ra fólk þangað líka Sama strönd og hótel ­ helst sama íbúð og í fyrra og öll hin árin TALSMÖNNUM ferðaskrifstofa, sem selja ferðir til Kanaríeyja í vetur, ber saman um að farþegar séu í auknum mæli yngra fólk þótt enn séu eldri borgarar stærsti hópurinn.

Eldri borgarar hafa um árabil farið til Kanaríeyja á veturna en núna hópast yngra fólk þangað líka

Sama strönd og hótel ­ helst sama íbúð og í fyrra og öll hin árin TALSMÖNNUM ferðaskrifstofa, sem selja ferðir til Kanaríeyja í vetur, ber saman um að farþegar séu í auknum mæli yngra fólk þótt enn séu eldri borgarar stærsti hópurinn. Ekkert lát virðist á vinsældum eyjanna og búist er við að farþegafjöldi aukist um allt að 10% miðað við árið 1996, þrátt fyrir að þá hafi aukningin verið óvenju mikil miðað við árið á undan.

Frá byrjun nóvember til 9. apríl fljúga Flugleiðir vikulega til Kanaríeyja og selur flugfélagið í 75 sæti, Úrval/Útsýn og Plúsferðir samtals í jafnmörg og Samvinnuferðir/Landsýn í 40. Hins vegar bjóða Heimsferðir beint leiguflug með spænsku flugfélagi.

Ferðamáti breyst undanfarin ár

Helgi Jóhannsson, framkvæmdastjóri Samvinnuferða/Landsýnar segir að fyrir fimm árum hafi vinsældir Kanaríeyja minnkað lítillega og fólk sótt fremur til Flórída. Fréttir um að evrópskir ferðamenn væru oft rændir þar ytra telur hann að hafi orðið til þess að ásókn jókst aftur til Kanaríeyja. Þrátt fyrir íhaldssemi landans varðandi Kanaríeyjar segir Helgi að ferðamáti Íslendinga hafi breyst töluvert undanfarin ár. "Í könnun sem Félagsvísindastofnun gerði fyrir okkur um miðjan desember kom í ljós að jafnmargir fara í frí til útlanda á tímabilinu maí til september og október til desember. Úrtakið var 1500 manns og ætti því að vera nokkuð marktækt," segir Helgi.

Hjá Flugleiðum fengust þær upplýsingar að enn væru nokkur sæti laus til Kanaríeyja fram á vor en þó fullbókað í sumar ferðir. Sama máli gegndi hjá ferðaskrifstofunum og virðist fólk þegar farið að huga að páskafríinu sínu.

Hópferðum til Agadir aflýst

Þótt Úrval/Útsýn hafi boðið upp á skipulagðar hópferðir til Agadir í Marokkó síðastliðin tvö ár segir Goði Sveinsson, markaðsstjóri, að lítt hafi þokast að beina Íslendingum á nýja áfangastaði og nýlega hafi verið afráðið að aflýsa hópferðum þangað. "Við buðum ferðirnar á svipuðu verði og til Kanaríeyja, verðlag er þar lægra, gistirými í hærri gæðaflokki og að okkar mati hefur Agadir margt umfram Kanaríeyjar. Vitaskuld olli lítil ásókn okkur vonbrigðum, en í augum Íslendinga virðist ekkert skáka Kanaríeyjum yfir vetrarmánuðina.

Heimsferðir bjóða upp á beint leiguflug vikulega með spænska flugfélaginu LTE. Andri Már Ingólfsson, framkvæmdastjóri, segir að þegar sé búið að bóka 40% meira en á sama tíma í fyrra, en sætaframboð frá 20. október sl. til 8. apríl er samtals þrjú þúsund sæti.

Ferðaskrifstofan Plúsferðir býður nú í fyrsta sinn Kanaríeyjaferðir. Að sögn Laufeyjar Jóhannsdóttur, framkvæmdastjóra, sem um árabil starfaði hjá Ferðaskrifstofunni Alís, er vaxandi áhugi á slíkum ferðum. "Sama fólkið fer ár eftir ár í hópinn og er ótrúlega íhaldssamt. Fólk vill fara í sólina með fararstjóra til halds og trausts, alltaf vera á sömu ströndinni, á sama hótelinu og í íbúð t.d. 412 eins og í fyrra, hittifyrra og öll árin þar áður."