JONATHAN Schaech, 27 ára, hefur alltaf hrifist mjög af leikaranum Tom Hanks og þegar honum bauðst að fara í prufu hjá átrúnaðargoðinu sínu fyrir hlutverk Jimmy, hljómsveitarmeðlims og lagahöfundar hljómsveitarinnar Wonders í myndinni "That Thing You

Kom Hanks til að hlæja

JONATHAN Schaech, 27 ára, hefur alltaf hrifist mjög af leikaranum Tom Hanks og þegar honum bauðst að fara í prufu hjá átrúnaðargoðinu sínu fyrir hlutverk Jimmy, hljómsveitarmeðlims og lagahöfundar hljómsveitarinnar Wonders í myndinni "That Thing You do" sem Hanks leikstýrir, hugsaði hann sig ekki tvisvar um. "Tom talaði við mig um persónuna í um það bil 20 mínútur," segir Schaech og bætir við, "og með því róaði hann mig niður. Hann var mjög vingjarnlegur og reyndist vera alveg eins og ég hafði ímyndað mér hann." Hann er þó stoltastur af einu á þeirra fyrsta fundi en honum tókst að koma Hanks til að hlæja. "Ef ég get komið Tom Hanks til að hlæja ætti ég að vera fær um að koma einhverjum öðrum í þessum heimi til að hlæja," segir Schaech sem mætti í prufuna í múnderingu frá sjöunda áratugnum.

Schaech hefur einnig leikið í myndunum "The Doom Generation" og "How to make an American Quilt" en þar lék hann á móti Winonu Ryder. Næsta mynd hans er spennumyndin "Kilronan", þar sem hann leikur á móti Gwyneth Paltrow og "The Big Red" sem leikstýrt er af sama leikstjóra og leikstýrði myndinni "Priscilla, Queen of the Desert", Ástralanum Stephan Elliott.