"Hugvitsamastur allra arkitekta" var á sínum tíma sagt um spánska arkitektinn Antoni Gaudí. Elín Pálmadóttir gat fallist á það á ferð í Barcelona að þetta væri nærri lagi. Þar í borg gefur að líta flestar af hinum frægu byggingum hans, sem enn draga að

Gaudí ARKITEKTINN HUGVITSSAMI

"Hugvitsamastur allra arkitekta" var á sínum tíma sagt um spánska arkitektinn Antoni Gaudí. Elín Pálmadóttir gat fallist á það á ferð í Barcelona að þetta væri nærri lagi. Þar í borg gefur að líta flestar af hinum frægu byggingum hans, sem enn draga að íslenska sem erlenda ferðamenn.

ARCELONA er mikil menningarborg, bæði frá gamalli tíð og síðustu öldina hafa Spánverjar verið æði stórtækir við að veita henni andlitslyftingu að gefnum tilefnum, svo sem fyrir heimssýningarnar 1888 og 1929 og fyrir Ólypíuleikana 1992, þegar reistar hafa verið listrænar stórbyggingar og opnuð merk söfn í sérhönnuðum byggingum, svo sem Mírosafnið, Pícassosafnið og Tapiesstofnunin.

Íslendingar þeir sem streymt hafa í tveimur flugvélaförnum vikulega á þessu hausti til Barcelona hafa þar komist í gósenland þeirra sem áhuga hafa á byggingarlist, enda sýnishorn af verkum margra heimsfrægra seinni tíma arkitekta, svo sem hið nýja umdeilda Nútímasafn eftir Bandaríkjamanninn Richard Mayer, bygging eftir arkitektinn fræga af Bauhaus-kynslóðinni, Mies van der Rohe, frá 1927, sem rifin var og endurreist, svo og Kataloníusafnið frá sama tíma og nýlega endurnýjað af ítalska innanhúsarkitektinum Gae Aulenti, er endurgerði Orlysafnið, byggingar eftir spánska arkitektinn Bofil á Olmpíuhæðinni og nýlega súlulausa risaíþróttahúsið þar sem nú var verið að hefja stórsýningu á óperunni Aidu, safnbygging yfir verk málarans Antonis Tapies, sem Lluis Doménech i Montaner teiknaði sem prentverk 1884, svo drepið sé á nokkrar. En sá síðastnefndi er nánast samtímamaður Antonis Gaudí og má sjá hin sérkennilegu hús þeirra hlið við á einni aðalgötunni Passage de Gracia.

Nú 70 árum eftir dauða arkitektsins mikla Antonis Gaudí vekja verk hans kannski mesta athygli þeirra sem til Barcelona koma. Ekki hefur maður lengi rölt á Römblunni, göngugötunni þar sem allir spóka sig, þegar maður finnur fyrir áhrifum hans í götuhellunum, sem lagðar eru í sveigum og ávölum bylgjum eins og gengið sé á gáruðum haffleti. Og í gamla hliðartorginu Reial Placa má innan um pálmatré sjá fyrstu götuljósin sem borgin fékk Antoni Gaudí til að hanna á því í herrans ári 1878. Þetta er þó aðeins forsmekkur stórverka hans, enda fer enginn svo í kynnisferð um borgina að ekki séu aðalviðkomustaðirnir hinn mikli Guelgarður Gaudis og kirkjubyggingin Sagrada Familia sem hann byrjaði á 1882, og er enn í byggingu. Reiknað með að taki a.m.k. 100 ár í viðbót, ef henni verður nokkurn tíma lokið.

Eins og ölduhreyfing

En það af verkum hans sem mest heillaði þennan skrifara voru þó sambýlishúsin á Gracia götunni, Casa Battlo frá 1904-1906 og einkum stóra bylgjandi hornhúsið Casa Mila frá 1906-1910. Í þessum tveimur íbúðasamstæðum skapaði Gaudí algera nýjung í byggingarstíl. Framhlið þess fyrrnefnda er með grænni slikju, sem í bogalínunum verður eins og öldur með svolítilli froðukórónu. Gluggasyllurnar og svalirnar eru eins og þær hafi verið mótaðar úr leir. Þótt framhliðin rísi á milli tveggja sambýlishúsa, er eins og hún sé á hreyfingu, rísi og hnígi. Þetta er íbúðarhús en með því að smeygja mér inn í ganginn sá ég hvernig birtan sem kemur niður um mjóan húsagarð í miðju húsi leikur um allar bogalínurnar í lofti og veggjum og stiganum upp og hvernig glerflísarnar á veggjunum lifna. Maður stóð andaktugur.

Hornhúsið bylgjaða

Casa Mila ofar við götuna er gríðarmikið hornhús, sem teygir sig inn í göturnar beggja vegna og engin lína bein eða endurtekning. Þótt þarna sé ekki litur virðist hliðin öll samt ganga í bylgjum. Rúnnuðu útskotsgluggarnir standa út úr húsinu eins og býflugnabú með járnvíravirki. Þessar fljótandi bylgjur halda áfram inn í húsið, sem opið er gestum. Enginn beinn veggur, allt eins og það hafi mótast af sjálfu sér. Upp í gegn um blokkina ganga tveir húsagarðar, sem gefa tækifæri til að veita fínni birtu inn hér og þar. Uppi getur maður áttað sig á hvernig Gaudi fór að því að byggja svona hús án burðarsúlna inni. Einhvers staðar sá ég haft eftir honum um þessa byggingu og ekki síður kirkjubygginguna miklu hvert hann sækti fyrirmyndina:"Þetta er eins og tré sem ber greinar, þær aftur teinunga og þeir svo lauf, sem allt teygir sig upp á við."

Þarna uppi skildi ég loksins hvernig hann teiknaði ekki burðinn á bogum og súlum heldur prófaði sig áfram með hann hverju sinni. Hann bjó til líkan úr strengjum, sem minnir á óróa og hengdi í þá litla sandpoka, til að þreifa fyrir sér um burðarþol viðkomandi boga eða súlu. Þessu líkani var svo snúið á hvolf til að mynda hvelfingarnar. Þó það væri útskýrt skildi ég ekki þessi vísindi fyrr en ég sá líkanið hangandi og spegil undir, svo þetta líktist stundaglasi. Nú er þessi aðferð ekki óþekkt, en þá byggði Gaudí stórbyggingar eftir hendinni. Gerði tilraunir á staðnum, breytti og lagfærði af tilfinningu fyrir rýminu, svo verkamennirnir vissu aldrei hvaðan á sig stóð veðrið. Ekkert í þessu húsi er hefðbundið, línurnar á hverri hæð eru öðruvísi en á þeirri næstu, lofthæðir eru mismunandi og veggir sveigðir. Öll form eru teygð og mótuð. Birtan kemur líka einhvers staðar frá og lífgar hér og þar. Upp af þakinu rísa furðuturnar. Þar sem engin miðstöðvarhitun var þá, en hvert herbergi hitað upp með eigin arni, þurfti ótal strompa. Og það tækifæri notaði Gaudi sér til að gera uppi á húsþökunum hina furðulegustu skúlptúrturna. Í þessu húsi rekst maður við hvert fótmál á óvænta sýn. Ofan af þakinu er líka gott útsýni yfir borgina. En undir húsinu mun vera fyrsta neðanjarðarbílastæði borgarinnar, þá gert fyrir hestvagna.

Sérkennilegur snillingur

Líf Gaudis var fullt af andstæðum. Hann var fátækur drengur sem kom til Barcelona úr þorpinu sínu til að læra byggingarlist og teiknaði sér til lífsviðurværis. Sem ungur maður sótti hann samkvæmislífið í tískuklæðum spjátrunga, en seinni hluta ævinnar lifði hann og klæddist eins og umrenningur. Hann gekk snemma til liðs við sjálfstæðisbaráttu Katalóníumanna og sagt er að í list sinni hafi hann verið katalónskastur alla. Þá gagnrýndi hann kirkjuna óspart en fórnaði síðustu áratugum ævi sinnar nær eingöngu í byggingu einnar kirkju, helgs Jóseps og hans heilögu fjölskyldu, Maríu og Jesú, Sagrada Familia. Síðustu 12 árin var Gaudí fluttur á byggingarstað og gekk svo ræfilslega til fara að þegar eitt kvöldið var ekið á hann vildi enginn leiguvagn taka upp þennan róna og flytja á spítala. Þar fannst hann fimm dögum seinna. Er hann dó hafði hann lengi verið dáð þjóðhetja. Og hálf Barcelona fylgdi honum frá spítalanum að hálfbyggðri kirkjunni hans , þar sem hann hvílir í grafhvelfingunni.

Sagrada Familia

Annar arkitekt var byrjaður á grafhvelfingunni á þessari miklu kirkju í vaxandi almúgahverfi í útjaðri Barcelona þegar ungi arkitektinn Antoni Gaudí tók við verkinu 1883. Þessi kirkja átti að vera andsvar við vaxandi iðnverum og til varnar gömlum gildum og því var hún helguð verndardýrlingi borgarinnar, Jósep, og síðan allri hinni heilögu fjölskyldu. Kennd við hana, Sagrada Familia. Gaudí varð heltekinn af þessu verkefni, sem hann helgaði síðustu 42 ár ævi sinnar, var á vinnustað og mótaði og teiknaði jafnóðum. Ekki er hægt að gefa neina viðhlítandi lýsingu á þessari kirkju þar sem miðturninn gnæfir í 200 m hæð. Klukkuturnarnir eiga að vera 12, ímynd postulanna sem urðu biskupar, fjórir á hverri af þremur hliðum kirkjunnar, sem helgaðar eru: jarðvist Krists, píslargöngu hans og þjáningu. Hver hlið að sýna dýrð hans með höggmyndum úr viðkomandi viðfangsefni.

Aðeins austurhliðin var tilbúin með öllum sínum biblíumyndum þegar Gaudi féll frá. Fyrir myndlistina á píningarhliðina þurfti því að fá annan myndhöggvara, Josep M. Subirachs, og eru myndir hans lausar frá veggnum. Enn er verið að vinna að byggingu þriðju kirkjuhliðarinnar. Inni í kirkjunni horfir maður upp í heiðan himin, því þakið vantar enn. En rýmið er súlulaust. Gaudí efaðist aldrei um að þessu gígantíska verki yrði lokið, en það gengur hægt, ekki síst af því að kirkjuna á eingöngu að byggja fyrir söfnunarfé frá almenningi. Og ekki hjálpar að Gaudí skildi ekki eftir sig vinnuteikningar heldur skissur sem hann hefði sjálfur haldið áfram að breyta. En sjá má af vinnukrönum að verkið er í fullum gangi og hvernig það er unnið.

Garðurinn með snákabekknum

Annað af þeim verkum Gaudís, sem gestir sækja mest, er stór útivistargarður, þar sem sjá má og þekkja sveigjur og mósaikverk í litríkum gaudístíl um allan garð, hvort sem er í bekkjum, tröppum eða bogagöngum og jafnvel húsum. Gaudí hafði kynnst iðjuhöldinum Eusebi Guell á heimssýningunni í Paris 1878, sem leiddi til ævilangrar vináttu þeirra. Sá hafði heillast ef ensku görðunum og vildi fá almenningsgarð. En Gaudi byrjaði á að byggja fyrir Guell hús sem varð að höll og er í þessum garði sem við hann er kenndur. Það mun hafa verið í bókasafni þessa múrsteins- og postulínsframleiðanda að Gaudí komst í snertingu við hugmyndir Williams Morris um Art Nouveau. En víða má sjá þess merki að hann ungur var handgenginn mára- og arabalist og hafði á æskuárum kynnst neogotík Viollets-le-Ducs. Smám saman þróaði hann sinn eigin stíl og allar líkingar við annað hurfu. Haft var eftir honum að byggingarlist fyrri tíma gæti orðið innblástur en aldrei eftirlíking.

Þessum 50 ekra garði var aldrei lokið eins og upphaflega var áformað. En þarna er býsna margt sérkennilegt. Líklega stöðvast flestir helst við "snákabekkinn". Til að hindra fólk í að falla niður af stóru samkomutorgi í miðjum garði var það umkringt vegg sem vindur sig í formi langs bekkjar allt í kring um torgið svo þar geta setið þúsundir manna. Þennan bekk hefur Gaudí skreytt mosaikmyndum úr postulínsbrotum, sem hann nýtti úr verksmiðju vinar síns, og sem hrinda frá bleytu, auk þess sem vatn er leitt úr sætunum og út fyrir torgið. Mosaikin er lífleg og síný og langi bekkurinn, sem líkist gríðarlegum höggormi, sýnir að Gaudi var í senn málari og myndhöggvari. Þannig getur fjöldi manns fengið sæti saman eða setið í smáhópum í innskotunum, vegna þess hvernig hann liðast út og inn. Húsið, sem Gaudi bjó sjálfur í með öldruðum föður og frænku áður en hann flutti alfarið á byggingarstaðinn í Sagrada Familia, er þarna líka til sýnis.

Hér verður ekki reynt að lýsa fleiri af verkum þessa einstæða húsameistara. Sérkennileg eru þau og hefur verið lýst á ýmsan hátt, svo sem "sefandi vin í eyðimörk hefðbundinna bygginga" eða "dýrgripir í einhæfri grámósku húsaraðanna" og sjálfur hefur Gaudí verið nefndur "Dante byggingarlistarinnar".

Raunar er öll borgin mjög forvitnileg. Þrátt fyrir gífurlega umferð hefur við skipulag hennar verið sniðið af öllum götuhornum - á sínum tíma til að herir ættu þar greiða leið ­ svo torgin sem þau mynda verða víð og rúmgóð, auk þess sem gert er ráð fyrir rými fyrir gangandi fólk á breiðgötum.

CASA Mila er gríðarmikið hornhús, sem virðist ganga í bylgjum og járnvíravirkið á svölunum verður eins og toppurinn á öldunum. Engin lína, hvorki inni né úti, er bein. Á þakinu eru strompar sem Gaudí hefur gert að stórum skúlptúrum.

FRAMHLIÐIN á Casa Battlo hefur græna slikju og er eins og löður, en svalirnar eru líkt og mótaðar úr leir, eins og sést á myndinni af efri hluta hússins. Öðrum megin við sambýlishúsið er hús eftir samtímamann Gaudís, Montaner, og má á minni myndinni sjá gluggagerð á neðri hlutum beggja húsanna.

SAGRADA Familia heitir þessi makalausa kirkja sem enn er í byggingu eftir heila öld, enda turnarnir 12 og hver hinna þriggja hliða þakin listaverkum. Inni eru engar súlur og horft er upp í heiðan himin, því þakið vantar. En þó streymir fólk alls staðar að úr heiminum til að skoða hana.

ÍSLENDINGUR hvílir sig á snákabekknum sem liðast, skreyttur mosaik, utan um gríðarmikið útitorg í þessum garði Gaudís. Þar geta þúsundir manna setið saman eða í smáhópum í sveigunum.

AUÐUR Gná Ingvarsdóttir fyrir framan kirkjuna Sagrada Familia Hún er í arkitektanámi í Barcelona og sýnir íslenskum ferðmönnum borgina.

STRAX á aðalgöngugötunni, Römblunn,i finnur maður fyrir áhrifum Gaudís, því götuhellurnar eru lagðar í ávölum sveigum og mildum bylgjum, eins og sé gengið á gáruðum haffleti.

ÞETTA hús sem aktitektinn Montaner byggði um 1880 hýsir nú safn listmálarans Tapies, sem hefur sett sitt merki á þakið með listaverki úr vírum.