. Það fer ekkert á milli mála að ár hefur kvatt og annað heilsað. Kunningi Víkverja, kominn nokkuð til ára sinna, fullyrðir, að tíminn líði hraðar hjá öldruðum en ungum. Hann kvaðst meira að segja geta sannað þá staðhæfingu eftir

Ð HEILSAST og kveðjast, það er lífsins saga. Það fer ekkert á milli mála að ár hefur kvatt og annað heilsað. Kunningi Víkverja, kominn nokkuð til ára sinna, fullyrðir, að tíminn líði hraðar hjá öldruðum en ungum. Hann kvaðst meira að segja geta sannað þá staðhæfingu eftir reikningskúnstarreglum ­ og það þrátt fyrir fræga stærðfræðitregðu landsmanna.

Gefum okkur, sagði kunninginn, að meðalævi fólks hér á landi sé ein 80 ár. Tökum sem dæmi einstakling sem lifir nákvæmlega þessa gefnu meðalævi, enda mínútumaður að upplagi. Fyrsta æviárið lifir hann sum sé aðeins einn áttugasta (1/80) af ævinni, það er höfuðstólnum. Það er hægt farið í sakir, hlutfallseyðsla smá! Orðinn sjötugur á hann á hinn bóginn aðeins eftir tíu ár. Næsta ár lifir hann ekki 1/80 af "inneign" sinni, eins og fyrsta æviárið, heldur drjúgum meira, eða einn tíunda. Eyðsluhraðinn eða hlutfallið vex með hverju árinu, sagði kunninginn, og taldi dæmið gert upp. Spurningin er, hafði hann rétt fyrir sér?

VERSU mikil eru útgjöld hins opinbera, stjórnsýslustiganna tveggja, ríkis og sveitarfélaga? Svar er finna í ritstjórnargrein Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, formanns Sambands íslenzkra sveitarfélaga, í Sveitarstjórnarmálum.

Þar segir að opinber útgjöld hafi numið 177 milljörðum króna árið 1995. Þar af var hlutur ríkisins 140 milljarðar, eða 79%. Eyðsluhlutur sveitarfélaganna var 37 milljarðar króna, eða 21%. Yfirtaka sveitarfélaganna á grunnskólanum stækkar eyðsluhlut þeirra í fjórðung opinberra útgjalda. Öll er þessi eyðsla að sjálfsögðu sótt í vasa skattborgaranna með einum eða öðrum hætti.

Skipting opinberra umsvifa er víða erlendis með allt öðrum hætti en hér. Hlutdeild sveitarfélaga er víðast hærri. Sums staðar er og þriðja stjórnsýslustigið, fylki eða ömt, eins konar millistig ríkis og sveitarfélaga. Ekki myndi það lækka heildarútgjöldin hér á landi ­ eða skattgreiðslur almennings ­ að dómi Víkverja ef þriðja stjórnsýslustigið með tilheyrandi yfirbyggingu og skriffinnsku kæmi til sögunnar! Þá er nú farsælli leið að efna til færri og stærri sveitarfélaga, eins og stefnt virðist að.

ÖLUVERÐAR umræður hafa farið fram um góðæri eða ekki góðæri í íslenzku efnahagslífi, kaupmáttarauka eða ekki kaupmáttarauka. Til eru ýmsir mælikvarðar á kaupmátt. Einn af þeim er trúlega viðskiptajöfnuður þjóðarinnar við umheiminn.

Hagvísa Þjóðhagsstofnunar rak á fjöru Víkverja á dögunum. Þar kemur fram að kaupgleði Íslendinga á hvers konar innflutningi hefur vaxið mjög á árinu sem var að kveðja. Ritið gerir ráð fyrir því að viðskiptajöfnuður okkar hafi verið óhagstæður um hvorki meira né minna en níu milljarða króna árið 1996, en hann var hagstæður um 3,4 milljarða króna árið áður. Orðrétt segja Hagvísar:

"Þessi þróun viðskiptajafnaðar í ár [1996] stafar af mikilli aukningu innflutnings, sem á meðal annars rætur sínar að rekja til vaxandi kaupmáttar og aukinnar bjartsýni á efnahagshorfur. Vöruinnflutningur á fyrstu níu mánuðum ársins var 15,8% meiri að raungildi en yfir sama tímabil í fyrra . . ."

Mest er aukning innflutnings í fjárfestingarvörum, 36%. Almennur innflutningur jókst um 12,8%. Og á fyrstu níu mánuðum næstliðins árs voru nýskráðar bifreiðir langleiðina í 9.200 talsins, sem var 37% aukning frá sama tímabili árið áður. Hver og einn verður síðan að lesa það út úr þessum tölum sem hann kýs. En ljóst er, hvað sem öðru líður, að kaup landsmanna á innflutningi hvers konar hafa tekið mikinn fjörkipp á árinu sem var að kveðja.