðal annars vegna fámennis. Í stórum dráttum búum við þó við svipuð skilyrði," segir Halldór.

Ráðherrann segir að það sé höfuðatriði innri markaðar Evrópusambandsins að þar ríki sambærilegar samkeppnisreglur. "Við töldum okkur nauðsynlegt að vera aðilar að þessum innri markaði og því fylgja bæði kostir og gallar. Það hefur aldrei verið hægt að taka þátt í samstarfi og tína eingöngu upp kostina."

Sendiráð í Japan mikilvægt

Halldór segist telja mikilvægt að opna sendiráð í Japan og undirbúningur að því sé hafinn. Jafnframt sé æskilegt að hafa sendiráð t.d. í Kanada og Finnlandi, mikilvægum viðskiptaríkjum á borð við Ítalíu, Spán og Portúgal og á vaxandi mörkuðum í Suður-Ameríku og Austur-Evrópu. "Sem fámenn þjóð verðum við þó að forgangsraða verkefnum," segir hann.