Magnús Adolf Magnússon Mig langar að minnast Magnúsar A. Magnússonar í örfáum orðum. Ég kynntist Magnúsi árið 1981. Hann var afi konunnar minnar, Erlu Maríu Kristinsdóttur. Hún ólst að miklu leyti upp á heimili hans og konu hans, Ólafar Ingunnar Björnsdóttur, sem lést árið 1993. Ég man að í fyrsta skipti sem ég hitti Magnús spjölluðum við mjög lengi saman og kunni ég vel við hann. Erla sagði þá við mig að þetta væri mjög óvenjulegt, því afi hennar talaði vanalega ekki svona mikið. Tveimur mánuðum síðar fóru ég og Erla saman með vinum í helgarreisu til Hornafjarðar. Erla átti að mæta í próf á mánudeginum en viti menn, bíllinn bilaði á leiðinni heim þannig að hún missti af prófinu. Þá sagði Magnús við hana: "Nú hættir þú með þessum dreng." Sem betur fer tók hann mig aftur í sátt. Þetta er eina skiptið sem ég hef séð Magnús reiðan á fimmtán árum.

Magnús var góður maður. Hann kom oft í heimsókn og strákarnir okkar elskuðu hann mikið og hlökkuðu alltaf til að sjá hann. Magnús var hjá okkur í mat á aðfangadagskvöld síðstu tvenn jól og vildum við einnig hafa hann hjá okkur þessi jól. Læknar sögðu að það væri í lagi ef Magnús treysti sér til. Hann var búinn að vera á spítala í tæpa tvo mánuði þannig að hann hlakkaði til að koma. Þegar við fórum að sækja hann hafði honum versnað mikið en vildi samt koma. Hann var hjá okkur á aðfangadag en á hádegi á jóladag hringdum við á sjúkrabíl því honum hafði hrakað svo mikið. Magnús lést um kvöldið.

Ég vil að leiðarlokum þakka Magnúsi góð kynni og vináttu. Guð gefi þér frið og hvíld um alla eilífð.

Ómar Óskarsson.