TÓNLIST Geisladiskur FOUSQUE Fousque, diskur dúósins Slowblow, sem skipað er þeim Degi og Orra. Lög og textar eftir þá félaga sem leika á öll hljófæri. Gestir á plötunni eru söngvararnir Emilíana Torrini og Daníel Ágúst Haraldsson, Jón Skuggi sem leikur

Í takt og trega

TÓNLIST

Geisladiskur

FOUSQUE

Fousque, diskur dúósins Slowblow, sem skipað er þeim Degi og Orra. Lög og textar eftir þá félaga sem leika á öll hljófæri. Gestir á plötunni eru söngvararnir Emilíana Torrini og Daníel Ágúst Haraldsson, Jón Skuggi sem leikur á bassa og Ebenezer sem leikur á banjó. Hljómsveitin gefur sjálf út.

DÚÓIÐ Slowblow hefur lítið sem ekkert látið á sér kræla síðan það gaf út sína fyrstu breiðskífu fyrir fáum árum. Önnur breiðskífa, Fousque, rauf svo þögnina fyrir skemmstu.

Við fyrstu hlustun vekur helst athygli sérstæður hljómur á allri plötunni, hann er lifandi og opinn eins og tekið sé upp í stóru rými, ástæðan fyrir þessu eru líklegast frumstæð upptökuskilyrði en Slowblowliðar nýta þennan hljóm vel. Í viðtali sem undirritaður las þökkuðu þeir grænum gítarmagnara þennan hljóm.

Platan er róleg, lagasmíðarnar í samspili við áðurnefndan hljóm eru tregafullar, góð tónlist fyrir langa rigningardaga. Lögin eru svo til undantekningarlaust vel samin og útfærð, lögin Dusty couch og Surf sem minnir örlítið á Violent femmes, eru góð en enn betri eru lögin 7-up days og besta lag plötunnar, Ghost of me. Ghost of me er með betri lagasmíðum sem heyrst hafa hér á landi og sýnir að Slowblow eiga fullt erindi hvert sem þeir fara, þá er og áheyrilegt lagið Sack the organist.

Hljóðfæraleikur á Fousque er að mestu leyti einfaldur, líklegast eru meðlimirnir tveir meðvitaðir um það að þeir eru ekki mjög tæknilegir hljóðfæraleikarar, að minnsta kosti ef eitthvað er að marka nafn plötunnar, þó er ekki hægt að kvarta undan neinu, Slowblowliðar koma sínu til skila og meira þarf ekki ef hugmyndirnar eru góðar. Gítarleikur vekur sérstaklega athygli, bæði fyrir hljóminn og svo smekklega spilamennsku, "tremolo" er mikið notað sem kemur vel út, einnig eru smekklegir pákutrommutaktar og sparleg notkun á málmgjöllum eftirtektarverð.

Fáir gallar eru á plötunni Fousque, látlaus umgjörðin felur kannski svolítið góðar lagasmíðarnar svo að sum lög þurfa talsverða hlustun, en það er bæði kostur og galli og söngurinn, t.d. í My life underwater er óskýr svo textinn er illskiljanlegur. Hljómurinn á plötunni er mjúkur, hefur góðan botn sem er vel að mestu leyti en kannski heldur mikinn á stundum en þó góð tilbreyting frá hinum bjarta hljómi sem yfirleitt er á geislaplötum hér.

Slowblow er ein bjartasta von íslenskrar tónlistar í dag og geta verið stoltir af Fousque, hún er óvenjulega og skemmtilega unnin plata, ef hljómsveitin tekur sér góðan tíma til að vinna næstu plötu, í góðu hljóðveri og nær að halda sínum hugmyndum til streitu getur fátt stöðvað hana í að verða að stórveldi.

Gísli Árnason