Björn Sigurðsson Við viljum minnast í fáum orðum vinar okkar Björns Sigurðssonar sem er látinn langt um aldur fram. Kynni okkar Bjössa tókust fyrir rúmum tíu árum þegar við vorum nágrannar á Grenimelnum. Hann var hjálpfús og bóngóður þegar til hans var leitað og eigum við honum margt að þakka. Það er erfitt að trúa því að við sjáum ekki framar Bjössa vin okkar með bros á vör, eða heyrum dillandi hlátur hans.

Hann undi sér vel við smíðar og að dytta að hlutum, og fyrir fimm árum smíðaði hann sér sumarhús í landi Efstadals. Bæinn nefndi hann Sólvelli eftir átthögunum á Skagaströnd. Þar eyddi hann öllum sínum frítíma á sumrin. Hann unni sveitinni og hvergi skein sólin jafn mikið, og þrátt fyrir rigningu í Laugardalnum var bara smáskúr við bústaðinn hans.

Eftirlifandi eiginkona Bjössa er Eygló. Hún átti Guðbjörgu fyrir hjónaband, sem hann gekk í föðurstað. Fyrir tæpum þremur árum fæddist afastrákur, Einar Sindri, og var hann sólargeisli í lífi hans.

Við sendum fjölskyldu hans og tengdafólki innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning hans.

Kristín (Didda) og

Ólafur Gunnar.