Frá Elíasi Jóni Jónssyni ÁRIÐ 1930 er hjónin Sigurbergur Árnason og Þóra Guðmundsdóttir frá Hoffelli voru að byrja búskap í Svínafelli fóru þau að hyggja að uppbyggingu á jörðinni. Ein fyrsta framkvæmdin var bygging nýrrar hlöðu. Hlöðunni var valinn

Voru Papar með klaustur á Svínafelli í Nesjahreppi?

Frá Elíasi Jóni Jónssyni

ÁRIÐ 1930 er hjónin Sigurbergur Árnason og Þóra Guðmundsdóttir frá Hoffelli voru að byrja búskap í Svínafelli fóru þau að hyggja að uppbyggingu á jörðinni. Ein fyrsta framkvæmdin var bygging nýrrar hlöðu. Hlöðunni var valinn staður vestan við gamla íbúðarhúsið, fast við hlíðarfæturnar.

Fornminjar finnast

Fljótlega eftir að byrjað var að grafa fyrir grunni hlöðunnar, eða á rúmlega tveggja metra dýpi, var komið niður á vatnsleiðslu, gerða úr grjóti. Leiðslan virtist vera lögð úr hlíðinni þar fyrir ofan, en ekki er vitað hvaðan. Hún er gerð úr mjúku bergi, sem að því best er vitað, er aðeins að finna í svokölluðum Gelti, efst í Svínafelli. Steinarnir eru langir og kantaðir, endar þeirra felldir saman og vatnsrásin höggvin í þá hliðina, sem upp sneri, en yfir vatnsrásina voru felldar hellur. Vatnsleiðslan var tekin upp þar sem hún lá um hlöðugrunninn, sumir steinanna voru notaðir til að mynda þrep niður í hlöðuna, en aðrir eru aðgengilegir, t.d. við núverandi íbúðarhús.

Nokkru seinna ákvað Sigurbergur að útbúa nokkru neðar í túninu, það sem fyrir austan er kölluð súrheysgróf (súrheysgryfja).

Þegar grafið hafði verið nokkuð niður var komið niður á leiði.

Frágangur var þannig, að stórir kantaðir steinar voru felldir saman og mynduðu ílangan ferning, en yfir voru felldar hellur. Þegar hellunum var lyft kom í ljós beinagrind af manni. Svo vel var frá þessu gengið, að enginn jarðvegur hafði komist þarna inn og var beinagrindin alveg hrein. Beinin voru tekin upp og sett í trékassa. Að sögn var haft samband við Þjóðminjasafnið (Matthías Þórðarson), en þar á bæ virtist enginn áhugi vera á beinafundinum eða vatnsleiðslunni. Einnig var haft samband við umráðamenn kirkjugarða í nágrenninu og kannaðir möguleikar á að grafa þar beinin, en undirtektir voru litlar.

Nótt eina dreymdi Þóru húsfreyju, að til hennar kæmi kona. Sú kvaðst Droplaug heita og að það væru bein sonar hennar, sem grafarar hefðu fundið. Droplaug bað þess að beinin yrðu ekki flutt í burtu.

Sigurbergur tók því það til ráða, að grafa kassann með beinunum í botninn á gryfjunni og er hann þar enn.

Á öðrum stað í gryfjunni var komið niður á stóra hellu, gerð var tilraun til að lyfta henni með járnum, en það tókst ekki. Holt var undir helluna og töldu þeir menn heyra málmhljóð, er járnkörlum var potað þar undir. Til stóð að víkka súrheysgryfjuna, en fljótlega eftir að byrjað var á þeirri framkvæmd sást í kantinn á því, sem menn töldu vera aðra gröf og var þá hætt við.

Áhugaverðir staðir

Árið 1949 þegar byrjað var að grafa fyrir núverandi íbúðarhúsi í Svínafelli komu í ljós miklar hlaðnar rústir. Norðurveggur þeirra liggur samhliða og við framhlið íbúðarhússins og er að hluta ósnertur. Með austurvegg og samhliða liggur vatnsleiðslan, sem áður er nefnd, en ekki er vitað hvert.

Vesturvegg þurfti að rífa að nokkru leyti og var notaður til þess hertrukkur með krana og bommu, því sumt af grjótinu var ekki manntækt.

Þá ber þess að geta, að fleiri rústir virðast vera þarna því þegar lögnum var breytt, að íbúðarhúsinu og frá því fyrir nokkrum árum, rakst núverandi ábúandi, Gísli Sigurbergsson, á fleiri hlaðna veggi við þá framkvæmd.

Margir áhugaverðir staðir hvað varðar fornminjar eru í Nesjahreppi og í Austur-Skaftafellssýslu. Má þar t.d. nefna dysina undir Litla Horni, en undir skarðinu milli Hornanna telja margir að Hrollaugur hafi dvalið hinn fyrsta vetur.

Dr. Kristján Eldjárn forseti skoðaði dysina m.a. nokkuð, þegar rannsókn hans í Papey stóð yfir. Hann hafði á orði, að hann vildi rannsaka dys þessa, þegar hann hefði tíma til, en því miður enntst honum ekki aldur til þess.

Elías Jón Jónsson aðalvarðstjóri lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli og fyrrum formaður Byggðasafnsnefndar Austur-Skaftafellssýslu.

Elías Jón Jónsson