Hans Mann Jakobsson Mig langar í örfáum orðum að minnast Hans Jakobssonar eða Manna eins og hann var alltaf kallaður í fjölskyldunni. Hans Jakobsson átti viðburðaríka ævi þar sem oft reyndi á þolgæði hans og útsjónarsemi. Hann ólst upp í höfuðborg Þýskalands þar sem faðir hans var vel metinn iðnaðarmaður. Þegar illmenni náðu völdum í föðurlandi Manna varð hann ásamt fjölskyldu sinni að fara burtu og örlögin höguðu því þannig að leiðin lá hingað norður til Íslands. Móttökur þær sem hann fékk hér fyrstu árin hefðu gjarnan mátt vera betri, en hann var samt þakklátur Íslandi og Íslendingum fyrir að fá hér hæli.

Um það leyti er kona mín, Steinunn, fæddist hóf Manni sambúð með ömmu hennar, Olgu Helenu. Reyndist hann konu minni alla tíð eins og besti afi og var alltaf sérstaklega kært á milli þeirra. Manni var óþreytandi að rifja upp minningar frá æsku hennar. Hann var einstaklega barngóður og hafði gaman af að leika við börn og bar hag þeirra fyrir brjósti.

Vegna þeirra aðstæðna sem Manna voru búnar í æsku hlaut hann ekki mikla menntun í skóla en ekki þurfti að kynnast honum lengi til að komast að því að hann var mjög vel gefinn og fróður. Hann talaði íslensku mjög vel og einnig þýsku og ensku, þá var hann einnig vel að sér í hebresku. Hann fylgdist vel með öllum fréttum, bæði innlendum og erlendum, og var stálminnugur. Manni var maður hreinskiptinn og óhræddur við að láta skoðanir sínar í ljós. Það sem einkenndi Manna öðru fremur var einstakt æðruleysi sem fylgdi honum allt til dauðadags.

Eftir lát konu hans, Olgu, bjó hann einn á Karlagötunni. Hann var mjög þakklátur öllum, sem gerðu honum kleift að búa heima og halda sjálfstæði sínu.

Þessi jól sem nú eru senn á enda voru allt öðruvísi hjá okkur en áður. Það vantaði Manna. Öll árin sem við Steinunn höfum haldið heimili hér í Reykjavík kom hann til okkar á aðfangadagskvöld. Alltaf fylgdi honum andi umhyggju og kærleika. Við Steinunn, Helga og Kristinn þökkum honum samfylgdina og í hugum okkar munu ávallt sitja eftir ljúfar minningar um góðan vin.

Árni Jónsson.