Bjarney Guðrún Sigurjónsdóttir Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér. Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi, og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

Stuttri en snarpri baráttu er lokið. Sjúkdómurinn illvígi, krabbameinið, hafði betur. Barátta Diddu fyrir lífi sínu stóð aðeins í tæpa fjóra mánuði. Sjúkdómurinn greindist í september síðastliðnum, í lok desember hafði hann dregið hana til dauða.

Þetta hefur verið erfiður tími fyrir alla fjölskylduna, en Birgir stóð við hlið hennar eins og klettur í veikindunum. Engan óraði fyrir því að tíminn yrði svo naumur. Sjálf vonaði hún heitt og innilega að fá að lifa það að eignast sitt fyrsta barnabarn, sem von er á í marsmánuði. Sú ósk rættist ekki og minnir okkur óþægilega á að enginn má sköpum renna.

Ég kynntist Diddu fyrir rúmum tveimur áratugum þegar við hófum að vinna saman á vistheimilinu Sólborg. Deildin, Miklahlíð, bar nafn með rentu, hún var stór og erfið og reyndi á starfsfólkið. Þá var gott að vera á vakt með góðu fólki og Didda var svo sannarlega ein þeirra sem gott var að starfa með. Röskleikinn í fyrirrúmi og öll störf vann hún af samviskusemi. Fyrir um áratug var deildinni breytt, hún varð minni og óneitanlega dálítið notalegri. Didda naut þess trausts að verða yfirmaður deildarinnar og stóð sig í alla staði með sóma. Hún var vinsæl og vel látin jafnt af starfsfólki sem vistmönnum. Okkar kynni urðu nánari eftir þessar breytingar og reyndist Didda mér í alla staði vel, sérstaklega var hún næm á það þegar á bjátaði. Fyrir það verð ég ævinlega þakklát.

Ég þakka fyrir þau ár sem við áttum saman, minningin um góða konu lifir og hefur gert okkur sem eftir lifum ríkari.

Birgi, börnum þeirra, Sigurjóni, Nönnu Báru og Dagnýju, Önnu móður hennar og öðrum aðstandendum sendi ég innilegustu samúðarkveðjur og bið þeim Guðs blessunar á erfiðum stundum.

Eydís (Dísa).