slendinga allt frá því að Arnarflug hóf að fljúga þangað á níunda áratugnum. Guðrún Hálfdánardóttir skoðaði sig um í borginni. MIKIÐ vatn hefur runnið til sjávar síðan Amsterdam var aðeins fiskimannaþorp sem stóð á eyðilegum mýrum þar sem tvær ár

Draumaborg matar- og kaffiunnandans Amsterdam hefur verið vinsæll áfangastaður Íslendinga allt frá því að Arnarflug hóf að fljúga þangað á níunda áratugnum. Guðrún Hálfdánardóttir skoðaði sig um í borginni.

MIKIÐ vatn hefur runnið til sjávar síðan Amsterdam var aðeins fiskimannaþorp sem stóð á eyðilegum mýrum þar sem tvær ár runnu saman. Fyrstu íbúarnir áttu í stöðugum erfiðleikum með að stöðva ágang sjávar og þess vegna var gerð stífla í Amstel ána. Af því hlaut borgin nafn sitt Amstel-dam. Í dag eru íbúarnir um 700 þúsund og er borgin höfuðborg Hollands, en aðsetur stjórnarinnar er í Haag.

Mjög margir ferðamenn leggja leið sína til Amsterdam ár hvert og eru Íslendingar þar engin undantekning. Vélar Flugleiða lenda um hádegisbilið á Schiphol flugvelli, sem liggur í útjaðri borgarinnar. Ef fólk á ekki pantaðan bílaleigubíl á flugvellinum þá borgar sig hiklaust að taka lest inn í miðborgina, en það er lestarstöð í flughafnarbyggingunni. Þeir sem gista á hótelum í miðbænum ættu að taka lestina á aðalbrautarstöðina og taka leigubíl þaðan á hótelið í stað þess að taka leigubíla á flugvellinum. Með þessu móti er hægt að spara sér umtalsverðar fjárhæðir auk þess sem lestin er fljótari í förum.

Freistandi veitingastaðir

Amsterdam er fræg fyrir góða veitingastaði og eru óþrjótandi möguleikar fyrir hendi á því sviði. Mér var ráðlagt af Íslendingum sem búa í borginni, að borða frekar á veitingastöðum sem eru rétt fyrir utan miðborgina heldur en á þeim sem eru í nágrenni Dam torgs. Þannig væri ég í flestum tilvikum öruggari um að fá betri og ódýrari mat heldur en í næsta nágrenni við hótelin sem Íslendingar gista yfirleitt á.

Staðurinn sem ég fór á heitir Pahop Thai, tælenskur staður á Ceintuurbaan 236. Við vorum þrjú saman og ákváðum að fá okkur sjö rétta máltíð. Fyrst fengum við innbakaðan kjúkling í bananahýði og er óhætt að segja að betri kjúkling hef ég ekki smakkað. Næsti réttur var ljúffeng fiskisúpa með risarækjum, smokkfiski og fleira góðgæti úr sjónum. Síðan fengum við fjóra ólíka rétti. Einn þeirra var kjúklingur í rauðu karrýi og kókos og var hann í sterkari kantinum fyrir viðkvæma bragðlauka. Svínakjöt með engifer og hvítlauk var mjög gott og sama má segja um nautakjöt með grænmeti og svínarif. Punkurinn yfir máltíðinni var mjög góður ávaxtaís með súkkulaðisósu og rjóma.

Pahop Thai er mjög vinsæll staður og borgar sig að hringja á undan sér og panta borð ef fólk ætlar þangað á föstudags- eða laugardagskvöldum en síminn þar er 662-1762. Ég get líka mælt með tælenskri veitingahúsakeðju sem heitir Tom Yam Thai og er að finna víða í Amsterdam. Þar er maturinn frekar ódýr og veit ég ekki um neinn sem ekki hefur verið ánægður með hann.

Mjög góður mexíkóskur veitingastaður, Rosa's Cantina, við Regulierswarsstraat 38, er vinsæll, enda er maturinn góður og í ódýrari kantinum.

Hugguleg kaffihús

Fyrir kaffiunnendur er Holland draumalandið og í Amsterdam er allt fullt af huggulegum kaffihúsum sem notalegt er að setjast inn á og fylgjast með mannlífi borgarinnar. Grand café er mjög skemmtilegt kaffihús við Waterlooplein og er upplagt að kíkja þar inn eftir að hafa ráfað um Waterloo útimarkaðinn. Á markaðnum er oft hægt að gera góð kaup í nýjum og notuðum fatnaði og þar er jafnvel hægt að kaupa íslenskar lopapeysur.

Markaðurinn á Waterlooplein er opinn alla daga nema sunnudaga frá kl. 10 til 17. Hann er þó líflegastur á laugardögum líkt og útimarkaðurinn við Albert Cuypstraat, en hann er einn sá stærsti í Hollandi. Þar er fatnaðurinn mun ódýrari en í verslununum við Kalverstraat, þrátt fyrir að oft sé um sömu eða sambærilega vöru að ræða. Nærföt og sokkar eru hræódýr þar og ýmiskonar glingur. Þar er einnig seld matvara af ýmsu tagi og er lyktin oft hræðileg í kringum fisksalana í góðu veðri yfir sumarið. Ég mæli hiklaust með því að fólk skoði báða þessa markaði, bæði vegna þess hversu ódýrt er að versla þar og hversu fjölbreytt mannlífið er í kringum þá.

Af nógu er að taka í skemmtanalífinu í þessari borg sem aldrei sefur. Flestir hafa heyrt um Rauða hverfið, sem er nálægt aðalbrautarstöðinni, þar er allt fullt af krám og ýmsu sem er óleyfilegt á Íslandi. Þeir ferðamenn sem hafa áhuga á að skoða sig um í Rauða hverfinu skulu gæta vel að peningaveskjum, en í þessum bæjarhluta er mesta hættan á að vera rændur enda hvergi meira um eiturlyfjaneytendur en þar.

Westergas fabrik er mjög vinsæll dansstaður um þessar mundir í Amsterdam. Gallinn er hinsvegar sá að hann er langt frá miðbænum og því nauðsynlegt að taka leigubíl þangað. Aðrir skemmtilegir dansstaðir eru Roxy, Odion, Arena, Melkeweg, Paradiso og Frank rijk, sem býður upp á pönktónlist, ólíkt hinum þar sem er spiluð danstónlist.

Til þess að fá nánari upplýsingar um staðina er best að leita til starfsfólks í afgreiðslu hótelanna. Það getur leiðbeint um hvernig best er að komast þangað og hvort einhverjar sérstakar uppákomur séu í gangi í borginni. Eins veita hótelstarfsmenn upplýsingar um síkjasiglingar sem hægt er að fara í jafnt á degi sem kvöldi.

Hús Önnu Frank ógleymanlegt

Í Amsterdam er af nógu af taka hvað varðar afþreyingu. Mjög góð listasöfn eru í borginni og heimsókn í hús Önnu Frank er öllum ógleymanleg sem þekkja dagbók hennar þar sem hún lýsir lífi fjölskyldu sinnar í seinni heimstyrjöldinni.

Best er að heimsækja söfnin í miðri viku vegna þess hversu mikið af fólki er þar um helgar.

Það er ljóst að engum þarf að leiðast í þessari yndislegu borg og þrátt fyrir að ég hafi oft komið til Amsterdam þá er ég hvergi nærri hætt, enda fullt eftir af freistandi kaffi- og veitingahúsum sem ég á eftir að prófa.

Morgunblaðið/Guðrún

Á ÚTIMARKAÐNUM við Waaterlooplein er ekki bara seldur fatnaður heldur er einnig hægt að kaupa þar hræódýrar bækur og plötur.

SÍKJASIGLINGAR eru mjög vinsælar af ferðamönnum í Amsterdam og er bæði hægt að fara í þær á daginn og á kvöldin en þá er yfirleitt um lengri siglingar að ræða þar sem boðið er upp á rauðvín og osta við kertaljós.

GÓÐ kaffihús leynast oft í litlum hliðargötum.