ÞAU STÓÐU í skjóli af trjánum en blöstu þó við eins og skuggamyndir sem soga í sig síðustu dreggjar desembersólarinnar. Samt var miður dagur. Snjóföl á jörðu og birti upp Hljómskálagarðinn. Þau stóðu milli grannra birkihríslnanna og hússins og gatan

Það er tími ástarinnar

ÞAU STÓÐU í skjóli af trjánum en blöstu þó við eins og skuggamyndir sem soga í sig síðustu dreggjar desembersólarinnar. Samt var miður dagur. Snjóföl á jörðu og birti upp Hljómskálagarðinn. Þau stóðu milli grannra birkihríslnanna og hússins og gatan blasti við. Dauf birta af bílljósum á húsvegg handan götunnar.

Hann var í frakka, hún í kápu. Sem sagt svalur vetrardagur. Við sáum aftan á þau en samt var hægt að greina vangasvipinn því þau litu hvort á annað og hún teygði höfuðið að andliti hans og það var engu líkara en hún hefði svansháls og augljóst þau horfðust í augu. Skuggarnir hættir að flökta og hríslurnar hreyfðust ekki í blæstrinum. Myndræn þögn þar sem hendur þeirra mættust.

Þau minntu helzt á tvö lítil börn en þó var það fráleitt svo hávaxin sem þau voru, sérstaklega hann með þetta stóra höfuð og þessar þreknu karlmannlegu herðar. Hún var öll fínlegri þótt hávaxin væri og það mátti gera sér í hugarlund vel formaðan vanga hennar og það lýsti af hárinu sem var tekið upp í hnakkanum. Hann var svarthærður, vel klipptur.

Við getum virt þau fyrir okkur eins lengi og við viljum. Við getum séð sjálf okkur í þessum hreyfingarlausu skuggum, horft á einn dag í lífi okkar löngu liðinn. Eða vorum við ekki einhvern tíma á ferð á svipuðum slóðum þegar allt var fögnuður og eftirvænting. Ekki sízt svart vetrarmyrkrið og hvítt föl sem lýsir upp granna skugga og myndir sem annars væru máðar út. Við getum einnig gert okkur þau í hugarlund þar sem þau standa grafkyrr og minna á tvo erfðavísa sem leita hvor annan uppi í gerfrumunni, dragast af einhverjum ástæðum hvor að öðrum í fryminu, renna sem snöggvast saman í eina veru; minna á tvær stjörnur sem toga hvor aðra með sér, sameinast og hverfa í þeirri svipan sem orka þeirra er til annars ætluð. Og þarna standa þau á höfði áður en augu okkar snúa þeim rétt í þessari hraðfleygu tilveru sem sviptir þau allri hreyfingu á þessu andartaki.

Við höfum spurt sjálf okkur hver þau séu og hvað þau séu að gera þarna í garðinum. Eru þau að kveðja hvort annað, kannski að eilífu? Eru þau gift eða er ást þeirra í meinum? Hvað skyldu þau vera að hugsa á þessari stundu? Eða trén?

Skilja þau eftir sál sína á þessum stað og fara svo með kvíða og brostnar vonir inní hversdagslegt amstur? Þau sem haldast í hendur á þessari hreyfingarlausu stund og eiga enga tilveru utan þessa áleitna augabragðs þegar blaðaljósmyndarinn smellir af á því hárfína sekúndubroti þegar skuggi vex úr flöktandi geisla og fölri birtu.

Nú er blaðið löngu komið í öskutunnuna en myndin hefur festst í huga okkar sem þekktum þau ekki. Þau hjálpuðu okkur að vakna af svefni sem var í þann veginn að breytast í draumlausa martröð. En við gáfum þeim líf sem þau hafa ekki lifað.

Þau sem eru hvergi til nema í huga okkar.

M.