"Liggur við að tárin frjósi" "ÉG Á sextán mánaða gamla dóttur og ef hún tárast þegar ég fer með hana út liggur við að tárin frjósi á kinnunum á henni," segir Rósa Erlingsdóttir sem búsett er í Berlín með fjölskyldu sinni. Segir hún að frost í Berlín

Kalda loftið frá Síberíu hefur lagst yfir Skandinavíu

"Liggur við að tárin frjósi"

"ÉG Á sextán mánaða gamla dóttur og ef hún tárast þegar ég fer með hana út liggur við að tárin frjósi á kinnunum á henni," segir Rósa Erlingsdóttir sem búsett er í Berlín með fjölskyldu sinni. Segir hún að frost í Berlín hafi verið 10­15 stig yfir daginn í vetrarhörkunum sem sett hafa mark sitt á Evrópu að undanförnu. Á sama tíma hafa verið hlýindi á Íslandi og til dæmis var 5 stiga hiti á Garðskagavita í gær.

Rósa segir kuldann bitna mikið á íbúum Austur-Berlínar og heimilislausum flóttamönnum. "Margir hita með kolum og eru því bara með hita frá ofnum. Við slíkar aðstæður frýs vatn í leiðslum og ekki er hægt að nota salernið. Það frýs allt og varla hægt að rista sér brauð," segir Rósa af eigin raun en hún er nú búin að skipta um húsnæði. "Á móti kemur að samstaðan eykst og fólk ber vatn milli húsa."

Rósa segir áberandi að Berlínarbúar kunni ekki að keyra í hálkunni og séu argir við stýrið.

"Það kemur mikið af flóttamönnum og ólöglegum innflytjendum, til dæmis frá Póllandi eða annars staðar frá. Hópar glæpamanna hafa það að atvinnu sinni að flytja þá ólöglega til landsins, hafa af þeim aleiguna, og skilja síðan eftir. Nýjasta dæmið er 15 13­16 ára strákar frá Bangladesh sem hent var af vörubílspalli í 20 stiga frosti. Þeir voru léttklæddir og sumir berfættir og liggja allir á sjúkrahúsi. Flestir hafa misst hluta af fótunum vegna kals. Þetta hefur vakið mikinn óhug hér," segir hún.

Frostið hefur víða farið í 25 stig í Þýskalandi og ekki hafa Pólverjar farið varhluta af frosthörkum. "Vinafólk okkar fór til Póllands í jólafrí á skíði og lenti í 37 stiga frosti. Það var ekkert hægt að fara út enda eru hótel þar ekki eins og maður á að venjast í Austurríki eða Sviss. Fríið varð að hreinni martröð," segir Rósa loks.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að frostlaust væri orðið á Norður-Ítalíu. "Það má segja að mesti kuldinn hafi færst norðar og til Skandinavíu og til dæmis var frost 20 stig skammt frá Ósló í morgun [gær]," segir hann. Einar segir að draga muni úr langvarandi kuldatíð í Mið-Evrópu. "Í staðinn verður kaldara í Danmörku, Noregi og Svíþjóð og einkum og sér í lagi við Eystrasalt og í Finnlandi. Að ég minnist ekki á Rússland. Þar er mikið vetrarríki framundan, samkvæmt spám," segir hann.

Ekki breytinga að vænta hérlendis

Einar segir ekki miklar breytingar væntanlegar á veðri hérlendis næstu daga. "Þetta snýst allt um það að hlýtt og rakt loft af hafi eigi greiðan aðgang að landi. Það hefur sýnt sig að ef hlýtt loft leikur um Íslendinga og íbúa Suður-Grænlands nær það ekki til Evrópu. Kalt loft sígur þá hægt og rólega í vesturátt frá Síberíu og Rússlandi yfir Evrópu því hlýja loftið heldur ekki aftur af því. Ef hlýtt loft leikur um Evrópu vegna háþrýstisvæðis norður af landinu og yfir Grænlandi leikur hlýja loftið um Evrópu og kalda loftið af Íshafi á þá greiðan aðgang að okkur," segir hann að lokum.

MYNDIN sýnir hitastig á hádegi í gær.