Í HINUM íslenska bjórkjallara, nýjum veitingastað í Kringlunni í Reykjavík, þar sem skemmtistaðurinn Amma Lú var eitt sinn til húsa, verður innan tíðar seldur heimabruggaður bjór sem ættaður er frá New York í Bandaríkjunum. Auk þess fást á staðnum allt

Heimabruggaður bjór á veitingastað

Í HINUM íslenska bjórkjallara, nýjum veitingastað í Kringlunni í Reykjavík, þar sem skemmtistaðurinn Amma Lú var eitt sinn til húsa, verður innan tíðar seldur heimabruggaður bjór sem ættaður er frá New York í Bandaríkjunum. Auk þess fást á staðnum allt að 200 tegundir af bjór, m.a. frá Japan og Indónesíu, að sögn Benedikts Ólafssonar, framkvæmdastjóra bjórkjallarans.

"Bjór hússins mun fást bæði dökkur og ljós en hann er kornbruggaður, ógerilsneyddur og aðeins beiskari en venjulegur bjór," segir Benedikt og bætir við að hálfur lítri af heimabrugginu muni kosta 390 krónur.

Rými er fyrir 560 manns í Hinum íslenska bjórkallara en opið er frá hádegi alla daga og seldir ýmiss konar smáréttir og aðalréttir. Sams konar matur fæst einnig í Tommakaffi, nýju kaffihúsi á jarðhæð Kringlunnar, en báðir staðirnir eru í eigu Tómasar A. Tómassonar veitingamanns.

Staðurinn verður formlega opnaður um næstu helgi en föstudaga og laugardaga er ætlunin að hafa opið til þrjú og bjóða upp á danstónlist.