Rangoon. Reuter. AUNG San Suu Kyi, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Búrma, hét því að herða baráttu sína fyrir lýðræði í landinu í gær, en þá var þess minnst að 49 ár voru liðin frá því að landið losnaði undan breskum yfirráðum. Á óvart kom að

Heitir að

herða lýðræðisbaráttu

Rangoon. Reuter.

AUNG San Suu Kyi, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Búrma, hét því að herða baráttu sína fyrir lýðræði í landinu í gær, en þá var þess minnst að 49 ár voru liðin frá því að landið losnaði undan breskum yfirráðum. Á óvart kom að herforingjastjórnin skyldi leyfa henni og samtökum hennar, Lýðræðisbandalaginu, að halda upp á daginn með fundi á heimili hennar í gær en þar voru um 1.500 manns samankomin. Er það fyrsti fundur samtakanna sem leyfður er frá því í maí í fyrra. Erlendir stjórnarerindrekar, sem sóttu fundinn, létu í ljós undrun yfir að hann skyldi leyfður og töldu það hugsanlega einhverja vísbendingu þess að herforingjarnir vildu komast að málamiðlun við Suu Kyi. Undanfarinn mánuð hafði herforingjastjórnin hert eftirlit með henni, takmarkað ferðir hennar út fyrir heimili sitt og fylgst grannt með gestum vegna vaxandi aðgerða stúdenta á götum úti í Rangoon.

Suu Kyi sagðist þakklát fyrir að fá að efna til fundarins en sagðist harma hversu tjáningar- og ferðafrelsi hennar hefði að öðru leyti verið skert. Gagnrýndi hún herforingjastjórnina harðlega fyrir kúgun í landinu og valdbeitingu gegn lýðræðissinnum. Sagðist hún hafa lista yfir á annað hundrað manns sem hnepptir hefðu verið í pólitískt fangelsi undanfarna tvo mánuði og lengdist listinn með degi hverjum.

Reuter AUNG San Suu Kyi á fundi Lýðræðisbandalagsins í gær.