Magnús Adolf Magnússon Magnús A. Magnússon er látinn. Hann dó á Landspítalanum á jóladagskvöld. Með Magnúsi er genginn góður drengur og gegn, slíkt prúðmenni að fágætt er. Hann var bæði ljúfur ­ svo sannur og trúr, ­ svo traustur og sá alltaf hið góða í öllum hlutum. Gerði öllum vel og gekk aldrei á hluta nokkurs manns. Hvers manns hugljúfi, sívinnandi eljumaður, sem kom sér alls staðar vel.

Hann var áttræður að aldri er hann lést, borinn og barnfæddur úti í Vestmannaeyjum, en flutti upp á land og starfaði lengi hjá Vegagerð ríkisins. Hann lagði leið sína norður, vann á vélum við vegagerð undir stjórn Jóhanns Hjörleifssonar vegaverkstjóra að uppbyggingu vegarins til Akureyrar, þá um Vatnsskarð, niður í Skagafjörð. Þá naut Magnús sín vel á stórvirkum vinnuvélum sem til landsins voru að koma og boðuðu nýja tíma ­ tíma tækni og framfara ­ jarðýturnar, beltavélarnar, sem ullu byltingu í atvinnusögu landsmanna.

Ráðskonan í þessum annálaða og harðduglega vinnuflokki sumarið 1943, Ólöf Ingunn Björnsdóttir, uppeldissystir mín og náfrænka, var ekki lengi að sjá hver mannkostamaður Magnús var. Þá ekki síður hann, að sjá kosti hinnar glæsilegu skagfirsku stúlku, enda fór svo að fljótt bundust þau tryggðum, ung og æskuheit og lögðu saman út í lífsbaráttuna.

Þá kom Magnús oft í Vallholt á eðalvagninum sínum, kolsvörtum, svo glansandi og gljáandi. "Drossían" hans Magga sögðum við himinlifandi. Það jafnaðist ekkert á við að fá að sitja í og finna hvernig drossían dúaði. Eins og við svifum á einhverri himinsæng um óravíddir algleymisins. Þessi vel hirti vagn var sérstakt augnayndi okkar krakkanna í Vallholti, sem vorum nokkrum árum yngri en þetta ástfangna fólk sem okkur þótti svo vænt um. Svo glæsileg sem þau voru, bæði tvö, geislandi af lífi og hamingju. Þá voru góðir tímar.

Lífið og starfið beið þeirra syðra í borginni við sundin blá. Þau urðu meðal fyrstu landnema í hinum unga kaupstað, Kópavogi, sem var að rísa milli tveggja voga, ekki steinsnar frá Reykjavík. Þau byggðu sér stórt hús við Kársnesbrautina, hús númer 24 og áttu þar heima langa tíð, við ást og yndi. Þau voru mjög samhent, eins og ein sál í tveimur verum, en voru samt svo ólík. Hún svo geislandi af fjöri, syngjandi kát og ræðin, en hann slíkur alvörumaður, hægur og gætinn svo af bar og eiga ekki allir slíka mannkosti til að bera.

Starfsvið Magnúsar var við vélar, þær áttu hans hug. Um meira en tveggja áratuga skeið starfaði Magnús hjá Vegagerðinni. Fyrstu árin þar stundaði hann jafnframt nám í bifvélavirkjun og vann síðan langa starfsæfi við vélaviðgerðir og eftirlit, fyrst hjá Vegagerðinni, síðar hjá Heklu hf., þá hjá Ó. Johnson & Kaaber, DAF-umboðinu. Lengur þó hjá bílaleigunni Fal, verkstjóri þar og hafði umsjón og eftirlit með útleigubílunum. Starfsferlinum lauk hann svo hjá Bifreiðum og landbúnaðarvélum hf.

Hjá öllum þessum fyrirtækjum vann Magnús við vélar og fórst það verk vel úr hendi. Vandvirkni og iðjusemi einkenndi allt hans starf. Með rólegri íhugun, eftirtekt og aðgæslu vann hann sitt starf í kyrrð og næði. Það eru góðir starfsmenn, sem bera slíkt í fari sínu og tileinka sér slíka eiginleika. Eiginkona hans var sem fyrr er frá greint, Ólöf Ingunn Björnsdóttir frá Syðra-Vallholti í Skagafirði. Hún er látin fyrir fáum árum. Þau hjón eignuðust tvö börn, stúlku og dreng. Hún heitir Kolbrún Dísa ­ búsett í Kópavogi, gift Birni Ólafssyni borgfirskrar ættar. Eiga þau stóran og myndarlegan barnahóp. Sonurinn heitir Björn Magnús og býr einnig í Kópavogi. Hann er kvæntur Steinunni Torfadóttur, skaftfellskrar ættar, komin frá Hala í Suðursveit. Þau eiga tvö börn uppkomin. Á hverju ári komu þau hjón norður í Skagafjörð í sínu sumarleyfi, þau Maggi og Lóa, sem þau jafnan voru kölluð. Þá urðu fagnaðarfundir í Vallholti, frændur og vinir eru víða norðan fjalla, víða þurfti að koma og tíminn fljótur að líða og það varð líka að sinna verkunum. Ljúft er mér að minnast iðjusemi Magnúsar við hrífuna. Hann á mörg hrífuförin í Vallholti. Meiri vandvirkni og samviskusemi er ekki til. Það mátti ekki verða eftir eitt strá, svo eftir væri tekið og hirt. Hann fór oft með krakkana í eftirleit um völlinn að lokinni hirðingu og hún var stundum drjúg eftirtekjan.

Ekki varð langt á milli þeirra hjóna. Ólöf lést 22.09. 1993 á Landspítalanum og Magnús eins og áður sagði 25.12. 1996. Hann er því kominn til hennar Lóu sinnar, en svo var hún ávallt nefnd af frændfólki og vinum. Saman halda þau jólin í ár eins og var. Hafi þau þökk fyrir allt og allt. Blessuð sé minning þeirra.

Afkomendum þeirra, hinum stóra frændgarði sem upp vex, vil ég votta innilega samúð mína og hluttekningu við fráfall þessara mætu hjóna.

Gunnar Gunnarsson,

Syðra-Vallholti.