. . . BÆKUR Mál og myndir FORSETABÓKIN ­ Forsetakjörið í máli og myndum. Karl Th. Birgisson og Einar Karl Haraldsson tóku saman. Útg. Félag um forsetaframboð Ólafs Ragnars Grímssonar 1996. 89 bls. HÉR er á ferð hin opinbera bók um forsetakosningarnar á

Þar kom út hin þriðja . . .

BÆKUR

Mál og myndir

FORSETABÓKIN

­ Forsetakjörið í máli og myndum. Karl Th. Birgisson og Einar Karl Haraldsson tóku saman. Útg. Félag um forsetaframboð Ólafs Ragnars Grímssonar 1996. 89 bls.

HÉR er á ferð hin opinbera bók um forsetakosningarnar á sl. ári og fer líka að verða mál að linni bókum um þetta mál að sinni, að mínum dómi.

Bókinni er ekki síst ætlað að afla fjár vegna kosningabaráttu forseta og leggja útgefendur sig í framkróka við að hafa frásögn aðgengilega og tekst það. Henni er skipt í nokkra kafla, Forsetaembættið þar sem vikið er að fyrri forsetum Íslands á kurteislegan hátt.

Næsti kafli er Fólkið velur frambjóðendur þar sem segir frá því að eftir að Vigdís Finnbogadóttir tilkynnti að hún gæfi ekki kost á sér fimmta kjörtímabilið hefðu hafist umræður um eftirmann og hvernig það gekk fyrir sig, sagt frá skoðanakönnunum og "forsetaprófum", síðan kemur röðin að því að nú fara menn að ákveða sig og hver frambjóðandi birtist af öðrum.

Síðan er kosningabaráttunni lýst og hvernig frambjóðendur kynntu sig, hvernig skrifað var um þá í blöð og fjallað um þá í öðrum fjölmiðlum og bent á alla þá hatrömmu gagnrýni sem beint var að Ólafi Ragnari einkum vegna fyrri og oft umdeildra stjórnmálaaðgerða hans. Kjördagur er næstur, svo frá Ísafirði til Bessastaða, Fyrstu embættisverk, og lýkur frásögninni eftir fyrstu opinberu heimsókn forsetahjónanna á Vestfirði.

Bókin endar svo á skrá mörg hundruð nafna einstaklinga og síðan allmargra fyrirtækja sem hafa á einn eða annan hátt lagt þessari útgáfu lið. Þessi bók er afskaplega myndarlega úr garði gerð. Hún er í stóru broti, prentuð á myndapappír og ljósmyndir margar og prýðisgóðar.

Texti er skrifaður af hlutlægni sem þýðir samt ekki að hann sé neitt leiðinlegur. Þetta er ágætis samantekt sem er sjálfsagt gott að hafa á einum stað. Og síðar gæti þessi bók verið notadrjúg einmitt vegna þeirrar stefnu sem skrásetjarar velja. En mætti sem sagt fara að setja punkt á eftir efninu.

Jóhanna Kristjónsdóttir