Sýna steypireyði næsta sumar Eyjaferðir í Stykkishólmi ætla að sýna steypireyði, stærsta dýr veraldar, í sumar. Eigandi fyrirtækisins, sem er gamall hvalfangari, segir Helga Bjarnasyni frá þeirri skoðun sinni að hagkvæmara sé að sýna hval en veiða.

Nýir möguleikar hjá Eyjaferðum með stærra skemmtiferðaskipi

Sýna steypireyði næsta sumar Eyjaferðir í Stykkishólmi ætla að sýna steypireyði, stærsta dýr veraldar, í sumar. Eigandi fyrirtækisins, sem er gamall hvalfangari, segir Helga Bjarnasyni frá þeirri skoðun sinni að hagkvæmara sé að sýna hval en veiða.

"VIÐ þurfum stöðugt að bjóða upp á nýjar ferðir. Nýja skipið tekur stærri hópa og verður í lengri ferðum en það eldra. Við teljum að við höfum markað fyrir það líka, meðal annars með því að bjóða upp á skoðun stórhvala," segir Pétur Ágústsson skipstjóri í Stykkishólmi um tveggja skrokka skemmtiferðaskipið Brimrúnu, sem Eyjaferðir hafa keypt í Noregi. Pétur og kona hans, Svanborg Siggeirsdóttur, eru eigendur Eyjaferða.

Eyjaferðir hafa í mörg ár verið með ferðir á Breiðafirði, aðallega styttri ferðir. Síðastliðin tíu ár hefur skip þeirra, Hafrún, mest verið notað. Það tekur 50 manns og alls hafa um 10 þúsund manns farið í ferðir með því á hverju ári. Vonast Pétur til að fá 14-15 þúsund manns næsta sumar og að viðskiptin aukist síðan áfram. Hafrún verður í styttri skoðunarferðum en Pétur segir að reynt verði að létta álaginu á henni enda hafi það verið orðið of mikið. Þá sé ekki gott fyrir fyrirtæki eins og þetta að þurfa að treysta algerlega á eitt skip.

Brimrún er tvíbytna, byggð úr áli og tekur 130 farþega. Er þetta fyrsta tveggja skrokka skipið í eigu Íslendinga. Skipið er stöðugt og segir Pétur að það hafi sýnt sig á leiðinni frá Noregi. Það er því þægilegt til farþegaflutninga, enda var það notað sem ferja í Norður-Noregi áður en Pétur keypti það.

Þekkir blásturinn

Pétur telur að markaður sé fyrir nýja skipið og ætlar meðal annars að bjóða hvalaskoðunarferðir með sérstakri áherslu á stórhveli. Með því ætlar hann að skapa sér sérstöðu á þessum markaði. Einnig er hugmyndin að bjóða dagsferðir í Flatey og jafnvel upp á Barðaströnd og til tals hefur komið að fara út að Látrabjargi með viðkomu í Flatey og skoða bjargið frá sjó. Þá verður skipið einnig notað í styttri ferðir með hópa sem áður þurfti að vísa frá eða skipta.

Pétur hefur mikið hugsað um möguleika hvalaskoðunar og með nýja skipinu gefst honum tækifæri til að fara inn á þann markað sem talinn er vaxandi. "Áætlað er að um 9 þúsund manns hafi farið í hvalaskoðunarferðir hér við land í sumar, aðallega frá Húsavík. Innlendir og erlendir sérfræðingar sem við höfum rætt við telja að vinsældir ferðanna muni aukast mjög og innan fárra ára fari 40 þúsund manns í þessar ferðir ef nægilegt framboð verður á áhugaverðum ferðum. Mest eru þetta útlendingar. Hvalaskoðunarferðir eru mikilvægur þáttur í ferðaþjónustu ýmissa landa. Þar hefur Ísland varla komist á blað. Sérfræðingarnir segja að við eigum alla möguleika á þessum markaði," segir Pétur.

Pétur Ágústsson er gamall fiskiskipstjóri og var á hvalbáti um tíma. Hann segist því þekkja blásturinn og segir að hægt sé að ganga að steypireyð, stærsta núlifandi dýri jarðarinnar, vísri grunnt út af Öndverðarnesi allt sumarið. Hann ætlar að bjóða tvær ferðir í viku til að byrja með og þær verða lengri en þær hvalaskoðunarferðir sem þekktastar eru hér á landi, eða sex tíma ferðir. "Mér er sagt að ferðir þar sem nokkuð örugglega er hægt að skoða steypireyði muni vekja athygli og draga að. Fólk sem hefur þennan áhuga þarf alltaf að reyna eitthvað nýtt. Með því að fara lengra út er einnig hægt að finna langreyði og búrhval," segir hann og bætir því við að nóg sé að hrefnu um allan Breiðafjörð.

Á báðum áttum

"Ég hef verið hlynntur hvalveiðum síðan ég var sjálfur á þessum veiðum. Eftir að ég fór að kynna mér þessa möguleika varð ég vissulega á báðum áttum og er raunar kominn á þá skoðun að ekki megi leyfa veiðar ef tekjur af hvalaskoðun verða jafn miklar og rætt er um," segir Pétur þegar hann er spurður að því hvort sjónarmið gamla hvalfangarans vefjist ekkert fyrir honum í nýju hlutverki.

"Ég veit að nóg var af hval þegar veiðum var hætt og ekki hefur honum fækkað síðan. Því var ég alltaf hlynntur því að veiðar yrðu teknar upp aftur. Þegar ég er að fara út í þessa starfsemi kemur annað viðhorf, því verður ekki neitað, því ég geri mér grein fyrir því að erfitt verður að sýna hvalina ef farið verður að veiða þá. Þó að maður myndi reyna að forðast svæði þar sem bátar eru á hvalveiðum myndu veiðarnar styggja hvalinn, maður hefur séð mörg dæmi um það. Einnig er hætta á að veiðarnar myndu vekja andúð á Íslandi í huga þess fólks sem hefur áhuga á hvalaskoðun. Því fer það ekki saman að sýna hvali og veiða.

Þá þarf að meta það hvort er arðbærara fyrir þjóðarbúið. Þar á ég ekki eingöngu við ferðirnar sjálfar heldur alla aðra þjónustu sem fólkið nýtir sér. Mér sýnist einboðið að við látum reyna á möguleika hvalaskoðunarinnar og ef væntingar manna ganga eftir þá verður það mun hagkvæmara fyrir þjóðina en að veiða hvali, sérstaklega þegar ekki er hægt að selja kjötið af þeim," segir Pétur.

Morgunblaðið/Helgi Bjarnason PÉTUR Ágústsson og Svanborg Siggeirsdóttir í farþegasalnum á nýja skemmtiferðaskipinu.

Morgunblaðið/Gunnlaugur Árnason BRIMRÚN, nýtt skip Eyjaferða, kemur í fyrsta skipti til heimahafnar í Stykkishólmi.