Reyðarfirði-Í vetur hefur Laufey Eiríksdóttir, skólasafnafulltrúi á Skólaskrifstofu Austurlands, unnið að samtengingu safna á Austurlandi í samvinnu við Hendricus Bjarnason, kerfisfræðing hjá Skýrr og umsjónarmann með bókasafnskerfinu Feng.

Söfn á Austurlandi tengjast

Reyðarfirði - Í vetur hefur Laufey Eiríksdóttir, skólasafnafulltrúi á Skólaskrifstofu Austurlands, unnið að samtengingu safna á Austurlandi í samvinnu við Hendricus Bjarnason, kerfisfræðing hjá Skýrr og umsjónarmann með bókasafnskerfinu Feng. Laufey og Hendricus hafa haldið fundi eystra fyrir umsjónarmenn safna og kynnt kerfið og í framhaldi af því undirrituðu þeir Hendricus fyrir hönd Skýrr og Einar Már Sigurðsson, forstöðumaður Skólaskrifstofu Austurlands, samning þar sem Skólaskrifstofan keypti sér sem safnstöð aðgang að Feng.

Ávinningurinn að mati Laufeyjar er þríþættur. Í fyrsta lagi auðveldar þetta alla skráningu gagna en megnið af söfnunum er óskráð. Í Feng liggur fyrir skráning á fjölmörgum titlum því Borgarbókasafnið og öll skólasöfn í Reykjavík og í Garðabæ eru tengd Feng og söfnun á Austurlandi nægir því að finna bókatitlana og tengja sem er mun fljótlegra en að nýskrá bók. Í öðru lagi geta söfn á Austurlandi, á mjög auðveldan hátt, kannað hvað finnst á öðrum söfnum og lánað sín á milli og í þriðja lagi gefst fólki annars staðar á landinu tækifæri til að leita hér á svæðinu að efni sem ekki er aðgengilegt annars staðar en það er oft staðbundið efni. Sérlega ætti þetta að nýtast vel mörgum námsmönnum.

Strax í sumar tengjast Feng Skólaskrifstofa Austurlands, Menntaskólinn á Egilsstöðum, Verkmenntaskólinn í Neskaupstað, Héraðsskjalasafn Austfirðinga og grunnskólarnir á Reyðarfirði og Seyðisfirði og önnur söfn koma síðan inn á þessu ári og því næsta.

Austurland er þannig fyrsti landshlutinn til að samtengja öll skóla- og bókasöfn á svæðinu og við lítum á þetta sem mikið framfaraspor í austufirskum safnamálum. Með þessari samtengingu er lagður grunnur að góðri samvinnu og með þeim tæknibúnaði og internettengingu sem söfnin koma sér upp opnast möguleiki á enn fjölbreyttari upplýsingamiðlun.

Morgunblaðið/Hallfríður Bjarnadóttir UNNIÐ að tengingu á Feng. Starfsmenn Austurlands þær Laufey Eiríksdóttir og Gíslunn Jóhannsdóttir ásamt Hendricus Bjarnasyni.