NÝLEGA gaf ég út smásögu eftir sjálfan mig á tölvudisklingi: Sýndist mér að þar væri loks komin leið til að gefa út bókmenntir af lengra taginu, án þess að þurfa að hætta umtalsverðum fjármunum til. Vil ég því miðla þeirri reynslu minni áfram til

Bókaútgáfa á tölvudiski

NÝLEGA gaf ég út smásögu eftir sjálfan mig á tölvudisklingi: Sýndist mér að þar væri loks komin leið til að gefa út bókmenntir af lengra taginu, án þess að þurfa að hætta umtalsverðum fjármunum til. Vil ég því miðla þeirri reynslu minni áfram til lesenda nú.

Kostir

Nú hef ég undir höndum tölvudisk, með límmiða, þar sem á stendur: "Klýtemnestra í Mýkenu. Smásaga eftir Tryggva V. Líndal. (Eiginútgáfa, á mjúkum Macintosh-tölvudisklingi, Reykjavík, 1996. Öll réttindi áskilin.)"

Gefst fólki færi á að kaupa diskinn, smella í Macintosh-tölvuna sína, og lesa þannig söguna af skjánum.

Einnig getur lesandinn prentað efnið út á tölvustrimli, á eigin kostnað, ef hann vill heldur lesa það af blaði.

Ég get einnig náð til fleiri lesenda með því að færa efnið yfir á PC-tölvudiska, fyrir PC-tölvueigendur með búnað sem tekur ekki við Macintosh-diskum.

Einnig get ég látið efnið auglýsa sig sjálft, með því að láta vista það á heimasíðu einhvers á Alnetinu.

Ennfremur með því að setja diskinn í umboðssölu í bókabúðum; í umslagi sem fer vel í hillu.

Kostir slíkrar útgáfu eru að kostnaður allur er hverfandi lítill.

Einnig sit ég ekki uppi með umframbirgðir, því ég fjölfalda mjúka diska af harða diskinum mínum eftir þörfum.

Gallar

Vankostirnir eru þó greinilega nokkrir:

Það er svo auðvelt fyrir aðra að fjölfalda efnið, að ekki er hægt að koma í veg fyrir "sjóræningjaútgáfur".

Einnig veit kaupandinn að tölvudiskur hefur ekki gengið í gegnum þann hreinsunareld sem gera má ráð fyrir um þykkar bækur; hvorki er varðar kröfuharða ritstjórn forlags né nauðsyn höfundar til að stytta verkið sem mest, né heldur að höfundur hafi viljað leggja umtalsvert áhættufé í útgáfuna.

Ekki er heldur enn hægt að leggja slík verk inn á almenningsbókasöfn til útláns; því bókasöfnin styðjast við eldri skilgreiningu á hvað sé bók; þ.e. að hún hafi hefðbundna kápu, blaðsíður, o.s.frv. (Þó hýsa þau sum nú þegar skylt efni, svo sem ritað efni á geisladiskum, og bókmenntaupplestur á geisladiskum, hljóðsnældum og hljómplötum.)

Einnig er bókaforlögum minni hagur í því að taka þátt í útgáfu efnis á tölvudiskum, þar eð varan er svo ódýr að varla svarar auglýsingakostnaði o.þ.h.

Ekki er heldur hefð fyrir að bókmenntagagnrýnendur dagblaða fjalli um tölvudiskaútgáfur og auglýsi þær þannig upp.

Því fá þær ekki aðra auglýsingu en þá sem höfundurinn sjálfur skapar sér, með eigin fjölmiðlaskrifum og uppátækjum.

Loks er á það að líta, að gagnvart almenningsálitinu verður tölvudiskur seint eins þungvægur og hefðbundin bók: Rithöfundur getur ekki komið sér til álits með tölvuefni einu saman, þegar vitað er að engum er lengur ókleift að gefa út stuttar bækur á eigin kostnað; svosem ljóðabækur; ef nokkuð liggur við.

Einnig er nærtækara að höfundar birti styttri ljóð sín og greinar í blöðum og tímaritum en á tölvudiskum.

Ennfremur tekur því varla að birta á diski viðbótarefni af sama tagi og þegar hefur birst mikið af, eftir höfundinn, annars staðar.

Til að höfundi sé stætt á því að halda úti tölvudiskaútgáfu á eigin verkum þarf hann því helst að vera búinn að sanna sig með hefðbundnum hætti. (T.d. hefur undirritaður gefið út tvær ljóðabækur, birt mikinn fjölda ljóða og greina í blöðum og tímaritum, og er félagi í Rithöfundasambandi Íslands; sem ljóðskáld og greinahöfundur.)

Við slíkar aðstæður tel ég það vera fullgilda viðbót að gefa út á tölvudiski það sagna- eða fræðsluefni sem, vegna lengdar, hefði að öðrum kosti dregist úr hömlu að gefa út á bók.

Það væri æskilegt að fleiri, sem eru að brenna inni með óútgefin bókverk, drifu sig nú í að koma þeim út á diski; þótt ekki væri nema sem bráðabirgðaútgáfu.

TRYGGVI V. LÍNDAL,

Skeggjagötu 3,

105 Reykjavík.