LEEPERS er tólfta kvikmyndin sem Barry Levinson leikstýrir, en hann hefur spannað vítt svið og sýnt fjölbreytni í verkefnavali. Þannig eru myndir hans flestallar mjög frábrugðnar hver annarri og verður seint sagt um myndirnar að þær beri einhver

Fjölbreyttur ferill

LEEPERS er tólfta kvikmyndin sem Barry Levinson leikstýrir, en hann hefur spannað vítt svið og sýnt fjölbreytni í verkefnavali. Þannig eru myndir hans flestallar mjög frábrugðnar hver annarri og verður seint sagt um myndirnar að þær beri einhver sérstök höfundareinkenni leikstjórans.

Levinson er fæddur 6. apríl 1942 í borginni Baltimore í Maryland-fylki og þar stundaði hann menntaskólanám samhliða því sem hann starfaði sem sölumaður hjá föður sínum, sem rak heildverslun. Síðar vann hann hjá sjónvarpsstöð á meðan hann stundaði nám í blaðamennsku við Ameríska háskólann í Washington, en eftir að hafa verið þar við nám með hléum í sjö ár án þess að ljúka prófi gafst Levinson upp og fluttist til Los Angeles þar sem hann lærði leiklist og fleira sem tengist leikhúsvinnu. Hann hóf að starfa í grínklúbbum þar sem hann lærði að skrifa handrit, og árið 1967 vann hann til verðlauna fyrir handrit sem hann skrifaði fyrir grínþátt í sjónvarpi. Árið 1970 byrjaði hann að skrifa handrit fyrir The Carol Burnett Show og vann hann fyrir þau tvenn Emmy verðlaun á þremur árum. Levinson var þar með orðinn vel þekktur sem handritshöfundur og réð Mel Brooks hann til að vinna að gerð handrita myndanna Silent Movie (1976) og High Anxiety (1979), en Levinson fór reyndar með smáhlutverk í báðum myndunum. Árið 1975 kvæntist hann leikkonunni Valerie Curtin (All the Presidents Men) og saman skrifuðu þau kvikmyndahandritið að myndinni ...And Justice for All (1979), sem Al Pacino lék aðalhlutverkið í. Þau skildu árið 1982, en skrifuðu saman handritin að myndunum Inside Moves (1980), Best Friends (1982) og Unfaithfully Yours (1984).

Levinson skrifaði hins vegar einn handritið að Diner (1982) og byggði hann það á eigin endurminningum frá Baltimore, og hlaut myndin mjög góðar viðtökur. Levinson hélt sig því við leikstjórnina og næst gerði hann myndina The Natural (1984), og síðan Young Sherlock Holmes (1985), en aftur leitaði Levinson til endurminninganna og á heimaslóðir í Baltimore þegar hann gerði grínmyndina Tin Men (1987). Ári síðar gerði hann svo Good Morning Vietnam, en straumhvörf urðu í lífi Levinsons þegar næsta mynd hans leit dagsins ljós. Það var myndin Rain Man (1988) með þeim Dustin Hoffman og Tom Cruise í aðalhlutverkum. Myndin hlaut geysimikla aðsókn, Gullbjörninn í Berlín og fern Óskarsverðlaun.

Enn á ný snéri Levinson til Baltimore endurminninganna þegar hann gerði Avalon (1990), síðan kom Bugsy (1991) sem tilnefnd var til fjölda Óskarsverðlauna. Ferill Levinsons hafði nú verið rakleiðis upp á við allt frá frá fyrstu byrjun, en loks kom að því að hann gerði mistök og olli miklum vonbrigðum. Það var þegar hann gerði Toys (1992). Árið 1993 hleypti Levinson af stokkunum sjónvarpsþáttaröðinni Homicide: Life on the Streets og hlaut hann margvísleg verðlaun fyrir þáttaröðina. Næsta kvikmynd hans var Jimmy Hollywood (1994) sem gerði það ágætt, og sama ár var svo Disclosure með þeim Michael Douglas og Demi Moore frumsýnd, en hún sló rækilega í gegn. Myndin var gerð eftir skáldsögu Michaels Crichtons, og um þessar mundir vinnur hann að gerð annarrar myndar eftir skáldsögu eftir Crichton. Það er vísindatryllirinn Sphere sem byggir á sögu sem fyrst var gefin út árið 1987, og með aðalhlutverk í myndinni fara þeir Dustin Hoffman og Andre Braugher, sem leikið hefur í sjónvarpsþáttunum Homicide: Life on the Streets.

BARRY Levinson ásamt Kevin Bacon við tökur á Sleepers.