Unnur María Magnúsdóttir Í dag kveð ég tengdamóður mína í síðasta sinn. Ég kynntist Unni 1983 þegar ég fór að koma ásamt fimm ára dóttir minni á heimili hennar, með syni hennar Magnúsi. Unnur tók okkur strax afar vel. Mér fannst ég strax umvafin þessari einstöku hjartahlýju og væntumþykju sem hún alltaf sýndi.

Nú þegar jólin eru að kveðja verður manni hugsað með söknuði til jólaboðanna hennar. Á jóladag höfum við fjölskyldan alltaf verið samankomin á heimili hennar, en ekki núna. Þetta voru öðruvísi jól. Núna fórum við í Sjúkrahús Reykjavíkur þar sem við horfðum á hana heyja harða baráttu við erfiðan sjúkdóm.

Unnur var glæsileg kona sem hafði yndi af því að vera vel til höfð og sjaldan sá ég hana hamingjusamari en þegar hún var búin að kaupa sér eitthvað nýtt til að klæðast eða skreyta sig með. Hún hafði mjög gaman af því að ferðast og var mikið náttúrubarn í sér. Við ferðuðumst saman bæði erlendis og hér heima, síðasta ferðin okkar saman var í júlí síðastliðið sumar þegar við dvöldum viku í sumarhúsi í Húsafellsskógi. Þá dáðist ég að dugnaði hennar, því þá var hún orðin mikið þjáð af þeim sjúkdómi sem að lokum dró hana til dauða. En ég held að hún hafi notið þeirrar ferðar þó erfið hafi verið fyrir hana og ógleymanleg verður hún mér í minningunni um góða tengdamóðir.

Unnur var mjög lagin í höndunum og listræn, þess bera vitni allir þeir hlutir sem hún bjó til. Hún hafði sérstaklega gaman af því að vinna alls konar jólahluti sem hún síðan gaf fjölskyldunni. Þeir eiga örugglega eftir að minna okkur á hana um ókomin jól. Hún var mjög stolt af sinni fjölskyldu og reyndist hún henni afar vel í hennar veikindum. Aldrei leið sá dagur að ekki væri komið til hennar af einhverjum úr fjölskyldunni þá fjóra mánuði sem hún dvaldi á sjúkrahúsi. Vegna búsetu okkar fyrir utan höfuðborgina hefur meira bitnað á dætrum hennar að hugsa um hana og var sú umhugsun til fyrirmyndar.

Lífið tók tengdamóður mína ekki alltaf vettlingatökum og sýndi henni ekki alltaf sanngirni. Hún fór hins vegar vel með sitt líf, var síglöð og hvatti aðra til dáða og gaf þeim þrek. Hún lét aldrei bilbug á sér finna og mætti áföllum með æðruleysi. En marga átti hún góða daga, mest fyrir tilverknað hennar sjálfrar. Svona kona eins og Unnur hlaut að eignast marga góða vini. Hún naut hlýju og góðvildar þeirra sem hún þekkti og margir voru til að styrkja hana í hennar veikindum.

Ég flyt hér kærar kveðjur til Unnar frá dóttur minni sem ekki getur verið viðstödd útför hennar vegna dvalar erlendis með þakklæti fyrir alla þá góðvild sem hún ávallt sýndi henni.

Kæra tengdamamma, það sem gerði þig að sérstakri tengdamömmu var hve afskiptalaus þú varst.

Gegnum tárin geisli skín

gleði og huggun vekur.

Göfug andans áhrif þín

enginn frá mér tekur.

(G.Þ.)

Ástarþakkir fyrir allt.

Guðríður Magnúsdóttir.