Guðmundur Óskar Jónsson Í minningunni er mynd föður míns falleg og skýr. Virðulegur, yfirvegaður og rólegur á svip, með glampa í augum og skemmtilega kímnigáfu. Yfir honum var heiðríkja og mildur höfðingsbragur. Hann var óvenju heilsteyptur og sterkur einstaklingur, lagði aldrei illt til nokkurs manns en talaði um samferðafólk sitt af samúð og velvild. Þarna fór ekki alltaf margmáll maður en afskaplega hlýr og góður.

Faðir minn, Guðmundur Óskar Jónsson, eða Óskar eins og hann var jafnan kallaður, var ellefta barn hjónanna Jóns Þ. Jónssonar og Jófríðar Ásmundsdóttur en börn þeirra urðu alls sextán að tölu. Öll börnin lifðu og urðu mikið manndómsfólk. Líf þessara hjóna markaðist af erfiðri og harðri lífsbaráttu sem gæti orðið mörgu nútímafólki óþrjótandi umhugsunarefni. Barn að aldri dvaldist ég tíu sumur á Gunnlaugsstöðum. Mikil var gleðin þegar öll systkinin sextán ásamt fjölskyldum sínum komu saman á Gunnlaugsstöðum. Það var sungið og dansað og ekki hætt þótt baðstofugólfið svignaði. Skörungarnir, föðursystur mínar, héldu þétt um stjórnvölinn í þessum fjölskyldusamkvæmum. Ekki var rúm fyrir allan þennan fjölda í íbúðarhúsum. Sofið var úti í hlöðu og einnig í tjöldum úti um allt tún. Þessi stóri og lífsglaði systkinahópur sýndi ætíð foreldrum sínum og gamla heimilinu mikla ræktarsemi og samheldni fjölskyldunnar var einstök. Í landi Gunnlaugsstaða er gróskumikill skógarreitur, 1,5 ha að stærð, þar sem systkinin sextán hófu gróðursetningu 1948.

Á sjötta ári var Óskar sendur í fóstur til móðursystur sinnar, Önnu Ásmundsdóttur og eiginmanns hennar, Guðmundar Sigurðssonar, bónda á Helgavatni í Þverárhlíð. Æskustöðvarnar í Borgarfirði mótuðu Óskar í æsku og áttu rík ítök í honum alla ævi. Náttúrufegurðar naut hann best þar. Á þessum árum var skólaganga ólíkt styttri en hún er í dag, leiðin til mennta var torsótt. En veturinn 1935­1936 tókst honum að kosta sig til náms í Héraðsskólanum í Reykholti og tók þaðan lokapróf um vorið. Reyndar hafði honum leikið hugur á frekara námi en fjárhagurinn sneið honum stakkinn. Á Helgavatni vandist hann allri algengri sveitavinnu og komst á þann hátt í nána snertingu við náttúruna, lifandi og dauða. Dvaldist hann þar uns hann fluttist alfarinn suður til Reykjavíkur árið 1941. Fljótlega keypti hann eiginn bíl og var í leigubifreiðastjóri í 24 ár.

Árið 1947 gerðist Óskar stofnfélagi í Byggingarsamvinnufélagi atvinnubifreiðastjóra (BSAB). Hann var formaður þess félags 1955­1972 og framkvæmdastjóri þess 1965­1980. Árið 1964 gerði ríkisstjórnin samráðssamninga við verkalýðshreyfinguna um umbætur í húsnæðismálum. Eitt minnismerkið um þá samninga eru íbúðir þær sem BSAB byggði. Kjarasamningar og húsnæðismál hafa sennilega aldrei verið jafn samtvinnuð og varð á sjöunda, áttunda og níunda áratugnum. Á þeim árum átti sér stað grundvallarbreyting í húsnæðismálum þjóðarinnar sem var ótvírætt til bóta fyrir allan þorra landsmanna, ekki síst láglaunafólk. Samningarnir 1964 voru hinir fyrstu þessarar gerðar og voru undanfari þeirra stórkostlegu framfara sem fóru í hönd. BSAB var með stærstu byggingarsamvinnufélögum í landinu á þessum tíma. Faðir minn var því í mörgu einn af brautryðjendum síns tíma og setti þannig svip á Reykjavík. Mun hann hafa stjórnað byggingu 500 íbúða á vegum BSAB. Vinnudagurinn var oft langur og man ég vart eftir að hafa kynnst iðnari og ósérhlífnari manni. Hann var sannur félagshyggjumaður, vann af hugsjón og tók ávallt málstað þeirra sem minna máttu sín í lífinu og skipaði sér í sveit þeirra sem helst börðust fyrir bættum hag hinna verst settu í þjóðfélaginu. Hann hélt á málum af fullri einurð ef þess gerðist þörf, eyddi ekki um efni fram en stóð í skilum við samfélagið. Hann var mótaður af lífsbaráttu þriðja og fjórða áratugarins sem hann fór ekki varhluta af og gekk snemma til liðs við verkalýðshreyfinguna og var trúr henni allt sitt líf. Árið 1981 stofnaði hann nýtt félag, Byggingarsamvinnufélagið Skjól, var framkvæmdastjóri þess og sá um byggingu 24 íbúða og þriggja raðhúsa fyrir það félag.

Óskar var mikill skógræktarmaður. Árið 1974 keypti hann landspildu í Ölfushreppi og stofnaði þar garðyrkjubýlið Þrastarhól. Það ár var land þetta einungis blaut, óræktuð mýri. En mýri þessi breyttist smám saman svo að um munaði og er nú orðin óþekkjanleg frá því sem áður var. Hann hóf strax mikla ræktun í Þrastarhóli og á gríðarlega jarðvegsvinnu þarna að baki, mikill verkmaður, var þar öllum sínum frístundum, byggði íbúðarhús, gróðurhús og jarðhús, hlóð mikinn skjólgarð úr torfi og lagði þangað hitaveitu árið 1989. Verklagni hans og smekkvísi var viðbrugðið. Þessi heimur gleymdist engum er honum kynntist. Kyrrðin gagntók hvern mann er hvarf inn í angandi, þéttvaxið skógarþykknið, fuglasöng og lækjarnið. Tíminn stóð skyndilega kyrr.

Faðir minn var heimspekilega sinnaður og þurfti alltaf að brjóta hvert mál til mergjar. Ræddum við oft lífið og tilveruna og gleymdum stað og stund. Eitt af því sem einkenndi pabba öðru fremur var mikill bókmenntaáhugi og hversu vel lesinn hann var. Meðal uppáhaldsskálda hans voru Halldór Laxness, Þórbergur Þórðarson og Davíð Stefánsson. Líf íslensks alþýðufólks á fyrri hluta þessarar aldar, sem gjarnan hefur verið umfjöllunarefni Nóbelsskáldsins, stóð honum nærri og taóisminn, sem oft má greina í bókum skáldsins, var í samræmi við lífsskoðanir hans. Hann gat lesið aftur og aftur texta þar sem frjó hugsun komst hnitmiðað til skila, þar sem orðsins list naut sín. Samfléttaður við þessa ást á góðum bókmenntum var áhugi hans á fólki yfirleitt. Undanfarin ár hellti hann sér út í ættfræðirannsóknir af brennandi áhuga og tókst að rekja ættir sínar langt aftur í aldir. Ekki lagði hann minni metnað í þessar rannsóknir en skógræktina og byggingarframkvæmdirnar.

Pabbi var sannkallað sameiningartákn fjölskyldunnar, burðarás heimilsins og traustasti stólpinn. Hann var okkur börnunum einstakur faðir og hornsteinn tilveru okkar. Hjá honum fundum við öryggið, festuna og tryggðina. Allt sem hann gaf verður hluti af okkur að eilífu. Hann brýndi fyrir okkur heiðarleika og heilbrigða lífshætti. Við bárum ómælda virðingu fyrir honum og leituðum mikið til hans. Þá var hann alla tíð sá sem sagði meiningu sína hreint út, hvort sem manni líkaði betur eða verr. Hann var einnig sá sem hvatti okkur áfram og vakti hjá okkur fallegar og göfugar hugsanir. Hann tók okkur alltaf jafn vel, með þessu stillilega og hægláta fasi sem einkenndi hann á hverju sem gekk.

Pabbi var einstaklega barngóður og hændust börn mjög að honum. Gladdist hann innilega yfir hverju barnabarninu og aldrei sparaði hann góð orð í þeirra garð. Voru þau öll sérstök í hans augum og bar hann hag þeirra fyrir brjósti. Það var sama hvernig stóð á hjá honum þegar börn birtust. Hann gaf þeim tíma, lék við þau og spjallaði. Sérhvert þeirra gerði hann að sínum bestu vinum. En hann var ekki aðeins sameiningarafl sinnar eigin fjölskyldu heldur heillar ættar. Fyrir liðlega 30 árum gerðist hann aðalhvatamaður að stofnun Niðjasamtaka Gunnlaugsstaðaættarinnar og lifa þau samtök góðu lífi enn í dag.

Snemma árs 1995 greindist krabbamein hjá föður mínum, en þá hafði hann átt við vanheilsu að stríða um nokkurra ára skeið þótt ekki bæri mikið á því. Hann hafði alltaf tekið vanda annarra mjög nærri sér, var bæði hjartastór og réttsýnn, en hver sá vandi sem að honum sneri var hins vegar alfarið hans einkamál. Auðvitað tók hann þann kostinn að berjast, eins og alltaf áður og gaf sig ekki fyrr en í fulla hnefana. Með fádæma æðruleysi og dugnaði streittist hann á móti sjúkdómi sínum og fór allra sinna ferða eins og kostur var þó oft væri hann sárkvalinn. Hann var einn sjálfstæðasti maður sem ég hef þekkt og vildi alls ekki vera baggi á neinum. Sjálfsbjargarviðleitnin, kjarkurinn, harkan og baráttuþrekið var ótrúlegt. Ekkert gat tekið bjartsýnina og hugrekkið frá honum, jafnvel ekki eftir að hann var orðinn þjakaður af banvænum sjúkdómi. Létt lundin, hláturinn og kímnigáfan voru án efa sterkustu vopn hans til að lifa af sársauka og erfiðleika. Fátt var talað um sorg og sút en þess meira um fegurð og gleði. Þegar sjúkdómur pabba var kominn á lokastig var athygli hans samt sem áður óskipt hjá fjölskyldunni. Sem fyrr bar hann meiri umhyggju fyrir öðrum en sjálfum sér. Jafnvel nálægð dauðans breytti honum ekki. Tilgangur lífsins var honum einfaldur og augljós. Sá að gefa af sjálfum sér, hlífa sér hvergi og vera heill til hinstu stundar.

Þegar ég hugsa til föður mína minnist ég nokkurra orða Halldórs Laxness sem minna mig sérstaklega á föður minn: "Menn skyldu varast að halda að þeir viti nú alla skapaða hluti þó þeir hafi lesið eitthvert slángur af bókum því sannleikurinn er ekki í bókum, og ekki einu sinni í góðum bókum, heldur í mönnum sem hafa gott hjartalag."

Ég átti því láni að fagna að með pabba og eiginmanni mínum, Ólafi R. Dýrmundssyni, var mjög kært alla tíð. Hann minnist m.a. með virðingu og þökk aðstoðar á námsárum erlendis, hollráða við húsbyggingu og trjárækt og margra góðra stunda sem þeir áttu saman, ekki síst síðari misserin. Ég veit að þar ríkti gagnkvæmt traust.

Að endingu sendi ég sérstakar kveðjur til alls starfsfólks á deild A-4 á Sjúkrahúsi Reykjavíkur, Heimahlynningar Krabbameinsfélags Íslands og Heimahjúkrunar. Ég þakka þessu góða fólki alla hjálpina og þann ómetanlega stuðning sem það veitti föður mínum og okkur aðstandendum.

Svanfríður S. Óskarsdóttir.