KANON-arkitektar ehf. í Reykjavík hlutu fyrstu verðlaun í hugmyndasamkeppni um heildarskipulag Naustahverfis á Akureyri. Úrslit voru kynnt sl. sunnudag í Listasafninu í Grófargili og um leið var opnuð sýning á þeim fimm tillögum sem kepptu um fyrstu verðlaun. Höfundar verðlaunatillögunnar eru arkitektarnir Halldóra Bragadóttir, Helgi Bollason Thoroddsen og Þórður Steingrímsson.
Kanon-arkitektar sigruðu í hugmyndasamkeppni um skipulag Naustahverfis Verðlaunatillagan snjöll og heildstæð

KANON-arkitektar ehf. í Reykjavík hlutu fyrstu verðlaun í hugmyndasamkeppni um heildarskipulag Naustahverfis á Akureyri. Úrslit voru kynnt sl. sunnudag í Listasafninu í Grófargili og um leið var opnuð sýning á þeim fimm tillögum sem kepptu um fyrstu verðlaun. Höfundar verðlaunatillögunnar eru arkitektarnir Halldóra Bragadóttir, Helgi Bollason Thoroddsen og Þórður Steingrímsson.

Naustahverfi er framtíðarbyggingarland Akureyrar, suður frá núverandi byggð að Kjarnaskógi, alls um 195 hektarar að stærð. Þar er gert ráð fyrir um 6000 manna byggð í um 2000 íbúðum, sem skiptist í tvö skólahverfi. Ráðgert er að byggingarframkvæmdir hefjist á svæðinu upp úr aldamótum.

Heildarkostnaður um 30 milljarðar

Við athöfnina á sunnudag sagði Jakob Björnsson, bæjarstjóri að það hefði tekið 30 ár að fjölga bæjarbúum úr 10.000 í 15.000 en hann vonast til að ekki taki jafn langan tíma að fjölga íbúum upp í 20.000. Sigfríður Þorsteinsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður dómnefndar kynnti niðurstöðu nefndarinnar og sagði m.a. að heildarkostnaður við uppbyggingu svæðisins væri um 30 milljarðar króna. Hún sagði að fyrir hverja tillögu væru greiddar 800 þúsund krónur og 800 þúsund krónur til viðbótar fyrir verðlaunatillöguna.

Árni Ólafsson, skipulagstjóri og dómnefndarmaður, sagði grundvallarmun á tillögunum fimm og gaman væri að sjá lausnirnar unnar á svo mismunandi hátt. Hann sagði að í tillögum kæmi fram heilmikil þekking sem fróðlegt væri fyrir alla að sjá.

Gert ráð fyrir 2160 íbúðum

Að mati dómnefndar er verðlaunatillagan snjöll og heildstæð og svarar í öllum meginatriðum þeim markmiðum sem sett voru fram í keppnislýsingu. Grunnhugmynd hennar er einföld en tillagan felur samt í sér margbreytileika og sveigjanleika. Tillagan er þróunarhæf en dómnefndin bendir á að draga megi úr ágöllum umferðarkerfisins án þess að raska meginhugmynd skipulagsins.

Í verðlaunatillögunni er gert ráð fyrir 2160 íbúðum ásamt tveimur grunnskólum og fimm leikskólum, öðrum stofnunum og nauðsynlegri þjónustu. Íbúðagerðirnar skipast í 105 íbúðir í einbýlishúsum, 129 íbúðir í rað-, par- og keðjuhúsum og 389 íbúðir í fjölbýlishúsum.

Auglýst var eftir teiknistofum sem áhuga höfðu á þátttöku í keppninni og bárust 32 svör. Sérstök forvalsnefnd valdi fimm aðila úr hópi umsækjenda. Auk Kanon- arkitekta tóku þátt; Arkitektastofan Grófargili, Akureyri, ATH- vinnustofa, Reykjavík, GLÁMA/KÍN-Arkitektar, Reykjavík og Teiknistofur Guðrúnar Jónsdóttur, Knúts Jeppesen og Auðar Sveinsdóttur.

Morgunblaðið/Björn Gíslason TVEIR af þremur höfundum verðlaunatillögunnar, Halldóra Bragadóttir og Helgi Bollason Thoroddsen. Þriðji höfundurinn, Þórður Steingrímsson, gat ekki verið við verðlaunaafhendinguna á sunnudag.