ÁRNI KRISTJÁNSSON Árni Kristjánsson píanóleikari varð níræður 17. desember sl. Á þeim tímamótum er mér ljúft að senda honum örlitla afmæliskveðju. Þegar skrifað er um mann sem Árna Kristjánsson er erfitt að gera því efni viðhlítandi skil í stuttu máli, því slíkt er umfang, stærð og áhrif þessa manns á tónlistar- og menningarlíf okkar Íslendinga á þessari öld. Við vorum svo heppin að eiga slíkan mann á tímum, sem þurftu ekki einungis á góðum listamönnum að halda heldur líka á mönnum sem vörðuðu veginn í menningarlegu tilliti. Störf Árna Kristjánssonar í íslensku þjóðlífi eru geysilega margþætt og mikil að vöxtum. Til marks um það er rétt að nefna störf hans sem píanóleikara og kennara, en hann kenndi í 50 ár við Tónlistarskólann í Reykjavík. Þegar Páll Ísólfsson tónskáld og organleikari lét af störfum sem skólastjóri Tónlistarskólans tók Árni við því starfi og gegndi því þar til hann tók við starfi tónlistarstjóra Ríkisútvarpsins. Á þeim tíma var starf tólnistarstjóra Ríkisútvarpsins ekki einungis bundið við Útvarpið, heldur var rekstur og sérstaklega listræn stjórnun Sinfóníuhljómsveitar Íslands stór þáttur í starfi hans. Enda þótt starf Árna hjá Ríkisútvarpinu væri mjög tímafrekt, hafði hann samt tíma aflögu til að halda tónleika, kenna, skrifa geinar og halda erindi. Það er með ólíkindum hvernig hann fór að því að komast yfir þetta allt. Ég minnist með gleði og þakklæti ógleymanlegra tónleika sem Árni hélt með Erling Blöndal Bengtsson, þegar þeir léku t.d. öll verk Beethovens fyrir selló og píanó, eða stórkostlegra tónleika í Austurbæjarbíói þegar hann lék með ítalska fiðlusnillingnum Pinu Carmirelli. Sjálfur var ég svo heppinn að fá að leika með honum kammermúsík við nokkur tækifæri og var það mér ógleymanleg lífsreynsla. Árni er auk þess að vera listamaður af Guðs náð mikill gæfumaður í einkalífi, því í eiginkonu sinni, Önnu Steingrímsdóttur, eignaðist hann einstakan lífsförunaut.

Við hjónin sendum þeim báðum okkar innilegustu hamingjuóskir og biðjum þau vel að lifa.

Gunnar Kvaran

sellóleikari.