"Hefði ekki órað fyrir nákvæmninni" Námskeið um Villiöndina eftir Henrik Ibsen var haldið á vegum Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands í tilefni af því að verkið er nú sýnt á fjölum Þjóðleikhússins. Þátttakendur hlustuðu á fyrirlestra sérfræðinga og

Námskeið um Villiönd Henriks Ibsens hjá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands

"Hefði ekki

órað fyrir nákvæmninni"

Námskeið um Villiöndina eftir Henrik Ibsen var haldið á vegum Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands í tilefni af því að verkið er nú sýnt á fjölum Þjóðleikhússins. Þátttakendur hlustuðu á fyrirlestra sérfræðinga og fylgdust með æfingum á verkinu. Þröstur Helgason fylgdist með síðasta tímanum þar sem spunnust líflegar umræður um verkið og persónur þess á milli þátttakenda og aðstandenda sýningarinnar.

ÁMSKEIÐ um leikritið Villiöndina eftir Henrik Ibsen var haldi á vegum Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands í tengslum við sýningu Þjóðleikhússins á verkinu í vetur. Á námskeiðinu var fjallað um höfundarferil Ibsens og stöðu hans í leikbókmenntunum en einkum um leikritið Villiöndina. Farið var á æfingu á verkinu og svo sýningu. Á æfingu gafst þátttakendum tækifæri til að ræða við aðstandendur sýningarinnar; leikstjóra, leikendur, leikmyndahönnuð og fleiri. Í síðasta þætti námskeiðsins, sem var síðastliðið fimmtudagskvöld, hittust þau svo öll aftur og ræddu fram og aftur um sýninguna, verkið og höfundinn.

Skiptar skoðanir

Umræður í þessum síðasta tíma námskeiðsins voru afar líflegar og snerust einkum um túlkunarmöguleika á verkinu og persónum þess. Verkið segir frá fjölskyldu Hjálmars Ekdal sem lifir hamingjusömu lífi þegar æskuvinur Hjálmars, Gregers Werle, kemur í heimsókn og setur allt á annan endann. Gregers hefur vitneskju um atburði í fortíð konu Hjálmars sem hann telur að verði að draga fram í dagsljósið. Gregers er sannfærður um að hjónaband vinar síns sé reist á lygi sem sem sverti sál þessa listhneigða vinar síns. Hann trúir því að heiðarleikinn sé grundvöllur hamingjusamlegs hjónabands og einsetur sér því að uppræta meinið í sambandi Ekdalshjónanna.

Nokkuð skiptar skoðanir voru á fundinum á þessum tveimur aðalpersónum í verkinu, Hjálmari, sem Pálmi Gestsson leikur, og Gregers, sem Sigurður Sigurjónsson leikur, einkum þó Gregers sem sumir töldu vera illmenni en aðrir vildu slá til riddara fyrir háleitar hugsjónir og heiðarleika. Einnig var rætt töluvert um stöðu eiginkonu Hjálmars Gínu, sem er leikinn af Eddu Heiðrúnu Backman, en hún virðist halda hjónabandinu saman og heimilinu gangandi með staðfestu sinni. Hjálmar er sjálfsvorkunnsamur iðjuleysingi en telur sér samt trú um að vera höfuð fjölskyldunnar. Deilt var um hvort Gína væri drifin áfram af ást sinni til Hjálmars eða hvort hún væri nauðbeygð til að halda lífi í sambandinu vegna vafasamrar fortíðar sinnar.

Fleiri slík ágreiningsefni komu upp í samræðum þátttakenda námskeiðsins og aðstandenda sýningarinnar, til dæmis voru afar skiptar skoðanir um leikmyndina sem Grétar Reynisson er höfundur að. Annars var það augljóst af viðbrögðum hópsins að almenn ánægja ríkti með sýninguna.

Við gerum þetta svakalega vel

Meirihluti þátttakenda á námskeiðinu voru konur og ræddi blaðamaður við þrjár þeirra; Hólmfríði Karlsson, Jónínu Margréti Guðnadóttur og Jónu Pálsdóttur.

Hólmfríður sagði það hefði verið framúrskarandi skemmtilegt að taka þátt í námskeiðinu. "Maður fékk skýrari mynd af leikritaskáldinu og svo mjög góða umfjöllun um verkið. Þetta gerði það að verkum að maður naut sýningarinnar mun betur en ella. Skilningurinn á mannfólkinu í verkinu var dýpri.

Ég hef séð mörg leikrit eftir Ibsen en einhvern vegin höfðaði þetta meira til mín, sjálfsagt vegna þess að ég hafði meiri skilning á því sem var að gerast."

Jóna sagði að það hefði verið mikilvægt að fá heildaryfirsýn yfir það sem var að gerast í evrópskum bókmenntum og menningu þegar verkið var skrifað. "Það var lærdómsríkt að skoða þetta verk í ljósi þess og bera það svo saman við það þjóðfélag og menningu sem við lifum í hér og nú."

Allar sögðu þær að það hefði verið sérstaklega skemmtilegt og gagnlegt að fá að fylgjast með æfingum leikhópsins. "Ég hef aldrei fylgst með æfingum á leikverki áður," sagði Jónína Margrét, "og það kom mér skemmtilega á óvart hvernig ein sena var byggð upp stig frá stigi með leiðbeiningu leikstjórans, Stefáns Baldurssonar. Senurnar gátu breyst mikið á stuttum tíma. Mig hefði heldur aldrei órað fyrir því hvað þetta er mikil nákvæmnisvinna; það þarf margar atrennur að hverju smáatriði. Þegar maður fylgist með því sér maður að þetta er mikið fagfólk."

Aðspurðar sögðust þær allar vera ánægðar með sýninguna. "Þetta var stórbrotin sýning," sagði Jónína Margrét, "verkið er mjög langt en maður gleymir sér alveg á meðan á sýningunni stendur."

Jóna sagðist hafa verið búin að ímynda sér við lestur verksins að þetta gæti orðið löng sýning. "Og ég þoli eiginlega ekki langar leiksýningar. En þegar við fórum að skoða verkið sá ég að það var eiginlega ekki hægt að sleppa neinu úr því. Og það kom líka á daginn að mér leiddist alls ekki á sýningunni þótt hún væri dálítið löng. Það kom mér líka þægilega á óvart hvað við eigum góða leikara. Miðað við norska uppfærslu á þessu verki sem ég hef séð þá er þessi betri að mínu mati. Við gerum þetta svakalega vel."

Allar voru þær Hólmfríður, Jónína Margrét og Jóna sammála um að námskeiðið hefði heppnast vel og væri gagnlegt; það þyrfti í raun að kynna starf listamanna betur en gert væri.

Meðvitrað að gera leikritið skemmtilegt

Stefán Baldursson þjóðleikhússtjóri, sem leikstýrði uppfærslunni á Villiöndinni, sagðist hafa þótt mjög gaman að komast í svo mikið návígi við áhorfendur eins og tækifæri gafst til á þessu námskeiði. "Það er ekki oft sem leikhúsfólk kemst í svo náið samband við áhorfendur og það hlýtur að gera bæði okkur og þeim gott.

Ég hugsa að almennur áhorfandi geri sér ekki grein fyrir því hve mikil vinna liggur á bak við eina leiksýningu. Fólki finnst þetta allt gerast af sjálfu sér þegar það kemur á sýningu. Ég held að augu þessa hóps hafi opnast vel fyrir þessu þegar þau fylgdust með æfingu hjá okkur."

Stefán sagði að umræðurnar í þessum síðasta tíma hefðu verið sérstaklega skemmtilegar og lifandi. "Það var áberandi að fólk talaði um persónur verksins eins og þetta væru lifandi og raunverulegar manneskjur. Og kannski má segja að það sé einmitt okkar verkefni í leikhúsinu að lífga persónurnar við á sviðinu. Mér þótti það sérstaklega skemmtileg athugasemd sem einn úr hópnum gerði á æfingunni sem þau fylgdust með. Hann spurði hvort það hefði verið meðvituð stefna að gera verkið svo skemmtilegt. Ég hváði auðvitað og þá útskýrði hann að þegar hann hefði lesið verkið hefði honum fundist það heldur erfitt og leiðinlegt en það væri hins vegar svo skemmtilegt að horfa á það. Þetta er kannski okkar hlutverk líka því það er ekki öllum gefið að lesa leikritshandrit og eygja alla möguleika sem í því búa."

Haldið verður annað sams konar námskeið í samvinnu Endurmenntunarstofnunar og Þjóðleikhússins á vormisseri í tengslum við sýningu á leikriti Tennessee Williams, Köttur á heitu blikkþaki.

Morgunblaðið/Árni Sæberg FJÖLMENNT var á námskeiðinu en meirihluti þátttakenda var konur.

Hólmfríður Karlsson

Jónína Margrét Guðnadóttir

Jóna Pálsdóttir

Stefán Baldursson